(Þessi kafli, Barn Jarðarinnar (La Ido de l‘ Tero), er þýddur úr Esperanto IV. Leskaflar, bls. 45–47).
 
   Á æskuárum mínum heyrði ég sagt að jörðin ætti barn. Er það satt?
   Já, jörðin á eitt barn.
   Er það heimskautabjörninn (Pólstjarnan)?
   Nei, nei! Það er hinn silfurliti fylgihnöttur eða tungl jarðarinnar, sem skín á himninum á nóttunni.
   Norðurljósin?
   Nei, tunglið!
   Ó, hvað ég get verið heimskur að muna ekki eftir tunglinu.
   Hvað er tunglið?
   Tunglið er lítill himinhnöttur sem jörðin ól af sér fyrir mörgum milljónum ára.
   Hvað gerir tunglið?
   Það snýst í kringum sjálft sig og hleypur í kringum jörðina.
   Hvað þarf það langan tíma til að fara í kringum jörðina?
   Tuttugu og átta daga, og þann tíma nefna menn tunglmánuð.
   Getur þú frætt mig á því hvers vegna tunglið breytir stöðugt útliti sínu á hlaupum sínum í kringum jörðina?
   Já, það get ég. Á hringferð sinni í kringum jörðina lendir tunglið í misjöfnum kringumstæðum líkt og leikari á sviði. Sé það í beinni stefnu milli jarðar og sólar, er það ósýnilegt.
   Hvers vegna ósýnilegt?
Það stafar af því að tunglið er dökkur hnöttur, upplýstur af sólinni og miklu nær jörðinni en hún. Þegar það er í stefnu milli jarðar og sólar, snýr hin dökka hlið þess að jörðu, en hin upplýsta hlið þess mót sólu. Þá sjáum við ekki tunglið.
   En eftir tvo eða þrjá daga hefur tunglið snúið til austurs frá sólu, svo að greina má hægri rönd hennar eins og bogadregna ljósrák á himninum, sem svipar mjög til gamallrar vatnsfötu sveitamanna. Þá segjum við að við sjáum nýtt tungl eða að nýja tunglið sé komið. Þau kvöld gengur tunglið næstum strax undir eftir sólarlag.
   Sjö dögum eftir nýtt tungl, er tunglið komið svo langt til vinstri að menn sjá hægra helming þess. Það kalla menn fyrsta kvartel.
   En á sjöunda degi eftir fyrsta kvartel er tunglið í þveröfugri átt við sólu. Þá er öll hlið tunglsins upplýst af sólinni og blasir við sjónum okkar. Þá segja menn að sé fullt tungl. Það kvöld kemur tunglið upp þegar sólin gengur undir.
   Þar til tungl verður fullt sjáum við sívaxandi tungl, en strax daginn eftir fullt tungl byrjar það að minnka. Minnkunin felst í því að smám saman fjarlægist tunglið vinstri hlið sólar og nálgast í sama mæli hægri hlið hennar. Þar af leiðandi myrkvast hægri hlið tunglsins meira og meira. Á sjöunda degi eftir fullt tungl er helmingur vinstri hliðar þess sjáanlegur. Við þessi síðustu umskipti tunglsins er sagt að það sé á síðasta kvarteli. Nokkrum dögum seinna hefur tunglið nálgast svo mjög hægri hlið sólar að það er horfið. Um það bil sem það hverfur birtist það rétt fyrir sólsetur. Þegar tunglið verður aftur beint á milli jarðar og sólar lýkur tunglmánuði og þá birtist aftur nýtt tungl.
   Hvers konar gagn hafa jarðarbúar af tunglinu?
   Tunglið er hinn kaldi lampi næturinnar sem með fölu skini sínu lýsir upp myrkur jarðarinnar. Það er hinn greiðvikni milliliður sem tekur engar prósentur. Og tunglið hefur skapað rómantík snillinganna en sólin hefur aftur á móti framleitt auðmagnið.