Heimspeki eymdarinnar er hér birt eins og hún var fyrst prentuð í Rétti 12. árgangi, 2. hefti, 01. 07.1927, en innan oddklofa settar viðbætur eða umskriftir þær sem Þórbergur hefur gert á henni eins og hún birtist í Ritgerðir I 1924–1959 (Með inngangi eftir Sverri Kristjánsson) Reykjavík, Heimskringla 1960.

 

I.

 

   Lesendum Réttar mun óefað kunnugt um að í ágústmánuði síðastliðnum kom varaforseti guðspekifélagsins, herra C. Jinarajadasa, hingað til lands á vegum íslenskra guðspekifélaga. Hann flutti tvo opinbera fyrirlestra í Reykjavík. Þar að auki talaði hann á nokkrum guðspekifundum. Á einum þessara funda var félagsmönnum gefinn kostur á að leggja fyrir herra Jinarajadasa skriflegar spurningar er hann hét að svara á næsta félagsfundi. Eg greip nú langþráð tækifæri og bar upp sjö spurningar fyrir varaforsetanum er mér lék dálítil forvitni á að heyra svarað af vörum þvílíks manns. Spurningarnar eru prentaðar aftan við þessa greinargerð.

   Herra Jinarajadasa svaraði öllum spurningum mínum. En svör hans féllu mér í marga staði svo laklega að ég gat ekki orða bundist og skrifaði honum á Esperanto bréf það sem hér fer á eftir í íslenskri þýðingu. En ég hafði aðeins þrjá daga til þessarar bréfritunar og ritaði það þar að auki á máli sem mér er ekki ennþá eins tamt og íslensk tunga. Þess vegna tókst mér ekki að gera efni þess eins rækilega úr garði og ég myndi hafa kappkostað ef ég hefði haft lengri tíma til umráða.

   Bréf mitt svarar vitanlega ekki öllu því er mér fannst íhugunarvert í svörum herra Jinarajadasa. En ég hygg þó að það drepi meira og minna á flest þau atriði í svörum hans er skipta þau sjónarmið einhverju máli er spurningar mínar voru miðaðar við. En sökum þess að hér er ekki svarað einu svari, heldur mörgum eða öllu heldur pörtum úr mörgum svörum, þá varð efni bréfsins dálítið sundurlaust. Þrátt fyrir það má lesa nokkurn veginn út úr þessum hugsanabrotum meginþráðinn og andann í allri svarræðu varaforsetans. Og mér vitanlega er hvergi hallað réttu máli né neitt sagt í bréfi þessu sem fer í bága við þau atriði í svörum Jinarajadasa er mér vannst ekki tími til eða taldi ástæðulaust að svara. Þess skal þó getið að einstaka atriði eru rakin hér lítið eitt gjör en í frumtexta mínum á Esperanto. En þeir viðaukar hagga í engu efni frumritsins.

   Upphaflega gerði ég ekki ráð fyrir að þetta bréf mitt birtist á prenti. En nú hefir Morgunblaðið stillt svo til að spunnist hafa opinberar umræður út af nokkrum atriðum í svörum herra Jinarajadasa. Og Lögrétta hefir flutt lesendum sínum fregnir af þeim. Ennfremur er ég nú kominn á þá skoðun að flest eða öll þau svör varaforsetans, sem hér eru gerð að umræðuefni, séu í raun og veru almenn og opinber lífsspeki er hann hlýtur að hafa velt fyrir sér áratugum saman og boðað mannkyninu á fyrirlestrarferðum sínum út um heiminn síðustu tuttugu árin. Eg hefi að minnsta kosti rekist á margt af þessu áður í sumum ritum hinna meiriháttar guðspekinga. Og hér heima fyrir er þessi hugsanaferill mér of kunnur á vegum margra guðspekinema. Eg er þess vegna hér að svara opinberri lífsspeki sem hræsnarar eða einfeldningar beita til þess að deyfa réttlætismeðvitund manna, afsaka glæpsamlega meðferð á smælingjum mannkynsins og draga viturlega heimspeki niður í mannspillandi klerkasiðfræði og trúarlega hleypidóma. Loks hafa ýmsir kunningjar mínir, bæði innan guðspekifélagsins og utan þess, skorað á mig að lofa þessu bréfi mínu að koma fyrir almenningssjónir. Af þessum ástæðum hefi ég snarað því á íslensku og afráðið að birta það á prenti. Esperanto-textann hefi ég í hyggju að birta í esperanto-tímariti,sem alþjóðafélag jafnaðarmanna gefur út í París.[1] Eg verð því ekki sakaður um að hafa farið aftan að herra Jinarajadasa. En hins vegar sé ég nokkra þörf á að vara fleiri en landa mína við heimspeki þeirri er hann og aðrir eru að deyfa með eggjar réttlætisins, sennilega án þess að vita hvað þeir eru að gera.

