(Kaflinn Að Gullfossi og Geysi (Al Gullfoss kaj Geysir), er þýddur úr Esperanto VI. Leskaflar, bls. 77–81, og er það síðasti kafli þeirrar bókar)

 

Í dag er mjög gott veður. Heiður himinn, sólskin, logn og passlega hlýtt. Eigum við að nota daginn til að fara að Gullfossi og Geysi?
   Já herra.
   Þá verðum við að útvega okkur bíl.
   Hvað kostar bíll?
   Hann kostar 65 krónur.
   Það er nú nokkuð mikið, minn kæri.
   Já, en það er fyrir allan daginn.
   Tekur ferðin allan daginn?
   Já. Það eru 120 kílómetrar. Og við verðum að stoppa hjá Gullfossi og Geysi. Kannski verðum við að bíða nokkra klukkutíma eftir að hverinn gjósi.
   Er vegurinn góður?
   Ekki er það nú. Sums staðar er hann hálfgert svað og holóttur vegna vorleysinganna. Á sumrin er hann þurrari og sléttari.
   Eru veitingahús á leiðinni?
  Já, herra, við Geysi og við Sogsbrúna.
  Jæja, þá skulum við fara. Viltu gjöra svo vel að hringja og panta fjögra manna bíl.
   Eins og þú sérð, þá er landslagið á leiðinni að Gullfossi og Geysi afar fjölbreytilegt. Á fyrsta hluta leiðarinnar eru grýtt fell, langir hæðarhryggir, grösug dalverpi, hraun með útkulnuðum eldfjöllum, lækir og sandflákar. Lengra burtu sjáum við há fjöll og á milli þeirra liggja djúpir dalir og að baki teygir sig spegilsléttur sjórinn, skreyttur eyjum og nesjum, fjörðum og víkum.
   Síðan kemur í ljós vegur í auðninni, löng háslétta, þar sem hér og hvar má sjá gráa reyki stíga upp af heitum hverum. Þegar komið er á austurbrún hásléttunnar blasir við fram undan glæsilegur sjónhringur: víðáttumikið, frjósamt sléttlendi. Undir hlíð hásléttunnar mætir augunum lítið þorp, byggt umhverfis fjölda heitra hvera. En fjær teygir hin víðlenda slétta úr sér með bóndabæjum, þorpum, stórum ám og lónum. Vinstra megin sléttunnar rísa fjöll og hæðir í síbreytilegum formum og stærðum, en til hægri við hana teygist Atlantshafið með háum eyjum og hólmum. Í heiðskíru veðri geta litir þessa sjónhrings orðið mjög fallegir. Við augum blasa samtímis grænir, gráir, bláleitir, fjólubláir og rauðleitir litir og svo framvegis. Vegurinn niður hlíðina er ansi ósléttur og horfi maður út úr bílnum gæti mann farið að svima.
   Nú erum við komin niður á sléttlendið. Þar sjáum við eina af stærstu ám Íslands. Þar er fallegt sumarhótel. Og þar er gamall eldgígur með djúpu vatni á botninum.* Hér eru margir hólar sem við verðum að þræða á milli. Og nú erum við komnir nær fjöllunum og við sjáum vel lögun þeirra og liti. Þarna gnæfir jökull milli fjallanna. Og alls staðar sjáum við bóndabæi á sléttlendinu í fjallaskörðunum. Einnig sjáum við hér nokkur fögur vötn og tjarnir.
Að lokum komum við að Geysi. Taktu eftir hvernig allt nágrennið er gegnumborað af eldheitum hverum¸ sjóðandi holum og hvæsandi leirbrunnum. Stærstur er samt Geysir. Eins og þú getur nú séð er efri hluti hans kringlótt skál, sem þrengist niður á við til hinnar djúpu vatnsrásar. Þegar uppsprettan er kyrr stendur vatnið hátt í skálinni. En fyrir gosin hækkar það samt uns það flóir yfir brún skálarinnar og sjóðandi vatnssúlan stígur í 50 til 60 metra hæð. Eftir um það bil korter fer súlan smám saman að lækka og missa afl uns uppsprettan kyrrist alveg og skálin verður alveg tóm.
   Gýs Geysir á hverjum degi?
   Stundum, en stundum einungis annan hvern dag. Stundum verða menn að setja sápu í brunnholuna til þess að framkalla gosið. Núna er uppsprettan kyrr. En ef við bíðum nokkra stund, verðum við kannski vitni að einu af stórbrotnustu fyrirbærum náttúrunnar.
   Nei, taktu nú eftir! Nú heyrast drunurnar í uppsprettunni sem eru forboði gossins. Hvílíkur ógnarlegur hávaði eins og jörðin sé að klofna. Við skulum flýta okkur að uppsprettunni. Taktu eftir hvað margt fólk stendur í kringum hverinn. Nú byrjar vatnið að vella yfir brúnina á skálinni. Það stígur ýmist upp eða sígur niður aftur. Nú er vatnssúlan orðin stöðug. Hvílíkt gos! Hvílíkar drunur! Hvílíkir litir í sólskininu! Hinn tröllaukna vatnssúla stígur í 60 metra hæð. Hér hefir gosið náð hámarki. Nú er að draga úr því. Súlan lækkar smám saman. Það dregur úr drununum. Og hér hvílir uppsprettan alveg róleg og skálin orðin galtóm. Þótti þér ekki gosið tilkomumikið?
   Það var svo sannarlega stórfenglegt, líklega stórfenglegasta fyrirbæri sem ég hef séð í náttúrunni. Ég er eins og dáleiddur.
   Nú erum við staddir hjá þeim fræga fossi Gullfossi, ekki stærsta fossi á Íslandi, en einhverjum þeim fegursta. Nafn hans þýðir líka „foss gullsins“. Við skulum fara hér út úr bílnum og ganga með brún hins hyldjúpa gljúfurs fast við fossinn. Hvílíkur ærandi hávaði! Taktu eftir, hversu tröllslega vatnsflaumurinn kastast niður í hyldjúpa hringiðuna. Hvílíkur leikur náttúrunnar! Séu menn hér á réttum tíma dagsins í sólbjörtu veðri, geta menn séð skínandi litina leika í gufunni sem svífur í allar áttir út frá fossinum. Það er gullfögur sjón.
   Þegar maður stendur frammi fyrir slíkum kröftum náttúrunnar finnst manni maður vera smár, vesæll og fátækur í anda.
 

* Hér er vafalaust átt við Kerið í Grímsnesi.