(Þessi kafli, Himnahugsuðir (Ĉielcerbumantoj), er þýddur úr Esperanto IV. Leskaflar, bls. 53–56)
 
   Í æsku minni tóku menn vel eftir himninum. Á þeim tíma var ekki til veðuratugunarstöð í landi voru og engin útvarpsstöð sem á hverjum degi sendu út veðurspá fyrir þjóðina. Menn urðu að setja allt sitt traust á augu sín. Menn reyndu ekki einungis að giska á hvernig veðrið yrði með því að horfa þolinmóðir á skýin, heldur reyndu menn einnig að segja fyrir að hausti hvernig veðrið yrði næsta vetur út frá ásýnd Vetrarbrautarinnar. Ó, já, þá voru svo sannarlega veðurspámenn á fjölmörgum stöðum.
   Var klukka á þínu heimili?
   Ekki fyrr en ég var fimmtán ára.
   Hvernig miðuðu menn tímann?
   Á daginn út frá sólinni, á nóttunni út frá einhverjum áberandi fastastjörnum.
   Hvernig gátu menn það?
   Í nágrenni bæjarins voru ýmsir áberandi punktar sem menn notuðu sem eyktamörk. Og þessi eyktamörk urðu að vera nákvæmlega í öllum höfuðáttum. Beint í austri var til dæmis fjallstindur, í suðaustri gömul tóft, í suðri hólmi í sjónum, í suðvestri sker, í vestri stígur í fjallinu o. s. frv. Og þegar sólin eða stjarnan gekk yfir hið fasta mark sáu menn hvað klukkan var.
   Klukkan sex gekk sólin eða stjarnan til dæmis yfir austur- eða miðmorgunsmarkið, klukkan níu yfir suðausturmarkið, klukkan tólf suður- eða hádegismarkið, klukkan þrjú suðvesturmarkið, klukkan sex vestur- eða miðaftansmarkið, klukkan níu norðvestur- eða náttmálamarkið, klukkan tólf norður- eða miðnæturmarkið og klukkan þrjú norðaustur- eða óttumarkið. 
   Fjarlægðina milli hverra tveggja marka fer himinlíkaminn á um það bil þremur klukkutímum.
   Akkúrat! Og þessi fjarlægð nefnist eykt.
   Hvenær fóru menn venjulega á fætur?
   Á sumrin fóru menn venjulega á fætur þegar sólin var yfir miðmorgunsmarkinu.
   Og borðuðuð morgunmat?
   Þegar sólin var yfir suðausturmarkinu.
   En hvenær borðuðuð þið hádegisverð?
   Venjulega þegar sólin var mitt á milli dagmála- og suðvesturmarksins.
   En hvenær höfðuð þið kvöldmat?
   Á sumrin borðuðum við venjulega kvöldmat þegar við hættum að vinna.
   En hvenær hættuð þið að vinna?
   Oft þegar sólin var yfir náttmálamarkinu. Stundum unnum við þangað til liðinn var þriðjungur, jafnvel tveir þriðjungar af áttunda eyktarmarkinu.
   Hvenær byrjuðuð þið að vinna?
   Strax eftir að við fórum á fætur.
   Þið hafið þá unnið fimmtán til sextán eða sautján klukkustundir.
   Já, og í heyönnunum stundum átján klukkustundir.
   Hvílduð þið ykkur aldrei á vinnutímanum?
   Aðeins þegar við borðuðum morgunverðinn og hádegismatinn.
   Oft lágum við eða blunduðum í hálftíma eða klukkutíma um hádegið eða seinnipartinn.
   Þið hafið þá haft langan vinnutíma.
   Já, á heyannatímanum, en aðra hluta ársins unnum við talsvert skemur og vinnan þá oft ekki eins þreytandi.
   Hvenær fóruð þið á fætur á veturna?
   Þá fórum við venjulega á fætur þegar sólin hafði farið yfir einn til tvo þriðju af þriðja eyktarmarki.
   Og hvenær fóruð þið að hátta?
   Þegar hin svonefnda Sjöstjarna var yfir suðaustur-, hádegis- eða suðvesturmörkum, eftir því hvort það var snemma eða seint á vetri. Þekkir þú Sjöstjörnuna?
   Já! Hún er stjörnuþyrping í Nautinu, og stærsta stjarnan í þyrpingunni nefnist Alkíon.
   En hvernig mörkuðuð þið tímann þegar himinninn var þakinn skýjum?
   Þá giskuðum við á hann eftir tímaskyninu.
   Tímamæling ykkar hefur þá verið dálítið frumstæð, jafnvel enn frumstæðari heldur en stundaglasið.
   Já! en hún var ljóðræn og beindi huganum að fegurð himinsins.
   Hvað gerðuð þið á vetrarkvöldunum eftir að þið kveiktuð á lampanum og þangað til þið slökktuð sljósið og fóruð í rúmið.
   Allir í bænum sátu í baðstofunni þar sem logaði á olíulampa. Einhver táði ull, annar kembdi ullina með kömbum, einhver spann þráð á rokk, [og] annar sneri þráðinn með snældu. Einhver óf vef í vefstól eða prjónaði sokk eða vettling með prjónum. Einhver bætti gatslitna flík með bótum og nál, annar gerði við götótta skó, bjó til meisa fyrir hey, smíðaði vatnsfötu og svo framvegis. Einn af fólkinu las alltaf upphátt einhverja sögu fyrir þá sem voru að vinna, oftast fornsögu, eða kvað séríslensk sagnakvæði sem við köllum rímur. Stundum, einkum á kvöldum hátíðisdaga, tefldu einhverjir skák eða tóku í spil.
   Þannig liðu kvöldin þangað til einhver leit út um gluggann og sagði: Það er kominn háttatími. Sjöstjarnan er komin yfir hádegismarkið.
   Höfðuð þið ekki stjörnuspeking í sveitinni?
   Er það húsdýr?
   Ó, nei, nei! Stjörnuspekingur er maður sem fæst við stjörnuspeki. Hann útbýr stjörnuspá og spáir fyrir um líf manna eftir afstöðu stjarnanna.
   Slíkan galdramann höfum við ekki. En í mínu héraði var gamall maður sem gat breytt veðurfari með göldrum.. Og ég hef heyrt að í öðrum löndum séu einhverjir stjörnufræðingar sem horfa á stjörnurnar gegnum langar sjónpípur.
   Já, stjörnufræðingarnir fást við stjörnufræði. Stjörnufræðin er vísindi um himinhnettina. Stjörnufræðingarnir vinna með stjörnusjónauka á stjörnuathugunarstöðvum.