(Þýtt úr Esperanto I. Leskaflar. Lestrarbók handa byrjendum. Reykjavík 1937, bls. 71–76)
 
   Er maðurinn aðeins kjöt, beinagrind og rautt vatn?
   Ég veit það ekki. Margir álíta, að hann hafi ósýnilegan hluta sem skynji, hugsi og vilji. Þennan hluta kalla menn venjulega sál.
   Hvað heyri ég! Þú sagðist ekki vita hvort maðurinn væri aðeins kjöt, beinagrind og rautt vatn. Mér leikur vissulega forvitni á að heyra eitthvað um það hvað heimspekingarnir í Háskólanum kenna þér um sálina.
   Það er dálítið erfitt að ræða þetta málefni við menn sem ekkert hafa lært í nútíma sálarfræði. Samt ætla ég að reyna að segja þér frá helstu grundvallar atriðunum.
   Ég hlusta.
   Mannssálin skiptist í þrjá meginhluta, nefnilega, tilfinningu, skynsemi og vilja. Tilfinningin er sá hluti sem skynjar, skynsemin sá sem hugsar og viljinn sá sem vill. En sérhver hugsun mannsins er samsett af þessum þrem grunnþáttum. Þess vegna geta menn ekki aðgreint þá.
   Vitund kalla menn milliliðalausa vitneskju sem hugur mannsins hefir um ástand sitt og gjörðir. Og menn skilgreina vitundina sem yfirvitund og undirvitund. Þýtt    
   Maðurinn er dýrunum æðri að því leyti að hann hefir skynsemi sem ímyndar sér og skilur lögmál alheimsins.
   Samt hefi ég þekkt margar skepnur sem breyttu skynsamlegar en flestir menn.
   Já, en skepnurnar skilja ekki lögmál alheimsins.
  Kannski ekki. En þær skilja vafalaust hin praktísku lögmál skynsamlegs lífernis og syndga aldrei gegn þeim.
   Það snertir ekki sálarfræðina. Taktu nú eftir! Hæfileikann til að hugsa og skilja kalla menn einnig gáfur. Allar gáfur mannsins, í mótsetningu við líkamann, nefnast hugur. Allir hæfileikar hugans nefnast andi.
   Í æsku minni nefndu menn einnig anda sál dáins manns.
   Það er alþýðuspeki sem eru ótengd sálarfræði. Hæfileikinn til að hugsa og skilja er mjög mismunandi. Gáfaðir eru þeir menn sem eiga auðvelt mað að hugsa og skilja.
   Talar sálarfræðin þín ekki um virta menn?
   Hvers vegna ætti hún að tala um þá? Mannvit er barnalegt hugtak ómenntaðs fólks.
   Hreyktu þér ekki hátt? Mannvit er æðsta stig gáfna. Vitrir menn eða vitringar eru þeir sem hugsa djúpt og rétt, sjá sannleikann gegnum villuljós blekkinga og sýna með breytni sinni manngæsku og réttlæti. Mjög margir menn eru gáfaðir, en vitringar í sérhverju þjóðfélagi eru teljandi á fingrum sér.
   Þetta er ekki sálarfræði. Þetta er alþýðuspeki. Nú skulum við snúa okkur að sálarfræðinni! Menn, sem eiga erfitt með að hugsa og skilja, eru sagðir treggáfaðir. Eigi þeir mjög erfitt með að hugsa og skilja eru þeirr kallaðir heimskir. Þeir sem haldnir eru djúpri ólæknandi heimsku eru nefndir nautheimskir. Þeir menn, sem eru greindarskertir vegna heilaskemmda, eru fávitar. Hafi menn misst dómgreind sína vegna andlegra veikinda eru þeir sagðir geðveikir.
   Menn, sem eru færir um að meta málefni eins og þau eru í raun og veru, eru skynsamir. Slíkum mönnum farnast yfirleitt vel í lífinu. Þá er rétt að geta þess að þeir menn, sem hugsa barnalega eru sagðir barnalegir.
   Menn sem, sem gæddir eru andlegu fjöri og orða hugsun sína oft á óvæntan hátt eru fyndnir og orð þeirra kölluð fyndni. Þegar menn fá aðdáanlegar og næstum ofurmannlegar hugmyndir er sagt að þeir séu innblásnir. Ef þeir fá einhverja vitneskju milliliðalaust eins og af eðlisávísun, án íhugunar eða rannsóknar, eru þeir sagðir forspáir.
   Einstakir andlegir hæfileikar á takmörkuðu sviði eru sérgáfa. Maður, sem gæddur er miklum hæfileikum eða sérgáfum, er snillingur. En æðsta stig mannlegra hæfileika eða afburða gáfna er snilligáfa.
   Kennir sálarfræði þín ekkert um siðferðilega hæfileika mannanna?
