[Þórbergur skrifar bréf þetta þar sem hann er staddur á þingi norrænna rithöfunda í Osló sem haldið var 1. – 6. júní. Sjá Bréf Þórbergs til Kristínar hér að framan, dagsett í Björgvin 20. maí 1930. Aðrir íslenskir rithöfundar sem þátt tóku í þinginu voru: Gunnar Gunnarsson, Halldór Kiljan, Kristmann Guðmundsson og Sigurður Nordal. (Sjá Pétur Gunnarsson: Í fátæktarlandi, bls 185–186, og Halldór Guðmundsson: Skáldalíf, bls. 202–204). Þórbergi er greinilegra meira í mun að greina Vilmundi vini sínum frá esperantostörfum sínum, einkum þó orðabókarstarfinu, heldur en viðburðum á þinginu sem hann nefnir ekki í bréfinu enda á Esperanto á þessum tíma hug hans allan og utan þingtímans umgekkst hann fyrst fremst esperantista eins og fram kemur í Alþjóðamál og málleysur, bls. 124–124, en þar segir Þórbergur frá skiptum sínum við esperantistann Jens Schjerfe, sem tók einstaklega vel á móti honum þegar hann kom á rithöfundaþingið í Osló, og fleiri esperantistum sem fylgdu honum vítt um borgina]

 
Oslo, 4. júní 1930
 
I
Kæri vinur!
 
   Líklega ertu farinn að halda að ég sé búinn að gleyma Ísafirði. Kannski heldurðu að hinir gömlu dagar séu horfnir mér úr minni, þeir dagar sem við áttum saman á síðasta áratug og aldrei verða endurvaktir. En það er samt svo að einasti gróðurblettur í landi fortíðarinnar er vera mín á heimili þínu þrátt fyrir síendurteknar morðtilraunir okkar slægvitru *Leu. Og þegar ég að lokum líð burt úr heimi vindkalda og kjötáts þá mun ég síðast festa augun á Ísafirði með sínum blikandi sundum og reykjarstrókum á lognkyrrum kveldum.
 
II
 
   En í fyrravetur var ég hlaðinn ýmiss konar störfum. Fyrir utan hina þreytandi kennslu í Ingimarsskóla hélt ég esperantonámskeið þrisvar í viku frá því í byrjun nóvember fram í miðjan apríl. Á námskeiðinu kenndi ég eftir aðferð Ĉe. Hún er án efa miklu skemmtilegri, ekki einungis fyrir kennarann heldur einnig fyrir nemendurna. Auk þess vekur hún áhuga og gefur betri árangur en hin dauða bókstafsaðferð. Þátttakendur á námskeiði mínu geta í rauninni talað miklu meira en þeir halda. Samt efast ég ekki um að árangurinn gæti orðið betri þegar ég hef fengið meiri æfingu í þessari kennsluaðferð. Það er margsannað utanlands að nemendur, sem kennt hefir verið eftir Ĉe aðferðinni, ráða allvel við að tala og skrifa Esperanto eftir 40 kennslustundir. Ég hafði 50 kennslustundir en ég gerði þau mistök að hafa kennslustundir aðeins þrisvar í viku. En það er án efa hagkvæmara að þær séu að minnsta kosti fimm eða sex sinnum í viku. Auk þess þurfa Íslendingar alltaf nokkru lengri tíma til að læra Esperanto en aðrar germanskar þjóðir þar sem orðaforðinn og allt málkerfi okkar tungu er ekki eins alþjóðlegt og annarra.
   Í byrjun voru þátttakendur á námskeiði mínu 38 en í lok þess voru aðeins 18 eftir. Flestir þeirra sem luku námskeiðinu gengu í hið litla esperantosamfélag okkar en í því eru nú 50 félagar.
   Eins og þú eflaust veist vex notkun esperantos nú hröðum skrefum víða um lönd. Einkum er vöxtur málsins athygliverður í Svíþjóð, Eistlandi, Rússlandi, Grikklandi og Þýskalandi. Einnig hefir komið fram mikill áhugi á málinu meðal kennara í mjög mörgum löndum. Ĉe aðferðin hefir gert kraftaverk. En því miður vantar hana nægilega marga dugandi kennara því að til þess að kenna eftir aðferð Ĉe nægja ekki eiginleikar venjulegra kennara sem oftast eru gjörsneyddir allri þeirri hæfni sem til þarf. Meiru skiptir að kennarinn sé leikari og þegar öllu er á botninn hvolft er sú kennslufærni betri heldur en dauð þekking dauðs manns. Hvert naut getur verið kennari. En til þess að verða leikari þarf nokkra náttúrugáfu. Og náttúrugáfur eru sjaldgæfari fjársjóður en eiginleikar nautsins. Eftir því sem ég kemst næst eru nú aðeins til í heiminum tveir framúrskarandi esperantokennarar með slíkar náttúrugáfur sem kenna eftir Ĉe aðferðinni. Þeir eru Ĉe sjálfur og nemandi hans, hinn rúmenski Morariaŭ, sem ég hitti á esperantofundi í Kaupmannahöfn í fyrravetur. Hann var lögfræðingur að atvinnu en gerðist síðan blaðamaður og að lokum helgaði hann alla krafta sína esperantokennslu.
   Báðir hafa þessir menn einkum beitt kröftum að Svíþjóð. Ĉe byrjaði þar að kenna Esperanto haustið 1927. Og þar dvaldi hann í um það bil eitt ár. Síðan hélt hann til Eistlands. Nú kennir hann í Hollandi. Eftir að hann fór frá Svíþjóð kom Morariaŭ þangað og hefir kennt Esperanto þar fram til þessa. Á þessum tíma hafa um 20.000 Svíar lært Esperanto hjá þeim báðum og áhuginn á málinu fer stöðugt vaxandi. Margir sænskir kennarar hafa lært Esperanto og eru þegar byrjaðir að kenna það að eigin frumkvæði. Morariaŭ mun brátt halda námskeið í Danmörku og Ĉe kemur til Noregs um 20. júní til þess að halda þar námskeið fyrir kennara. Með komu hans búast menn við nýju lífi í esperantohreyfingunni í Noregi.
   Það er enginn vafi að á Íslandi gætu menn tekið miklu meiri framförum í Esperanto ef menn beittu sér meira. Auk þess standa menn frammi fyrir þeirri staðreynd að esperantokennsla í landi okkar ber ekki þann ávöxt sem hún ætti að gera. Því veldur orðabókarskortur. Besta ráð til að fullkomna nemendur í málinu, halda við því sem þeir hafa lært og efla áhuga þeirra á esperantomálefnum er að skrifast á við skoðanasystkin í útlöndum. En til þess eru íslenskir esperantistar vanbúnir meðan engin íslensk – esperanto orðabók er til. Venjulegir nemendur eiga erfitt með að nota danska eða enska orðabók. Mjög fáir kunna ensku og venjulega kunna þeir dönsku alls ekki svo vel að þeir geti haft nægilegt gagn af dansk – esperanto orðabók. Til þess þyrftu þeir íslensk – danska orðabók sem ekki er til fyrir utan hina stóru orðabók Blöndals en hún er allt of dýr fyrir fátæklinga. Auk þess er slík leit frá einni bók til annarrar bæði leiðinleg og hættuleg fyrir rétta notkun orðanna. Þar að auki er danska – esperanto orðabókin gömul og takmörkuð.
   Nauðsynlegasta verk okkar er þess vegna samning og útgáfa íslenskrar – esperanto orðabókar. Eins og þú veist þá snerum við esperanto – sænskri orðabók yfir í íslensk – esperanto orðabók. En sú þýðing nægir ekki íslenskum esperantistum. Til þess að fylla þetta efni og einkum til að auðga það með alls konar orðtökum og orðatiltækjum hef ég lesið vandlega og safnað orðum síðustu þrjú ár úr eftirfarandi bókum og tímaritum:
 