   Spurningarnar, sem ég lagði fyrir herra Jinarajadasa, voru að efni til á þessa leið:

   1. Álítið þér að venjulegu fólki sé yfirleitt unnt að öðlast andlega hamingju á meðan það á við sífellda örbirgð, eymd og fáfræði að stríða og allir andlegir og líkamlegir kraftar þess beinast eingöngu að því að fullnægja brýnustu lífsþörfum og er sóað í látlausa stéttarbaráttu og örvæntingu um líf sitt og efnalega afkomu?

  2. Álítið þér að unnt sé að gróðursetja andlegt réttlæti og bræðralag í mannfélaginu á meðan þar ríkir þjóðfélagsskipulag sem leiðir af sér rangláta stéttaskiptingu og þar með hróplegt óréttlæti og ójöfnuð í skiptingu og afnotum lífsgæðanna?

   3. Álítið þér ekki að sú úrlausn þjóðfélagsvandræðanna, sem jafnaðarstefnan bendir á til efnalegs réttlætis, aukinnar siðmenningar, bræðralags og jarðneskrar hamingju, muni fremur greiða götu þeim boðskap, sem mannkynsfræðarinn væntanlega flytur, heldur en almennt menningarleysi, hlífðarlaus samkeppni, ójöfnuður, vinnudeilur, fjárkreppur og styrjaldir?

   4. Búist þér við að mannkynsfræðarinn fái nokkru áorkað um að gróðursetja ríki hamingjunnar í heiminum án þess að taka afstöðu til ofannefnds ástands?

   5. Vonist þér eftir að boðskapur mannkynsfræðarans geti varist því að verða ánauðugur þræll auðs og valds og böðull frjálsrar hugsunar eins og snemma urðu örlög kristindómsins?

   6. Álítið þér að það samræmist kenningum trúarbragðanna að klerkarnir neyti aðstöðu sinnar til að styðja núverandi þjóðfélagsskipulag sem elur af sér allt það böl er að ofan greinir?

   7. Álítið þér ekki að upptaka þjóðlauss hjálparmáls svo sem Esperantos muni hjálpa til að efla frið og bræðralag meðal þjóðanna? [Og álítið þér ekki guðspekingum sérstaklega skylt að styðja slíka hreyfingu?]

 

Þá kemur bréf mitt til herra Jinarajadasa.

 

II.

 

   Reykjavík, 6. september, 1927.

         

   Heiðraði herra.

   Í svarræðu yðar á laugardagskvöldið var gerðuð þér ofurlítinn samanburð á fegurð Esperantos og idos eins og efna er yður væru að fullu kunn. Þess vegna dirfist ég að rita yður bréf þetta á Esperanto.

   Svör yðar féllu mér því miður ekki eins vel í geð og ég hafði búist við. Þau virtust fremur þokukennd og úr lausu lofti gripin heldur en skýr eða vísindaleg. Þér genguð þegjandi fram hjá ýmsum mikilvægum staðreyndum sem einar eru færar um að vísa oss veginn til hins marglofaða sannleika.

   Ég spurði yður ekki, þótt svo hefði mátt virðast af svari yðar, hvort innri farsæld væri dýrmætari fjársjóður en ytri gæði. Ég vissi það vel og hefi margsinnis lagt áherslu á það í skrifum mínum að innri hamingja, andlegur þroski, er undirstaða sannrar farsældar. En ég spurði yður hvort venjulegu fólki væri unnt að öðlast innri farsæld ef það skorti öll ytri skilyrði. Það er of kunnur sannleikur að hér lifum vér í heimi efnis og matar. Og það er mín skoðun að allt hið andlega líf vort sé rammlega samtvinnað efnalegum kringumstæðum. Á þessari staðreynd var fyrsta spurning mín til yðar reist. 