   Vissulega, mikið! Samkvæmt sálarfræðinni eru meginkraftarnir, sem ráða athöfnum mannsins, eigingirnin, og eigingirnin er það andlega ástand, að maðurinn elskar sjálfan sig mjög mikið, er sjálfselskur og sækist í lífinu fyrst og fremst eftir eigin ánægju eða gróða. Slíkir menn eru eiginhagsmunamenn.
   Eigingirni getur birst í mörgum og ólíkum myndum. Oft birtist hún sem níska, ágirnd, öfund, valdagræðgi, frægðarþrá, dramb, rembilæti, ósvífni, hatrur, hefnigirni, illmælgi, kappsemi, ófriðsemi og svo framvegis. Ef eigingirnin nær ekki settu marki með beinum og óduldum aðferðum leitast hún við að taka á sig gervi sem sýnast vera andstæð öllum eigingjörnum tilhneigingum. Í slíkum tilfellum getur hún komið fram sem kurteisi, greiðvikni, stimamýkt, lítillæti, auðmýkt, ást, sáttfýsi, einlægni, góðgerðasemi, friðsemd, hugsjónastefna, eldmóður fyrir einhverri geðfelldri hugmynd og svo framvegis. Ef ekkert annað dugar reynir hún á stund örvæntingarinnar að hrósa sigri með ógnunum, grimmd, valdbeitingu og svo framvegis.
   Eru þá allir menn eiginhagsmunamenn?
Það er of flókið viðfangsefni til að ræða hér. Snúum okkur að einfaldari málum. Ég ætla að segja dálítið frá ýmsum þáttum í skapgerð mannsins.
   Sagt er um menn, sem gæddir eru miklum siðferðilegum kostum, að þeir séu vel skapi farnir. Hvernig er eiginlega skapgerðin? Skaplyndi nær allra manna eða því sem næst breytist eftir áhrifum umhverfisins og ytri skilyrðum. Ýmist eru þeir í glöðu skapi eða vondu, ýmist glaðir eða daprir, jafnvel niðurdregnir, ýmist hamingjusamir eða óhamingjusamir, ýmist í léttu eða þungu skapi.
   Þeir menn, sem stöðugt leita í depurðina eru þunglyndir. Til eru menn, sem alltaf segja: Heimurinn er góður; mennirnir eru góðir; allt gengur vel. Þeir eru bjartsýnismenn. Til eru aðrir, sem alltaf segja: Heimurinn er vondur; mennirnir eru vondir; allt er á leiðinni til andskotans. Þar höfum við svartsýnismennina.
   Sumir menn eru góðhjartaðir, góðviljaðir, góðgerðasamir. Aðrir eru ósvífnir, illgjarnir, skaðvænlegir.
   Margir menn tapa andlegu jafnvægi í skyndingu þegar minnst varir. Þeir eru óþolinmóðir eða reiðigjarnir. Reiðin er stutt æði. Aðrir eru jafnlyndir eða þolinmóðir.
   Menn, sem eru að mörgu leyti greindir, en skortir siðferðiskennd, eru oft svikulir.
   Rétt er það! Og ég leyfi mér að bæta við að slíkar gáfur eru aldrei mikils virði. Vitrir menn eru aldrei svikulir. Þeir eru alltaf göfuglyndir og einlægir og haga sér af göfuglyndi og einlægni.
   Hefurðu nú ennþá gleymt því? Sálarfræðin kannast ekki við vitringa. Hún greinir aðeins frá staðreyndum. Gríptu ekki alltaf frammí fyrir mér! Viltu ekki heyra um hina réttlátu? Réttlátir eru þeir menn, sem meta sérhvert mál eftir því sem hægt er eins og það er í raun og veru, og breyta einnig samkvæmt því við meðbræður sína. En þeir sem meta málsefni út frá vináttu, stéttar eða eigin tengsla, þeir eru álitnir óréttlátir.
   Ótryggir eða falskir eru þeir sem tala þvert um hug sér. Þeir menn, sem látast hafa þær dyggðir sem þeir hafa í rauninni ekki, eru hræsnisfullir.
   Til eru menn sem eru vanir því að segja ósatt. Þeir eru lygnir. Reyndar segja hinir einlægnu venjulega sannleikann. Þeir eru ólygnir, sannorðir. En sannorðir eru aðeins þeir, sem undir öllum kringumstæðum og við allar aðstæður, segja sannleikann og eru alltaf reiðubúnir að berjast fyrir málstað sannleikans.
   Afstaða manna til vinnu er einnig mismunandi. Sumir eru duglegir, iðnir, dugandi, hugrakkir, hraustir, mikilvirkir, aðrir óduglegir, latir, duglausir, huglausir og svo framvegis.
   Menn, sem gera á hlut annarra manna eða dýra, eru illvirkjar. Sé synd þeirra stór nefnist hún glæpur og þeir glæpamenn. Stórglæpamönnum er refsað með fjársekt eða fangelsisvist.
   Ó, ó! Talaðu ekki svona barnalega! Aðeins smáglæpamönnum er refsað. Stórglæpamenn eru prýði þjóðarinnar og þeim er launað með medalíum og heiðurstitlum.