Fundamento de Esperanto (Z),
Krestomatio de la lingvo Esperanto (Z),
La Rabistoj (Z),
Ifgenio en Taŭrido (Z),
La Revizoro (Z),
Lingvaj respondoj (Z),
Marta (Z),
Fabeloj de Andersen I – II  (Z),
Rabeno de Baĥarah (Z),
La Gimnazio (Z),
Georgo Dandin (Z),
Hamleto (Z),
Batalo de l’ vivo (Z),
Originala verkaro de Zamenhof,
Dokumentoj de Esperanto (Z kaj aliaj),
Internacia krestomatio (Kabe),
Historio de la lingvo Esperanto I – II (Privat),
Vivo de Zamenhof (Privat),
Karlo (Privat),
Sakuntala,
La sonĝo de Makaro,
Elektitaj humoraj rakontoj,
Por kaj kontraŭ Esperanto,
Franca gramatiko,
Bonhumoraj rakontoj,
Elparolo de Esperanto,
En okcidento nenio nova,
Pilgrimo (Baghy),
Preter la vivo (Baghy),
Kandid (Lanti),
Floreto de S. Francisko,
Tra la mondo I – II,
La konscienco riproĉas,
Stranga heredaĵo,
Provo de marista terminaro,
Antaŭparolo de enciklopedia vortaro de Wüster
Praktika frasaro,
Komerca korespondado,
Esperantistigilo (Benson),
La esperanta interparola kurso Linguaphone,
Kennslubók í Esperanto (Þorst. Þorsteinsson,)
Esperanto, unu jarkolekto,
Sennacieca Revuo, unu jarkolekto,
Bulteno de l’ scienca asocio, unu jarkolekto,
Nova Epoko, tri ekzempleroj,
Verda stelo, unu jarkolekto,
Senaciulo, unu jarkolekto.
 