  Þér svöruðuð að ófarsæld og ytri eymd væru hjálparmeðul til andlegs þroska. Slíkt hið sama kennir oss peningasiðfræði auðkýfinganna. En ég álít að efnaleg eymd, ófarsæld og menntunarleysi séu oftast þröskuldur á vegi andlegs þroska. Og í nafni þessarar sömu skoðunar hafa mætustu menn mannkynsins á öllum öldum látlaust kostað kapps um að ryðja þessum tálmunum úr vegi. Öll mannleg menning er ávöxtur þeirrar ódrepandi viðleitni að sprengja í sundur víggirðingar andlegrar og efnalegrar eymdar. Aðeins trúaðir einfeldningar og auðugir hræsnarar hafa kennt mannkyninu heimspeki eymdarinnar.

   Samt sögðuð þér að vér ættum að draga úr hinni ytri eymd þótt það virtist aukaatriði í svari yðar. Hvers vegna eigum vér að gera það? Ef þroska andlegs lífs er eymdin dýrmætari en ytri vellíðan, hvers vegna eigum vér þá að draga úr uppeldiskrafti hinnar ytri eymdar? Þá væri andlegum þroska miklu hollara að vér ykjum eymdina. Ef ytri eymd er jafn dýrmæt og ytri vellíðan þá er viturlegast að lofa heiminum að skrimta eins og hann er og hefir verið með eymd sinni, örbirgð, morðum og styrjöldum. En ef ytri vellíðan er dýrmætari en ytri eymd þá er siðfræði jafnaðarstefnunnar ákjósanlegri en siðleysi auðvaldsins. 

   Þér viljið ef til vill skjóta yður bak við þá þægilegu heimspeki að vér eigum að draga úr eymdinni til þess að þroska sjálfa oss. En mér skilst að sú sjálfshjálp sé hæpinn ávinningur sem miðar að því að ræna mannkynið dýrmætum hjálparmeðulum, en það er eymdin að yðar dómi. Getur það þroskað oss að spilla þannig lífi annarra manna?   

   Heimspeki eymdarinnar er svikaheimspeki. Til hafa að sönnu verið menn, er hafa getað beðið til guðs með tóman maga niðri í sorpinu, svo sem hinn heilagi Franz frá Assisi. En  þeir eru hátíðlegar undantekningar. Allan þorra manna hefir ytri eymdin, örbirgðin, menntunarleysið og örvæntingin gert að óhreinum skepnum. Og þetta var þungamiðjan sem fólst bak við fyrstu spurningu mína til yðar. En þér genguð þegjandi fram hjá henni í svari yðar.

  Eg hefi kostað kapps um að gera mér grein fyrir þroskaferli mannsandans í ljósi þeirra staðreynda sem saga þróunarinnar bregður upp fyrir mér og ég hefi sjálfur reynt og haft daglega fyrir augum. Og framsókn lífsins hefir kennt mér þennan sannleika: Þróunarferill mannkynsins liggur gegnum ánægjuna í sorpinu upp til viðbjóðsins á sorpinu og frá viðbjóðnum á sorpinu niður til sjálfsfórnarinnar í sorpinu, og það er síðasti áfanginn á krossför mannsandans. En þér finnið vissulega aldrei mann sem er fær um að stökkva frá sljórri auðmýkt í sorpinu rakleiðis til óeigingjarnrar sjálfsfórnar uppi í hinum himnesku Buddhahæðum. [Allur þorri mannkynsins hefir enn sem komið er aðeins náð fyrsta og öðru stigi þessarar þróunar. Og ennþá líða margar árþúsundir áður en það leggur inn á þriðja og síðasta áfangann.] Við þessar staðreyndir verðum vér að miða verk vor í þágu mannkynsins. Að öðrum kosti verður öll fyrirhöfn vor gagnslausar skýjaborgir sem vindar reynslunnar feykja burt á einni útsynningsnótt.

   Á 16., 17. og 18. öld áttum vér Íslendingar við ódæma eymd að búa. Vér þjáðumst af örbirgð, menntunarleysi, hallærum, jarðskjálftum, eldgosum og sóttum. Hverjar urðu afleiðingarnar? Vitringar? Heilagir menn? Hetjur? Andlegir fræðarar? Vísindamenn? Listafrömuðir? Stórskáld? Fögur menning?  

