(Þýtt úr Esperanto I. Leskaflar. Lestrarbók handa byrjendum. Reykjavík 1937, bls. 76–79)
 
   Nú er ég forvitinn að heyra eitthvað um brottför mannsins af jörðinni.
   Það er nokkuð erfitt úrlausnarefni. En ég skal samt reyna.
Þegar maðurinn er dáinn eftir fánýti lífsins fær líkami hans nýtt nafn. Það er lík. Þegar líkaminn er orðinn kaldur er honum komið fyrir í íláti sem kallað er líkkista.
   Eftir nokkra daga grafa svonefndir grafarar djúpa holu í jörðina sem nefnist gröf. Staður sá, sem ætlaður er fyrir grafir, nefnist grafreitur.
   Síðan er kistunni með líkinu ekið með líkvagni eða líkbíl til kirkju og fylgja syrgjendurnir fótgangandi á eftir. Í kirkjunni flytur presturinn fallega ræðu um eftirbreytnivert líf hins látna en á undan og eftir ræðunni syngur kórinn sálma.
   Þegar kirkjuathöfninni er lokið er líkkistunni ekið að gröfinni og á eftir kemur líkfylgdin. Grafararnir láta kistuna síga niður í gröfina. Presturinn kastar á hana þrem moldarkögglum með lítilli skóflu og síðan er gröfin fyllt aftur með uppgreftrinum. Á meðan stendur líkfylgdin í kring og nokkrir karlmenn úr kórnum syngja harmljóð. Eftir það fara allir heim.
   Í gamla daga héldu menn upp á jarðarför ættingja sinna eða vina með mikilli veislu. Slíkar veislur nefndust erfisdrykkjur. Þá borðuðu menn mikið og drukku mikið og sungu falskt.
   Þú hefir ekkert sagt um sál hins dána.
   Nei, það er nokkuð leyndardómsfullt vandamál. Margir trúa að sál mannsins sé ódauðleg, það er að segja, að hún sé sjálfstæður persónuleiki sem lifi eilíflega eftir dauða líkamans. Það líf nefna menn annað líf eða eilíft líf eða líf eftir dauðann eða himneskt líf. Sá heimur, sem hún lifir í, nefnist annar heimur eða heimur handan dauðans eða himinn.
   Þeir menn, sem þessu trúa, eru kallaðir hinir trúuðu eða trúmenn og þessi kenning þeirra er nefnd trú. Í kringum þessa kenningu hafa menn skapað helgisiði og hátíðlegar seremoníur og reist kirkjur með prestum til þess að hafa þar samband við yfirnáttúrlega veru, sem þeir nefna Guð, til þess að að tryggja sér endanlega hamingju eftir dauðann. Þetta eru trúarbrögð og umgjörð þeirra er Kirkjan.
   Hvað kenna hinir trúuðu um líf sálarinnar eftir líkamsdauðann?
   Ó, kenningar þeirra eru mjög ólíkar. Hin forna kristna kirkja kenndi, að strax eftir dauðann færi sál mannsins annað hvort til himins þar sem hún yrði boðin velkomin af Guði og helgum englum eða félli í eilíft helvíti þar sem tekið væri á móti henni og hún  pínd af djöflum og púkum og þar sem hún yrði að dveljast um eilífðir. Margir þessara trúmanna boðuðu samt, að fyrir uppstigningu sína til himins færi sálin í gegnum hreinsandi eld eða hreinsunareld til þess að hreinsast af syndum sínum. Reyndar staðhæfa nýtísku kenningar að sálin fari hvorki til neins konar himins eða helvítis eftir dauðann, heldur haldi áfram tilveru sinni í heimi svipuðum okkar jörð og þróist þar smám saman til meiri fullkomnunar samkvæmt lögmálum þróunarinnar. Einnig eru margir menn sem trúa því að sálin endurfæðist oft á jörðinni uns hún hafi lært nægilega mikið í okkar heimi.
   Aðrir fullyrða að hin svokallaða sál sé aðeins eðlisfræðilegt ferli líkamans og ljúki þar af leiðandi með dauða hans. Menn, sem aðhyllast þessa trú, kallast trúleysingjar eða efnishyggjumenn, og kenning þeirra er kölluð efnishyggja. Venjulega neita þessir menn hugmyndinni um tilveru Guðs. Þess vegna eru þeir einnig nefndir guðleysingjar eða trúleysingjar.
   Auk þess er þriðji meginflokkur manna, sem einfaldlega segja: Ég veit ekki. Þeir eru efahyggjumenn, eða vantrúarmenn eða hvorki – né trúmenn.