Nú er ég að safna úr Idoj de Orfeo eftir Bulthius. Að því loknu mun ég algerlega hætta esperanto orðasöfnun minni sem gleypt hefir næstum þrjú ár af mínu stutta lífi. En þökk sé þrjósku minni til að standa gegn fordómum samferðamanna minna hefir orðasöfnun mín þegar skilað orðasafni mínu gríðarlegum fjölda orða, samsetningum, orðtökum og orðatiltækjum sem finnast jafnvel ekki í orðabók Wüsters.
   Fyrir utan þýðingu sænska orðasafnsins og söfnun mína hefir Hallbjörn Halldórsson safnað nöfnum flestra íslenskra jurta og margra fiska. Jóhanna Þórðardóttir hefir safnað úr orðasafni viðskiptamáls. Ólafur Þ. Kristjánsson hefir lesið yfir Biblíuna. Þorlákur Arnórsson lofaði að safna úr lyfjafræðiheitum en hefir ekki enn staðið við það loforð. Og að lokum sendir þú mjög verðmætt safn úr læknisfræði. En hefir þú lokið safni þínu? Sé eitthvað eftir viltu þá ljúka því í sumar. Ennþá vantar mig nöfn margra fugla og orð og orðtök sem snerta veðrið.
   Síðastliðinn vetur vann ég dálítið í því efni sem ég hafði fengið. Hallbjörn og Ólafur hjálpuðu mér tvö kvöld í viku. Þegar ég hef farið yfir efnið mun ég bera það saman við Íslenzk - enska orðabók Geirs Zoega. Það er ætlun mín að esperantoorðabókin verði  ekki minni að vöxtum en orðabók Zoega.
   En eftir lokafrágang orðabókarefnisins bíður mín torleystasta úrlausnarefnið. Það er útgáfukostnaðurinn. En um það ætla ég ekki að tala í þessu bréfi. Ég læt aðeins auðmjúklega í ljós að ég yrði þér mjög þakklátur ef þitt snjalla og volduga höfuð fyndi þar einhverja færa leið. *-
   Fyrir utan áðurnefnd viðfangsefni mín í vetur, þýddi ég á esperanto nokkrar íslenskar þjóðsögur. Ég hef þegar þýtt Dalakútinn, Djáknann á Myrká, Galdra-Loft, Tungustapa, Móðir mín í kví, kví, Valtýr á grænni treyju, Frelsarinn og hundarnir, Dýpt hafsins, Uppruni álfa, Um séra Eirík á Vogsósum og er byrjaður á sögunni um Glám í Grettis sögu. Nokkrum fleiri mun ég bæta við síðar. Guðmundur Gamalíelsson hefir lofað að gefa út þýðingar mínar. Það er huggunarríkt loforð sem reynslan hefir því miður kennt mér að taka ekki of alvarlega.
 