   Sannarlega ekki. Reyndar orti Hallgrímur Pétursson Passíusálma sína á þessum hörmungartímum.* En hann er líka eina verulega stórskáldið sem vér eignuðumst á þessum þremur öldum. Og nýjustu rannsóknir hafa leitt það í ljós að Hallgrímur Pétursson var ekki fátækur maður á vorn mælikvarða. Og ég trúi ekki að holdsveiki hans hafi gert hann að stórskáldi. Hann orti vel áður en holdsveikin lagðist á hann. (En ég get skotið því hér inn milli sviga að ég hefi aldrei fundið mikilleikann í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Eftir mínum smekk eru þeir hversdagsleg þrælasiðfræði, dapurlegir og lágsigldir eins og tímarnir sem höfundurinn lifði á. Og ég hygg jafnvel að þeir hafi dregið þrek og kjark úr þjóð minni með sínu ámáttlega voli og kveinstöfum). Á Íslandi hefir margur maðurinn bæði fyrr og síðar orðið holdsveikinni að bráð. Og vér höfum ekki orðið annars varir en þeir hafi sofnað jafnþroskaðir burt úr heiminum og þeir vöknuðu til hans. Þó undanskil ég þar einn sjúkling sem veikin gaf tómstundir til lærdómsiðkana, en þann greiða hefðu peningar engu síður getað gert honum.[2]

   Fyrir nokkrum árum andaðist hið volduga þjóðskáld vort Matthías Jochumsson. Hann varð 85 ára gamall, var alltaf stálhraustur, átti aldrei við mjög mikla örbirgð að búa, át eins og hákarl og virtist aldrei eiga við neina sérstaka ytri eymd að stríða nema að guð gaf honum þrjár góðar konur. Þrátt fyrir það orti hann sálma og andlega lofsöngva sem að mínum dómi skara fram úr sálmagerð hins volaða holdsveikisjúklings Hallgríms Péturssonar. 

   Á gullöld þjóðar minnar átti hún að fagna efnalegri vellíðan er hélst alla leið fram yfir hið mikla bókmenntatímabil sem vér köllum ritöld. Á þessum efnalegu velgengnistímum var uppi hér á landi fjöldi viturra manna, nafnfrægra skálda og afburða rithöfunda sem ættu heimsfrægð skilda. Margir vitringar, skáld og rithöfundar þessara glæsilegu bókmenntatíma, virðast einmitt hafa verið úr hóp efnamannanna. Á 19. og 20. öldinni, þegar efnahagur þjóðarinnar reis aftur úr rústum, eignuðumst vér níu ágætisskáld og nokkra góða rithöfunda og vísindamenn. Og á síðustu árum, sem hafa verið meiri aflaár en dæmi eru til í atvinnusögu þjóðar minnar, hafa oss hlotnast ágætir hljómlistarmenn, málarar, myndhöggvarar og húsgerðarmenn. Og vér erum rétt að segja búnir að uppræta holdsveikina sem hafði þjakað þjóðina í 10 aldir. Er það rangt? Erum vér þar með að svipta landslýðinn dýrmætum þroskameðulum? Áttum vér heldur að lofa holdsvcikinni að ýlda niður tugi hundraða til þess að nokkrum auðmjúkum volæðisdýrkendum gæfist tækifæri til að þakka höfundi þjáninganna einu sinni á hverjum þremur öldum fyrir einn réttlátan?

   Á þjáningaröldum þessarar þjóðar mátti heita að allt andlegt líf í landi hér væri útslokknað og andlegur vesaldómur, menntunarskortur, mannúðarleysi, hjátrú og glæpir þjökuðu landslýðinn. Og mannfólkinu í landinu fækkaði úr 100.000 niður í 30.000. Þetta urðu hinar gullnu afleiðingar ytri eymdar á ættjörð minni. Og ég veit ekki betur en þetta sé alþjóðarreynsla. Mannkynssagan kennir mér að andleg menning rísi hvervetna og falli með ytri kringumstæðum.

   Var þjóðin þá andlega farsæl á þessum þjáningartímum? Nei. Undir niðri í sálum landsmanna tórðu jafnan hálfkulnaðar menningarglæður frá gull- og ritöldinni. Það var þeim að þakka að þjóðin var andlega þjáð á 16., 17. og 18. öld. Og það var tilfinningin fyrir þjáningu og niðurlægingu sem vakti hana og knúði hana til að hefja sig upp úr foræði andlegrar og efnalegrar eymdar. Síðan hafa Íslendingar tekið geysilegum stakkaskiptum. Þeir eru miklu farsælli, miklu menntaðri og miklu betri menn.

