(Þessi kafli, Stjörnurnar ( La Steloj), er þýddur úr Esperanto IV Leskaflar, bls. 40–42)
 
   Þegar ég horfi á himininn á stjörnubjörtum kvöldum sé ég á svarblárri festingunni aragrúa af sindrandi smáum ljósum. Ég veit bara að þau kallast stjörnur. En ég væri forvitinn að heyra eitthvað um þessi smáu tindrandi ljós.
   Ég skal með glöðu geði reyna að segja þér frá nokkrum grundvallar staðreyndum. Hinar sindrandi stjörnur, sem þú sérð, eru svokallaðar fastastjörnur eða föst himintungl. Þær eru stórfenglegar sólir, flestar stærri, jafnvel miklu stærri en okkar sól.
   Hvers vegna sýnast þær þá vera svona litlar?
   Þær sýnast svona litlar vegna þess að fjarlægðin milli okkar og þeirra er svo mikil. Eins og þú veist þurfa ljósgeislar frá sól okkar aðeins örfáar mínútur til þess að komast milli sólar og jarðar. En fastastjörnurnar eru í svo mikilli fjarlægð að það tekur ljós þeirra nokkur ár, áratugi, aldir, jafnvel árþúsund að ná sjónum okkar. Það skýrir nokkurn veginn hinar gífurlegu fjarlægðir. Aragrúi sólna og sólkerfa er í svo mikilli fjarlægð að frá okkar jörð, sem okkur þykir miðdepill alheimsins, líta þær út eins og gráir þokublettir eða þokuflákar. Einn þeirra er Vetrarbrautinn sem sólkerfi okkar tilheyrir. — En hefur þú aldrei séð á himninum stjörnur sem ekki sindra?
   Ég hef ekki tekið eftir því.
   Slíkar stjörnur eru til og þær eru oft sýnilegar. Þær nefnast reikistjörnur og eru fylgihnettir sólar okkar. Þær eru dimmir himinhnettir sem fá birtu sína frá sólu. Jörðin er ein reikistjarnanna og eins og þær tilheyrir hún sólkerfi okkar.
   Er jörðin þá stjarna?
   Já, afskaplega lítil stjarna.
   Það er undarlegt. Fylgja einnig reikistjörnur hinum fjarlægu sólum?
   Um það vita menn ekki. En í himingeimnum eru undarlegir flakkarar sem birtast okkur með löngu millibili og þjóta fljótt úr augsýn. Þeir hafa langan slóða eða hala.
   Þú átt við halastjörnurnar.
   Já. Auk þess er í himingeimnum aragrúi af steinum eða björgum sem kallast geimsteinar eða loftsteinar.
   En hvað er að gerast þegar stjörnur falla af himninum?
   Slík hröp eru ekki raunverulegar stjörnur. Það eru geimsteinar. Þegar þeir berast inn í aðdráttarafl jarðar falla þeir til jarðar með eldingarhraða eins og ljóshnettir, sem draga á eftir sér langa ljósrák eða ljóshala. Slíkt kallast stjörnuhröp.
   Hvert falla þeir?
   Nokkrir falla til jarðar eða í sjóinn, en flestir brennhitna svo þegar þeir mæta þrýstingi andrúmsloftsins að þeir brenna upp eða leysast upp áður en þeir ná til jarðar.
   En hvers konar slys verða á himninum þegar sólin eða tunglið hverfa skyndilega í heiðskíru veðri? Ég hef nokkrum sinnum séð það gerast.
   Við getum ekki kallað það slys. Það er fremur ókurteisi himinlíkamans. Hún kemur þannig fram að tunglið stígur fram fyrir sólina svo að skuggi tunglsins sveipar jörðina meira eða minna í myrkur. Það er hálf- eða heilmyrkvi sólar. Í önnur skipti fer jörðin þannig á milli sólar og tungls að skuggi jarðar skyggir á tunglið. Það er hálf- eða heilmyrkvi tungls.
   Þetta er merkilegt. En í mínu ungdæmi trúðu menn því að stjörnuhröp, halastjörnur og myrkvar boðuðu hörmungar, sjúkdóma, óhöpp, dauða, stríð og svo framvegis.
   Það var hjátrú vanþekkingarinnar. Og reyndar var það hjátrú þekkingarinnar þegar vísindamenn öldum saman neituðu tilvist geimsteina þrátt fyrir vitnisburði fjölmargra gáfaðra rannsakenda vítt um heim. Þannig hallast mennirnir jafnan að einni eða annarri hjátrú. Leið hugsunarinnar krefst of mikillar einlægni og þolgæði og er auk þess oft hættuleg því að sérhvert þjóðfélag byggir að mestu leyti á mætti hjátrúarinnar.
   Hafa stjörnurnar nöfn?
   Margar. Reikistjörnurnar nefnast Merkúr, Venus, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus að ógleymdri Jörðinni.
   Þekkirðu nöfn einhverra af fastastjörnunum?
   Nokkur, til dæmis er Síríus í stjörnumynstrinu eða stjörnumerkinu Stóra hundinum, Aldebaran í Nautinu, Kastor og Poluks í Tvíburunum, Vega í Líru, belti Óríons, sverð Óríons *[og] Rígel, öll í Óríon, og í Litla Birni er Pólstjarnan en eftir henni sigldu menn um höfin í gamla daga.