III
 
   Pólitík og trúarleg mál hafa sótt nokkuð á huga minn. Í vetur hafa orðið nokkrir þeir atburðir sem óhjákvæmilega hafa dregið athygli mína að fúamýri hins andstyggilegasta viðbjóðs. Hið alkunna og alræmda geðveikismál hefir vakið hið mesta fjaðrafok. Skiljanlega og með réttu vakti það mikla samúð og gremju hjá öllum, þeim sem ekki eru blindaðir af villimannlegu hatri á Jónasi ráðherra, og reyndar er það íslensku þjóðinni til óviðjafnanlegrar skammar. 
   En samkvæmt mínum frumstæða þankagangi væri óskandi að fyndust einhver mörk milli eðlilegrar samúðar og því að tapa algerlega heilbrigðri skynsemi. En ennþá hefir fjöldinn ekki tekið svo miklum framförum á veginum til nýrra þjáninga að hann sé fær um að leggja mat á einföldustu vandamál. Þess vegna hafa margir, þeir sem fullir eru samúðar, ekki aðeins vottað Jónasi sína dýpstu samúð heldur einnig beygt sig meira og minna undir hans pólitíska boðskap. Jónas varð ekki einungis hreinn og mikill í geðveikismálinu. Allar gerðir hans og öll hans pólitík varð einnig sönn og viturleg. Hann varð glæstasta hetja landsins, og glæstasta hetjan verður auðvitað líka að vera glæstasti og vitrasti pólitíkusinn.
   Þannig hugsaði fjöldinn eða réttara sagt blandaði saman í ástríðuhita tveim óskyldum málum. Geðveikismálið varð þess vegna sá örlagaviðburður sem lyfti Jónasi hærra heldur en hann í rauninni á skilið því satt að segja er samvinnupólitík hans eins og góður læknir sem á allt sem þarf til lækninga, – nema þekkinguna og tækin.
   Ofannefnt viðhorf til Jónasar birtist á mjög svo fálmkenndan hátt hjá verkamönnum og sósíalistum í Reykjavík. Nokkrar forystukonur (og kannski einnig forvígismenn) verkalýðshreyfingarinnar hlupu um borgina safnandi undirskriftum á traustsyfirlýsingu á Jónas. Á skjal þetta settu ekki aðeins margir venjulegir verkamenn og verkakonur nafn sitt heldur einnig nokkrir af fremstu forystumönnum verkamannaflokksins. Það er sjálfsagt að menn sýni Jónasi samúð sína í slíku óþverramáli. En pólitísk skynsemi og menntun verkafólksins og forystumanna þess birtist í ofur aumlegu ljósi þegar þeir hika ekki við að skrifa undir þá einlægu ósk, sem fram kemur á skjalinu, að „við fáum að njóta krafta þinna til hinstu stundar.“ Allir vita reyndar að Jónas og flokksmenn hans notuðu ekki svo lítinn hluta krafta sinna í ómerkilega baráttu gegn verkamönnum og sósíalistum. Og svo mikil er virðing þeirra fyrir sínum eigin hagsmunamálum að þrátt fyrir þetta skrifa þeir undir skjal þar sem þeir óska þess að slík barátta haldi áfram allt til dauða Jónasar í hárri elli. En það felur nánast í sér þá ósk að sósíalisminn verði ekki að veruleika á næstu þrem áratugum. 
   Hinn dapurlegi sannleiki er að margt verkafólk hefir mjög óskýra eða enga hugmynd um það hvað sósialismi er og um muninn á honum og samvinnufúskinu. Hin gagnkvæma samúð sem ríkir milli forystumanna samvinnuflokksins og verkamannaflokksins hefir nær því fyllt þá gjá sem í gamla daga skildi hafrana frá sauðunum. Af þessu hefir það leitt, að margt verkafólk sér í núverandi ríkisstjórn verndara sinn og hlífiskjöld. Jafnframt stuðningi við ríkisstjórn samvinnumanna, sem á diplómatísku orðalagi felst í æ meira hlutleysi, þá hafa verkalýðsforingjarnir smám saman orðið æ afturhaldssamari og næstum algjörlega hætt allri gagnrýni á pólitík samvinnumanna. Hafi það af tilviljun gerst, að Alþýðublaðið hafi hreyft einhverjum mótmælum gegn einkverjum „skorti á réttlæti“ hjá ríkisstjórninni hafa þau alltaf verið afskaplega kurteisleg og veikburða. Auk þess sem þau hafa alltaf snert einhver aukaatriði eins og til dæmis laun vegagerðarmanna og því um líkt. Þá sjá menn aldrei í blaðinu skarplega greiningu á því hver sé munurinn á sósíalisma og pólitík samvinnustefnunnar, um gagnsleysi hinnar síðarnefndu og um smáborgaraskapinn í hugsun og gjörðum ríkisstjórnarinnar. Þótt kjörnir fulltrúar verkamannaflokksins hafi um stundarsakir lofað ríkisstjórninni hlutleysi á þingi, verða blöð verkamanna stöðugt að leggja skýra áherslu á hverjar séu kröfur sósíalismans og í hverju klasturbætur samvinnustefnunnar séu fólgnar. Þeir verða að grípa hvert tækifæri til að sýna almenningi hið óbrúanlega djúp sem er á milli hinna skýru og róttæku kenninga sósíalismans og hins þokukennda hugsanagrautar samvinnuskrímslisins. Í hvert skipti sem ríkisstjórnin eða samvinnuflokkurinn stormar fram með einhverja hugmynd eða áform sem hefir yfir sér framfarasinnað yfirbragð eða gæti litið út fyrir að vera í ætt við sósíalisma verða öll málgögn verkamanna að þrýsta því inn í hausinn á almenningi á skýran og eftirminnilegan hátt hversu smáborgaraleg þessi hugmynd eða áform er í samanburði við kröfur sósíalismans.
   Það væri til dæmis ekki alveg þýðingarlaust að menn settu upp nýja fatasnaga í latínuskólanum, betri loftræstingu og þægilegri náðhúsum þar sem tossarnir geta lesið Morgunblaðið um leið og þeir ganga örna sinna. Ekki væri það heldur alveg þýðingarlaust að koma upp lesstofu í Íþöku. En það er ekki sósíalismi, og það er verkalýðnum engin hjálp á meðan nemendurinir eru skyldaðir til að borga háa fjárhæð fyrir kennsluna og á meðan öll reglugerðin og allar kennsluaðferðir skólans fylgja strengilega meginreglum kapítalismans.
   Refsivinnuhús á Eyrarbakka og klasturbætur á fangaklefunum í Reykjavík eru ekki heldur handan allrar skynsemi. En það er ekki sósialismi og það er meira að segja aumkunarverður vitnisburður um pólitíska hetjudáð á meðan undirrót flestra glæpa, svo sem efnalegt óréttlæti, ömurleg lastabæli, alkóhól og alger skortur á góðum menntunarkostum, eru látin afskiptalaus af ríkisvaldinu.
   Á þeim nótum verða verkalýðsblöðin stöðugt að hamra til þess að benda á smáborgaraskap ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis þá heljargjá sem er á milli sósialista og samvinnumanna. En það hafa þau ekki gert. Árangurinn er sá að verkamenn verða með hverjum degi afturhaldssamari og hallast æ meir á sveif með samvinnumönnum þar sem íhaldssemin er nær óvirku eðli þeirra heldur en hið róttæka stökk til sósíalismans, og þrátt fyrir mikið dálæti á öllu sem skartar fögru holdi er Jónas Jónsson enn hættulegra agn, einkum eftir píslarvætti sitt, heldur en vorir svínfeitu samherjar í hungurhúsi öreiganna, hverra einustu pólitísku áhyggjur eru stöðugt virðingarverðari afturendar.
   Það er ljót en þó óhrekjanleg staðreynd að Jónas frá Hriflu hefir stungið verkalýðsleiðtogunum í Reykjavík í vasa sinn. Það hefir hann gert með ýmiss konar vélabrögðum. Áhrifaríkustu vélræðin sem hann beitti voru þó fjárhagslegar ívilnanir sem hann veitti fjórum máttarstólpum flokksins. Stefáni Jóhanni Stefánssyni veitti hann rétt til að reka öll lögfræðileg mál á vegum ríkisstjórnarinnar. Einn kunningja Stefáns sagði mér að það hefði algjörlega breytt fjárhagslegri stöðu hans. Um andlegu áhrifin er engin þörf að ræða. Jón Baldvinsson gerði hann að bankastjóra. Heldurðu að launalús upp á nokkra tugi þúsunda króna árlega skilji ekki eftir nein merki í sálardeiglunni? Ólafur Friðriksson var ráðinn með leynd sem kvikmyndaritskoðari. Hann er nú þegar tryggasti stuðningsmaður Jónasar. Og Haraldur fékk dálítinn bitling sem starfsmaður í milliþinganefndum. Þegar Halldór Kiljan Laxness skrifaði vörn sína fyrir Jónas í geðveikismálinu bað hann Harald um að birta hana í Alþýðublaðinu. En Haraldur svaraði: Nei, gerðu það ekki því að það gæti snúið hug bænda frá Jónasi í komandi kosningum að blað sósialista birti varnargrein fyrir hann! – Svo aumlega er nú komið fyrir spámönnum þeim sem boða frelsi verkalýðsins í Reykjavík. Og á meðan Mammon hefir meira vald yfir hjörtum mannanna heldur en hugsjónir, hugrekki og sannleiksást, skyldu menn ekki vænta mikilla afreka af þeirra hálfu í framtíðinni.
 