   Ef vesalingamir, sem eru undirokaðir í yðar landi, eru andlega farsælir niðri í sorpi ytri eymdar, þá staðhæfi ég hiklaust að þeir séu menntunarlaus villidýr. Þorri manna, sem gerir sér að góðu að draga fram lífið niðri í feni ytri eymdar, umber niðurlægingu sína aðeins þess vegna að hann hefir ekki meðvitund um að hann er staddur í helvíti. Hann vantar andlega menningu. En síðar koma sannarlega dagar er hin bitra eymd dustar meðvitund þeirra af svefni sljóleikans. Gefið þeim brauð! Klæðið þá góðum fötum! Fáið þeim fögur húsakynni. Veitið þeim menntun, listir, skemmtanir. Þá vakna meiri kröfur um andleg og efnaleg gæði, um andlega og efnalega menningu. Og eftir daga nautnanna hefjast fyrst tímar sannrar sjálfsafneitunar. Þannig gengur þróun gervalls mannkynsins. Sljótt dýr eigingjarn fjáraflamaður — fórnfús dýrlingur, — þetta eru megináfangamir á leið mannkynsins gegnum hreinsunareld jarðneskrar þróunar, frá villimanninum til meistarans, frá dýrinu til drottins. Og jafnaðarstefnan flýtir þessu óumflýjanlega langferðalagi kynslóðanna. Þess vegna er ég jafnaðarmaður. Og þess vegna ber sérhverjum hreinskilnum guðspekinema að styðja jafnaðarstefnuna.

   Þér dáðust mjög að hinum fátæku bramaprestum Indíalands, er væru svo í hávegum hafðir af höfðingjunum, þrátt fyrir örbirgð sína, að konungarnir stæðu upp úr sætum sínum þegar þessir dýrlingar gengju inn í hallir þeirra. Myndu þeir standa upp ef veldi þeirra stafaði hætta af þeim? Samt eru þessir beinaberu fátæklingar svo andlega vesælir að þeir gera sér að góðu að vera þjónar og postular mammons og brennivíns![3] Hvílíkar dásemdarverur! En sjái þér ekki hvílíka mannspillingu það hefir í för með sér að mest virta stofnun mannkynsins og þjónar hennar skuli vera hábundnir þrælar og boðberar peninga og brennivíns? [Virðist yður þá ekki öllu viturlegra annað hvort að jafna slíka stofnun við jörðu eða leysa hana undan oki peningavaldsins?]

   Þér dáðust einnig að jafnaðarstefnu Johns Ruskins. Eftir minni vitund telur þó Ruskin orsök hinnar ytri eymdar hina sömu sem ég gaf í skyn í spumingum mínum til yðar. Og þessi andlegi vitringur virðist aðeins sjá sömu lækninguna við eymdinni sem ég og aðrir jafnaðarmenn höfum boðað. Ruskin segir:

   „Ætlarðu að una því alla ævi að letingjar eyði auði þínum og bófar dári dyggðir þínar? Auður heimsins er eign þín. Jafnvel hversdagsvaðallinn og hagfræðingaskríllinn segir þér að án vinnu verði enginn auður. Hver rænir honum þá og hefir þig að ginningarfífli? Þér klæðskerar! Hver á sök á því að allur þorri allra enskra barna gengur í tötrum? Þér skósmiðir! Hver á sök á því að vændiskonur spóka sig á hælaháum skóm en böm yðar ösla forina berfætt? Og þér veðurbörnu húsfeður! Hver á sök á því að böm hrynja hvervetna niður úr hungri í hinu frjósama Englandi? Það er tvímælalaust yðar sök, nú, þegar þér hafið fengið þingræðisvaldið í yðar hendur.“

   Og ennfremur segir Ruskin: „Valdhafarnir synja ekki fátæklingunum aðeins um mat. Þeir synja þeim um visku. Þeir synja þeim um dyggðir. Þeir synja þeim um sáluhjálp.“

   Fyrirmynd yðar, John Ruskin, virðist líta dálítið öðrum augum á siðmenningargöfgun eymdarinnar en þér gerið.

  Hvaða meginmunur er þá á jafnaðarstefnu Johns Ruskins, sem þér segist aðhyllast, og jafnaðarkenningum venjulegra sósíalista sem þér virtust gera fremur lágt undir höfði?

