Saga sú af sköpun heimsins sem hér fer á eftir er þýdd úr bókinni Ĉinaj
mitoj reverkitaj de Yuan Ke (Kínverskar goðsagnir endursagðar af Yuan
Ke) en hún var þýdd á esperanto af Li Bafoa og Xu Wanfem og gefin út
af la Ĉina Esperanto-Eldonejo í Beijing í Kína 1992.
 
 
Fyrir ævalöngu, þegar himinn og jörð höfðu ekki enn verið aðskilin, leit heimurinn einna helst út eins og óregluleg kúla eða risastórt egg. og einmitt í þessari kúlu fæddist Pangu, forfaðir mannkyns. Dag nokkurn fyrir átján þúsund árum opnaði hann skyndilega augun og sá aðeins myrkur og þótti sem hann væri að kafna. Hann greip þá öxi, án þess að vita hvaðan og hjó myrkrið fyrir framan sig. Þá kvað við þrumandi hljóð og hið risavaxna egg stökk í tvo hluta. Hin léttu og hreinu efni lyftust hægt og flögrandi upp á við og mynduðu himininn en hin þungu og óhreinu féllu sem blý niður á við og mynduðu jörðina. Samt var himinninn ennþá tengdur jörðinni á nokkrum stöðum.Pangu greip þá í vinstri hönd tröllaukinn meitil einhvers staðar frá og hafði öxina í þeirri hægri. Hann meitlaði síðan ýmist með meitlinum eða hjó með öxinni og þannig hélt hann áfram án afláts að beita öxi og meitli á víxl af miklum móði. og vegna þess hve dugmikill og óþreytandi hann var við starfann tókst honum að lokum að skilja himininn fullkomlega frá jörðinni. Pangu óttaðist að himinn og jörð rynnu aftur saman og því studdi hann himininn með höfði sínu og sparn í jörðina með fótum sínum. Vegna þessa óx hann í sífellu þar sem himinn og jörð fjarlægðust stöðugt hvort annað. Og að viti tók hann fram himninum en að afli jörðinni. Á hverjum degi lyftist himinninn um sex álnir og á hverjum degi þykknaði jörðin um sex álnir. og þannig liðu átján þúsund ár. Gríðarlega hátt var orðið til himins og jörðin mjög þykk og Pangu var orðinn ótrúlega hár. Sagt er að hæð hans hafi verið níu rastir. og gnæfði nú þessi tígulegi jötunn milli himins og jarðar og hindraði svo að allt rynni aftur saman í eitt óskepi.
   Þannig stóð hann dag hvern einn að hinum slítandi starfa sínum. Menn vita ekki hversu mörg ár liðu uns himinn og jörð aðskildust svo rækilega að Pangu óttaðist ekki lengur að þau rynnu aftur saman. Hann þarfnaðist sannarlega hvíldar og að lokum féll hann um koll og dó eins og við mennirnir. Þegar hann var að deyja urðu skyndilega miklar breytingar á líkama hans: Andardráttur hans varð að vindum og skýjum; rödd hans að þrumum; auga hans vinstra að sól en það hægra að tungli; hendur hans, fætur og líkami að fjórum skautum heims og fjöllum jarðar; blóð hans að ám; æðar hans að vegum; vöðvar hans að akurlendi; hár hans og skegg að stjörnum á himni; húð hans og búkhár að blómum, grösum og trjám; tennur hans og bein að málmum og klettum; sæði hans og mergur að perlum og fögru jaði; sviti hans að dögg og regni.
   Pangu helgaði sig þannig í einu orði sagt hinum nýja heimi svo hann yrði ríkari og fegurri.