IV
 
   Alþýðublaðið er hittinn endurspeglun þess andlega ástands sem nú ríkir hjá verkalýðshreyfingunni. Ritstjórn þess er svo djúpt sokkin, að maður óskar þess iðulega að hafa misst heyrn, sjón og skynsemi, svo að manni verði ekki misþyrmt með slíku ógeði. Það er að mestu leyti barnalegt, ófrjótt karp við Morgunblaðið, ómarkvissar og barnalegar upphrópanir um óréttláta þjóðfélagsskipun, máttlítið og geðvonskulegt nöldur um daginn og veginn og æsikröfur um hækkanir daglauna um nokkra aura. Það er allt og sumt. Það kynnir aldrei fyrir hinum óhamingjusömu lesendum neitt sem er menntandi, eitthvað sem leiðir sálina að því sem máli skiptir, hvorki að heimspekilegum málum, vísindalegum, trúarlegum eða pólitískum. Það reynir aldrei að lyfta lesendunum yfir hinn smáskítlega hversdagsleika daglegs lífs. Það vekur aldrei máls á eða útskýrir kenningar sósíalismans. Það flytur aldrei róttæka og grundvallandi greiningu og gagnrýni á kapítalískt þjóðskipulag. Það leitast aldrei við að vekja áhuga, andar aldrei frá sér brennandi og eldlegum hugmyndum. Það veitir manni aldrei neinn innblástur, er aldrei upplyftandi, og getur aldrei hafið hugsunarhátt lesenda upp á hærra svið. Það hvetur aldrei til hugrekkis í hugsun eða hetjulegra aðgerða. Það gefur aldrei frá sér ferskan andblæ. Það vanrækir fullkomlega að víkka sjóndeildarhring hinna þröngsýnu flokksmanna og þoka hugmyndum þeirra í alþjóðlega átt. Það er alltaf hversdagslegt og á lágu andlegu stigi. Það er í meginatriðum neikvætt. Það reynir af fremsta megni að orða aldrei nokkra hugsun eða láta frá sér fara setningu sem vakið gæti hungur meðal hinna huglausustu og afturhaldssömustu í flokknum. Það er skjálfandi þræll kirkjunnar og verslunarauglýsenda. Til þess að halda sig tryggilega á braut borgaralegs hugsunarháttar hafa forystumenn flokksins gert útlæga frá blaðinu sérhverja róttæka og hæfileikaríka rödd. Allt er mælt út frá andlegu ástandi hinna óupplýstu og dauðyflislegu persóna í flokknum. Sérhver nýr starfsmaður sem ráðinn er á ritstjórn blaðsins er aðeins duglausari og hæfileikasnauðari en sá sem látinn var fara. Alþýðublaðið flytur næstum aldrei nokkrar erlendar fréttir (nema þær sem borist hafa með símskeytum). Það veit ekki að til eru Sovétríki, fyrsta og eina landið í heiminum sem er að framkvæma hugsjónir sósíalismans. Ímyndaðu þér áhugann á framgangi sósíalismans, að Tíminn og Lögrétta birta greinar um hinar stórkostlegu framfarir í Sovétríkjunum en Alþýðublaðið nefnir það aldrei einu orði! Hvers vegna ekki? Vegna þess að flokksbróðir okkar Stauning er ekki fyrirmyndarverkamaður í Sovétríkjunum og Morgunblaðið hefir þegar sannfært Jóhönnu Egilsdóttur og Jónínu Jónatansdóttur um að hinir svikulu bolsévíkar séu guðleysingjar og morðingjar.
   Alþýðublaðið fylgir nákvæmlega sömu reglu og prestarnir. Í stað þess að leiða ómenntaðan verkalýðinn upp á svolítið hærra vitsmunasvið gengur það í auðmýkt undan brekkunni og hefir sett sig í sömu spor siðferðilega og vitsmunalega þar sem aðgerðarlaus fjöldinn sefur og þar sem nótt heimskunnar ríkir um eilífð. Í stað þess að vera leiðtogi er það taglhnýtingur.
   En fyrir utan framangreindar vantanir, sem heilvita manni hlýtur að þykja æði margar, þá er Alþýðublaðið nær undantekningarlaust illa skrifað. Það birtir afar sjaldan læsilegar greinar. Oftast er innihald þess heimskulegt, leiðinlegt og ritstjórnin gamaldags. Allur tónn þess er innantómur og ósannfærandi. Svo óskemmtilegur er þessi boðberi nýrrar þjóðfélagsskipunar að ég finn aldrei til minnsta söknuðar þótt ég sjái hann ekki tímunum saman. Auk þess verð ég að játa það með nokkurri blygðun að mér líður ekki fullkomlega vel ef svo líður einn dagur að ég ekki lesi yfir það heimskulegasta af öllu heimskulegu, og þú munt bæta við: Morgunblaðið.
 