   Heimspeki hinnar mannbætandi ytri eymdar er söguleg fölsun. Vafalaust er yður sú staðreynd kunn að meginþorri ágætismanna heimsins er hvorki upprunninn úr stétt öreiga né auðkýfinga. Þeir eru komnir úr miðstétt mannfélagsins. Þetta er staðreynd. Og allir guðspekingar bera virðingu fyrir staðreyndum. „Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.“[4] Ef heimspeki hinnar mannbætandi ytri eymdar væri „sannleikur“ en ekki „trúarbrögð“ þá ættu úrvalsmenn mannkynsins að vera komnir úr stétt öreiga og volaðra. Þetta auðvirðilega eymdardekur, sem hefir jafnan verið öflugur þáttur í þrælasiðfræði kirkjunnar, er trúarsetning, fundin upp af auðugum hræsnurum er hafa spekúlerað í eymd mannanna og boðuð og viðhaldið af saklausum einfeldningum, sem ekki vita hvað þeir eru að gera, og þjónum auðmannanna, prestum og prelátum er vinna fyrir sér með vísvitandi trúarbragðafölsun.

   Í jafnaðarríkinu verða hvorki auðmenn né öreigar. Þar verður aðeins ein stétt manna, sambærileg við miðstétt mannfélagsins nú á tímum.

   En ég segi þeim, sem trúa á uppeldismátt hinnar ytri eymdar, að meira að segja í jafnaðarríkinu verða nógar þjáningar, eymd og erfiðleikar við að stríða. Að vísu hlotnast oss þar ekki að þakka guði fyrir jafn villimannleg náðarmeðul eins og örbirgð, hungur, klæðleysi, menntunarskort, kauprán, kaupdeilur, fjárkreppur, heilsuspillandi húsakynni, sjúkdóma, sem ill aðbúð dembir yfir smælingjana, skoðanamorð, mansal, styrjaldir og þar fram eftir götunum.

   Eftir verður samt nóg af torfærum og þjáningum til þess að yfirvinna og þreyta afl sitt á, svo sem sjúkdómar margs konar, vanmáttur, heimska, ástríður, óskir og vonbrigði, efasemdir í trúarefnum, barátta við náttúruöflin, fárviðri, eldgos, jarðskjálftar, þekkingarstrit, elli, dauði o. s. frv. o. s. frv. Þér þurfið ekki að fráfælast jafnaðarríkið þess vegna að yður veitist þar aldrei sú ánægja að þakka föður gæskunnar fyrir þjáningar og slysfarir. Í þessari vandræða veröld verða engin þrot á þjáningum fyrr en siðferðisvitsmunum mannanna tekst að ná stjóra hennar úr höndum alheimsböðulsins mikla sem lítilsigldum lýð er kennt að skríða fyrir í þakkarauðmýkt þrælsins.

   Þér sögðuð oss að verkamenn í Ástralíu ættu við betri kjör að búa en dæmi væru til um verkamenn á Vesturlöndum. Þrátt fyrir það væru engir jafn lítið hamingjusamir og þeir. Og mér skildist á yður að þetta ætti að sýna fánýti góðra kjara í þágu andlegrar farsældar. En ég spyr yður: Eru verkamennirnir í Ástralíu eins andlega hrjáðir og vesalingar fátækrahverfanna í Leith og í Eastend í London? Hyggið þér að þeir yrðu andlega farsælli ef þeir hefðu eitt herbergi til íbúðar í staðinn fyrir þrjú, gengju í skítugum tötrum, yrðu að neita sér um allar nautnir siðaðs manns, væru neyddir til að selja konur sínar og dætur til saurlifnaðar og misstu tvo þriðju barna sinna úr tæringu? [Þannig þakka þeir drottni þjáninganna fyrir lág daglaun í hinu trúaða föðurlandi frú Besants.] Eruð þér alveg viss um að þér vitið í raun og veru hvað þér eruð að segja?  

