Han Ping hjónin
 
Saga sú sem hér fer á eftir er kínversk, frá því á dögum Austur-Ĝin-ríkisins sem var við lýði á árunum 317–420 eftir Krists burð. Hún er eða réttara sagt var varðveitt á bók sem nefndist Sagnabálkur af guðum. Hét sá Ĝan Baŭ sem talinn er hafa safnað sögum til þeirrar bókar en í henni hafa verið meira en 400 sagnir af guðum, draugum, öndum og fólki sem farið gat hamförum. Frumrit bókarinnar er nú glatað en seinni menn hafa endurgert hana eftir gömlum uppskriftum af textum hennar.
   Sagan af Han Ping hjónunum fjallar um ást sem nær út fyrir gröf og dauða. Er auðsær skyldleikinn með henni og Sögunni af Tristran og Ísodd sem löngu seinna var rituð á bók á Vesturlöndum. Sagan er þýdd úr 11. hefti El Popola Cinio 1987. Sagan birtist fyrst á íslensku í La Tradukisto. Unua numero, 12. mars 1989.
 
Han Ping hjónin
 
Han Ping var þegn Jan konungs í Song-ríki. Hann kvæntist stúlku úr He fjölskyldu en þar sem hún  var mjög fögur tók konungur hana til sín og gerði að frillu sinni. Varð Han Ping nú af þessu ákaflega hryggur en konungur lét varpa honum í dýflissu og dæmdi hann síðan til þrælkunar. Skyldi hann gæta borgarinnar um daga en á nóttunni átti hann að reisa múr umhverfis hana.
   Konan sendi manni sínum bréf með leynd en í því stóð skrifað: „Það rignir án afláts, áin er breið og djúp og sólin vermir mig.“ Skömmu síðar féll bréfið í hendur konungs sem sýndi það gæðingum sínum. En þeir gátu með engu móti skilið til hvers orðin skírskotuðu þar til undirsáti hans, Su He, sagði: „Það rignir án afláts“ vísar til þess að konan er harmþrungin og grætur án afláts. „Áin er breið og djúp“ vísar til þess að þeim hjónum hefur verið stíað sundur. „Sólin vermir mig“ vísar til þess að hún hefur ákveðið að svipta sig lífi. Skömmu seinna fyrirfór Han Ping sér.
   Kona Han Pings lét nú svo enginn vissi fúa koma í föt sín. Og eitt sinn, þegar konungur gekk með henni fram á háar garðsvalir, kastaði hún sér skyndilega fram af þeim. Þeir sem næstir stóðu þrifu til hennar en gátu ekki haldið henni þar sem fúin fötin létu undan og beið hún svo bana af fallinu. Við belti hennar fundu menn ritaða andlátsósk hennar svohljóðandi: „Þér vilduð vafalaust að ég lifði én ég kaus fremur dauðann. Ég bið þess eins að þér látið grafa mig við hlið Han Pings.“
   Konungur varð bálreiður. Hann virti hinstu ósk hennar að vettugi og skipaði að láta jarða hana skammt frá gröf Han Pings og sagði um leið: „Þar sem þið hjón elskið hvort annað svo mjög þá skal ég ekki hindra að þið tengið saman grafir ykkar.“
   Daginn eftir spruttu tvö „katalpatré“ upp af gröfunum tveim. Og svo hratt uxu þau að tíu dögum seinna voru þau orðin meira en feðmingur að gildleika. Þau hölluðu sér hvort að öðru eins og þau föðmuðust og neðanjarðar fléttuðust rætur þeirra saman. Ástarfuglahjón gerðu sér hreiður í krónum þeirra og viku hvorki þaðan nótt né dag heldur hjúfruðu sig saman og sungu dapurlega. Íbúar Song-ríkis fylltust samúð vegna þessara teikna og gáfu trjánum nafnið þráviður[1] en fólk taldi að ástarfuglarnir væru andar Han Ping hjónanna.
   Nú er í Sujjang-fylki borg sem heitir Hanping og enn þann dag í dag gengur þar þjóðsagan um þennan atburð.
 

[1] Um þessar mundir kom nafnið þráviður einmitt fram í Kína.