V
 
   Snúi maður sér nú að pólitískri taktík verkalýðsleiðtoganna sér maður sama háttalag eins og hjá hinum úrkynjuðu borgaraflokkum: diplómatíska bragðvísi, frumstæða hefnigirni og hræsnisfull sjónarspil til þess að þóknast almenningi. Þetta get ég sýnt með fjölmörgum dæmum en það nægir að ég taki tvo dæmigerða atburði, annan úr tjaldbúðum samvinnumanna og hinn úr kofum sósialístanna til samanburðar. Í fyrra kynnti trúarlegur vindbelgur innan samvinnuflokksins, þekktur undir nafninu Jónas Þorbergsson, í heilagri einfeldni fyrir ráðherranum Jónasi Jónssyni hugmynd sína um byggingu höfuðkirkna. Þessi uppástunga féll í frjóan jarðveg í hinum boglínulagaða hugmyndaheimi ráðherrans sem að undanförnu hefir fengið einstakan áhuga á málefnum kirkjunnar, og hann kynnti fyrir þinginu tillögu að skatti á kvikmyndahús. Skattpeningarnir, sem í raun yrðu ný byrði á gesti kvikmyndahúsanna, skyldu notaðir til að byggja fyrir höfuðkirkjur! Þannig fékk hin guðrækilega hugmynd Jónasar Þórbergssonar að lokum svo sannarlega nútímalegan diplómatískan búning þar sem ráðherrann hafði vitaskuld ekki í huga endurlífgun trúarinnar með tillögu sinni. Hann hafði án efa aðrar áætlanir. Meðan tillagan var matreidd í eldhúsi ríkisstjórnarinnar átti ég tal við mikilhæfan leiðtoga verkalýðsflokksins í Reykjavík sem einnig var í trúnaðarsambandi við ráðherrann. Hann sagði mér fyrst frá hugmyndinni sem var að hans dómi bráðsnjöll. Og hann bætti við: Tillagan verður lögð fyrir þingið til þess að íhaldsflokkurinn hafni henni svo að við (sósíalistarnir og samvinnumennirnir) getum sakað hann um guðleysi í komandi kosningum! Þannig hefir Jónas ráðherra líklegast einnig hugsað tillögu sína. En auk þess hefir hann ætlast til að hún yrði til þess að auka vinsældir ríkisstjórnarinnar og samvinnuflokksins meðal kirkjunnar manna. Af einhverjum orsökum sofnaði tillagan í nefnd í efrideild þingsins. Kannski vaknar hún áður en næsta þing kemur saman.
   Veslings sósíalistarnir urðu nú að kynna einhvert sjónarspil svo að þeir yrðu ekki álitnir eftirbátar hinnar hugmyndaríku ríkisstjórnar. Og þeir grófu upp gamlan fjársjóð sem um margra ára skeið hafði verið þeirra hjartans mál. Á þinginu 1929 hafði það af einhverjum orsökum hlotið væran svefn í nefnd, að því er sagt var vegna mótstöðu samvinnumanna (vegna hagsmuna hlutafjáreigenda eins og einn þeirra ýjaði að). En fyrra ár sem hafði liðið hjá með talsverðri krítik og nýrri reynslu hafði nú þegar kennt kjörnum fulltrúum sósialista að eftir að hafa selt sál sína og sannfæringu verða menn að sýna, að minnsta kosti fyrir augum almennings, að þeir krefjist þess að fá nokkuð í staðinn fyrir svo kæra og vandfundna gimsteina. Og hinn gamli fjársjóður, sem þeir stilltu nú upp í sýningarskála þingsins, var tóbakseinkasalan. Í þetta skipti virtist allt ætla að ganga léttar en í fyrra. Tóbakseinkasalan hafði þegar verið samþykkt við þriðju umræðu í neðri deild og við aðra umræðu í efri deild. Hinn hrekklausi almenningur var þegar farinn að segja: Loksins fer nú tóbakseinkasalan í gegnum þingið. Það var aðeins eftir ein umræða í efri deild. En þessi síðasta umræða átti sér aldrei stað. Og aftur vörpuðu sósíalistarnir sökinni yfir á herðar samvinnumannanna. Sagt var að þeir hefðu gert svohljóðandi samning við íhaldsmennina: Við stöðvum einkasölufrumvarpið en þið samþykkið í staðinn fjárhagsáætlunina án frekari breytinga við fyrstu umræðu í neðri deild. Sósíalistarnir þögðu. Augljóst er að keyptu þingmönnum verkamannaflokksins þóttu sín sálarhlutabréf nægilega borguð með því að hafa sett þrýsting á samvinnuflokkinn og með því að hafa hótað að krefjast þess að tillaga sín yrði samþykkt. Alþýðublaðið lét stöðvunarinnar ógetið um morguninn, nema í einni máttlausri grein sem Guðmundur Ragnar skrifaði um málið. Hér kom þó upp í hendurnar á þeim gullið tækifæri til að sýna verkalýðnum, svo ekki yrði um villst, annars vegar það óbrúanlega hyldýpi sem er á milli pólitíkur samvinnumanna og sósíalismans og hins vegar að borgaraflokkarnir eru alltaf tilbúnir til að mynda bandalag sín á milli.
   Framanrituð dæmi sýna ljóslega hugsunarhátt og vinnuaðferðir hinna pólitísku forystumanna. Þeir eru miklu líkari svikulum og brögðóttum krökkum heldur en alvarlegum og ábyrgum verum. Og hrekklaust fólk, sem ruglað hefir verið í ríminu og hugsun þess brengluð af lágkúruskap leiðtoga sinna, lítur á slík sjúkdómseinkenni sem merki um æðri stjórnvisku. Slíka skoðun á pólitískum hæfileikum speglar vel eftirfarandi svar sem ég fékk í samtali við gáfaðan samvinnumann fyrir skömmu. Ég hafði látið í ljós þá ósk að þú yrðir valinn til setu á alþingi. Samvinnumaðurinn svaraði með þessum típísku og elskulegu orðum: „Ég veit ekki, hvort ég óska þess að Vilmundur yrði þingmaður. Hann er alltaf með einhverjar móralskar vangaveltur.“ Þrátt fyrir þetta er þessi herramaður ákaflega heiðarlegur í sínu einkalífi. En hann er blindaður af þeirri allt umlykjandi skoðun að fást verði við pólitísk vandamál á allt annan hátt en önnur mál, það er að segja með svikum, brögðum og samviskuleysi. Svo rotin er jafnvel sú hugmynd sem menn gera sér um pólitík, að sannleikselskandi og hreinskilinn náungi, sem í pólitík kýs fremur að hugsa og framkvæma samkvæmt einföldum rökum og af einlægum heiðarleika, er álitinn hættuleg persóna eða yfirborðskenndur og barnalegur maður sem ekki kunni að fást við svo flóknar og djúpar hugmyndir eins og pólitísk mál. Og forystumenn flokkanna reyna af öllum kröftum – eftir sínu vinnulagi auðvitað með leynd, svikum, fláttskap og brögðum – að útiloka hvern þann verkamann frá pólitísku starfi sem af siðferðilegum eða vitsmunalegum ástæðum lítur pólitísk mál eða pólitískar aðgerðir öðrum augum en þeir sjálfir. Ef þeir telja slíka persónu hættulega eða óþægilega fyrir sigur í sínu brögðótta tafli leitast þeir við að gera hann áhrifalausan í hefndarskyni. Og eins djúprættar og flóknar og hinar pólitísku vinnuaðferðir þeirra eru, svo frumstæðar, villimannlegar og einsleitar eru hefndaraðgerðir þeirra, alltaf sama ruddalega endurtekningin: að taka frá manninum brauðið! Þetta skilja þeir. Í raun og veru eru þeir ekki færir um að samsama sig æðri hugsjónum en mætti brauðsins. Allt annað eru óraunverulegir smámunir þrátt fyrir falleg glamuryrði um listir og vísindi. En hversu villimannsleg og frumstæð er ekki slík hefndargjörð! Maður örvæntir næstum um hæfileika mannkynsins til þróunar þegar andlegt ástand þessara herramanna er borið saman við villimennsku ósiðaðra manna í fornöld. Brjóti maður af hendingu upp á einhverjum andlegum málefnum við þá, til dæmis heimspeki, sálarfræði, spíritisma, trúarbrögðum, esperantisma, nýjum stefnum í uppeldismálum eða alþjóðapólitík, sýna þeir fullkomið áhugaleysi, þekkingarleysi og skilningsleysi. Það er reyndar skiljanlegt. Í fjölda ára hafa hinar ófrjóu umræður þeirra, leynimakk og önnur smáskítleg málefni eytt svo kröftum þeirra og hæfileikanum til að hugsa að ekkert varð eftir til að lífga og næra það sem náttúran hefir ekki gefið þeim í nægilega ríkum mæli.
 
VI
 
   Sósíalistar kenna venjulega að einungis með þekkingu á skipan þjóðfélagsins geti menn gert verkalýðinn að traustum sósíalistum. Þetta er að mestu leyti reginvitleysa sem sýnir lélega þekkingu á mannlegu eðli. Við hvert fótmál ævinnar rekumst við á persónur, sem þekkja prýðilega greinarmun góðra og vondra verka. Skyldu þeir þá breyta eftir þessari þekkingu sinni? Oftast gera þeir það ekki. Þeir breyta jafnan eftir því sem er þægilegt fyrir þeirra persónulegu hagsmuni í það og það skiptið. Ef rétt breytni er í samræmi við hina frumstæðu hagsmuni þeirra fylgja þeir henni. Fari hún gegn hagsmunum þeirra gefa þeir djöfulinn í alla þekkingu og fylgja hagsmunum sínum. Þeir hlaupa léttilega frá einni skoðun til annarrar eftir því hvernig persónulegar aðstæður þeirra breytast. Fátækur verkamaður hallast að sósíalisma svo lengi sem hann á ekkert. Eignist hann hrörlegan kofa leitar hann verndar hjá íhaldsmönnum, skjálfandi af ótta við að leiguverð húss hans falli vegna nýrra húsbygginga yfir fátæklinga sem sósíalistaflokkurinn stendur fyrir. Kaupmaður er blindur íhaldsmaður svo lengi sem kaupsýsla hans gefur nokkurn arð. Fari hann á hausinn gerist hann bolsévíki, þangað til hinar saurugu ástríður hans hafa gert honum lífið bærilegra. Þannig er það á öllum sviðum lífsins. Hin gríðarlega úrkynjun sósíaldemókrata í öllum löndum heimsins sýnir svo ekki verður um villst þetta sama fánýti hinnar svokölluðu þekkingar. Hugmyndafræði þeirra og vinnubrögð þróast nú þegar nær því samsíða hinu kapítalíska kerfi. Sá, sem nú þegar gerir sér skýra grein fyrir að einstaklingurinn er ekki hér til þess að leita sannleika eða réttlætis, heldur til að friða óbeislaðar ástríður sínar sem alltaf krefjast skjótra stundarþæginda, hann hefir ekki mikið traust á mannlegri þekkingu. Með þessu vil ég þó ekki segja að þekking sé vita gagnslaus til þess að hegða sér viturlega. Ég legg einungis áherslu á þá staðreynd að þýðing hennar er lítil samanborið við aðra mikilvægari þætti. Ég er þess fullviss að það eru varla 5 prósent manna sem fær eru um að breyta alltaf samkvæmt þekkingu sinni.
 
VII
 
   Krishnamurti sagði einhvers staðar að öll vandræði mannanna stöfuðu af af því, að einstaklingarnir hefðu ekki enn leyst sín eigin vandamál. Þessa sömu staðreynd orðaði okkar mjúklyndi Sigurður Jónasson svo fyrir nokkrum árum: „Allt er undir mönnum sjálfum komið“. Og árið 1917 gerði ég mig hlægilegan með þessari heimspeki. Út frá sjónarhorni okkar ofmettaða heims virðist þetta afar hversdagsleg speki. En þrátt fyrir sinn augljósa skort á frumleika er þetta slík grundvallarspeki að án þess að taka fullt tillit til hennar mun okkur aldrei takast að komast út úr okkar pólitíska öngþveiti. Meinið er einmitt að okkar pólitísku leiðtogar hafa leyst úr of fáum af sínum persónulegu vandamálum til þess að þeir séu færir um að leysa úr þjóðfélagslegum vandamálum. Jafnvel hinar bestu kenningar reynast fúsk í höndum þeirra vegna þess að þeir vanræktu sjálfsmenntun sína.
   Ekki er ástæða til að krefjast þess af flokksforingjum íhaldsmanna að þeir leysi úr sínum persónulegu vandamálum því að pólitík þeirra er fullkomlega ósiðleg. En af hálfu sósíalista, sem berjast fyrir móralskri þjóðfélagsskipan, ættu menn að geta búist við og krafist nokkru meiri vitsmunaþroska. En því miður lifa verkalýðsforingjarnir og haga sér nákvæmlega eins og hinir borgaralegu andstæðingar þeirra. Grundvöllur hugsunarháttar þeirra er sá sami, svo lítt róttækur, svo bundinn af borgaralegum siðum, svo samtvinnaður dauðum hefðum og svo huglaus og heigulslegur. Lífsspeki þeirra og afstaða til ýmissa þeirra mála, sem ekki heyra til hinum allra venjulegustu vandamála verkalýðsins, eru þess vegna alveg eins og hugsunarháttur borgarastéttarinnar. Þessar staðreyndir sjást greinilegast á lífsháttum þeirra.
   Flestir verkalýðsforingjar í Reykjavík lifa í vellystingum eins og andstæðingar þeirra, hinir ríku kapítalistar, og fremja sömu syndirnar. Þeir standa í viðskiptum og reyna hvað þeir geta til að ná sem mestum hagnaði. Og þeir koma síst betur fram við verkamenn sína en andstæðingar þeirra. Þeir skara hvorki fram úr íhaldsmönnum í hjartagæsku né hjálpsemi. Þeir drekka áfengi. Og þeir borða kjöt og styðja með því hina viðurstyggilegu kúgun sem er undirstaða hins kapítalíska kerfis. Þeir styðja kirkjuna, höfuðóvin sósíalismans og allra andlegra framfara. Þeir eru mjög dauðyflislegir í menningarmálum og afstaða þeirra til hinna svonefndu menntamanna er algjörlega hlutlaus, öfugt við Jónas frá Hriflu sem skilur fullkomlega nauðsyn þess að nýta alla mögulega krafta á andlega sviðinu. Andlegt ástand sósíalistaforingjanna er yfir höfuð á mjög lágu stigi, gamaldags, óupplýst og sofandalegt. Í sínu pólitíska starfi þjást þeir af stöðugum ótta. Annars vegar óttast þeir ríkisstjórnina. Á hinn bóginn eru þeir haldnir stöðugri tortryggni í garð sinna eigin flokksmanna. Og vegna þessa eru pólitísk umsvif þeirra litlaust samkomulag milli tveggja íhaldsafla.
   Hættulegast fyrir verkalýðshreyfinguna er þó líklega þeirra andlega deyfð, skortur þeirra á hugsjón, framfarahug og eldmóði. Að sumu leyti stafar þetta af meðfæddum dauðyflishætti. En að vissu leyti liggja orsakirnar í borgaralegum lífsháttum þeirra. Þeir heimta næstum allan þeirra tíma til að fullnægja  lúksusþægindum og drepa jafnframt niður allar æðri tilfinningar. Vegna þessa hefir pólitískt starf þeirra orðið þeim algjör hjáverk.
 
                                               Framhald.
                                                     Þ. Þ.