   Eg þekki ekki ævi verkamanna í Ástralíu. En í tveim öðrum löndum veit ég dálitla grein á högum verkamannastéttanna. Það er í Danmörku og Svíþjóð. Í þessum löndum eru kjör verkamanna betri en í flestum öðrum ríkjum Evrópu. Og ég þori að fullyrða að dönsku og sænsku verkamennirnir eru miklu andlega farsælli en verkalýðurinn í hinni íhaldssömu, deyjandi blóðsugu Englandi og hinu stríðsóða Frakklandi. Og menntun alþýðu og menning er miklu meiri í Danmörku og Svíþjóð. Óvíða hefir auðmönnum og postulum Krists orðið betur ágengt að gera heimspeki eymdarinnar að holdi klæddri úrkynjun en í hinum guðhræddu og skítugu verksmiðjum Englands.

   Hin falska heimspeki ytri eymdar er og gamall húsgangur á ættjörð minni. Margir ríkir hræsnarar og prestarnir, leiguþrælar þeirra, hafa innrætt oss þennan „veg til eilífrar sáluhjálpar“. Þeir koma stundum til vor í ímynd kristins jafnaðarmanns. Þeir tala eins og kristnir mannvinir en breyta eins og eigingjarnir heiðingjar. Þeir kjósa alltaf með þrælum mammons sem nú eru komnir vel á veg með að gera land vort að kynbótastöð helvítis.

   Sannleikurinn um eymdina er aðdáanlega einfaldur: Gefðu öllum mönnum eins gott uppeldi og ytri skilyrði sem auðið er. Og guð sér fyrir þjáningum hans. Og þetta er allur sannleikurinn.

 

   Annarri spurningu minni svöruðu þér meðal annars á þá leið að fyr á tímum hefðu engir vegir verið á Íslandi en samt hefðu landsmenn getað farið allra ferða sinna. Og þér spurðuð: „Hvers vegna á að vera að leggja vegi ef enginn fæst til að fara þá?“ Slík heimspeki virðist mér dálitið grunnfær. Munduð þér ekki annan alkunnan sannleika, að vegir skapa vegfarendur.

   Fyrir nokkrum árum var enginn þjóðvegur frá Reykjavik til Þingvalla. Á þeim tímum var það engum Íslendingi neitt áhugamál að koma á þennan fornhelga sögustað þjóðarinnar. Og fegurð hans var landslýðnum hulinn leyndardómur. En tíminn kom. Vegurinn var lagður án þess að þjóðin óskaði, og bifreiðar komu, einnig án þess að þjóðin léti í ljósi neina þörf fyrir þessi nýtísku farartæki Ameríkumanna. Og sjá: Vegurinn og bifreiðarnar skapa á ári hverju mörg þúsund vegfarendur sem friðlaust vilja eyða frítímum sínum á Þingvöllum. Og þessi ferðalög hafa allt í einu sýnt þjóðinni að Þingvellir eru einkar fagur staður.

   Guðspeki vorra tíma er og eins konar vegur í andlegum skilningi, vegur til þekkingar á hinum guðlegu lögmálum tilverunnar. Og þessi vegur kom í heiminn áður en nokkur óskaði að verða guðspekingur. En hann hefir skapað guðspekinga. Nú tekur guðspekin toll af 40 000 vegfarendum sem reika gegnum æfingar hennar og kenningakerfi.

   Vegir skapa vegaþörf. Vegir skapa vegfarendur.

  Jafnaðarstefnan er á sama hátt vegur til efnalegs réttlætis, menntunar, friðar, bræðralags, sáluhjálpar. Og tugir milljóna eru þegar lagðir á stað til hins fyrirheitna guðsríkis sósíalismans.

 

   Þér fullyrtuð að sósíalistar litu á manninn eins og sálarlaust hold. Þetta hefi ég og þrásinnis heyrt af vörum óeinlægra auðvaldssinna. Og ég er löngu hættur að kippa mér upp við að heyra þess háttar fordóma úr þeirri átt. En ég tók nærri mér að hlusta á jafn íhugunarlitla ásökun af munni manns í yðar stöðu. Það er að vísu satt að margir sósíalistar eru efnishyggjumenn, þ. e. trúa ekki á tilveru eilífs lífs. En til er hins vegar fjöldi jafnaðarmanna sem trúir á ódauðleika mannsandans. En þetta skiptir hugsjónir jafnaðarmanna engu máli. Ég hélt að þér væruð lífsreyndur maður. Og ég þóttist sannfærður um að lífsreynsla yðar hefði kennt yður að trú á guð og eilíft líf eykur ekki hársbreidd við gildi mannanna. Ég hefi þekkt marga einfalda trúmenn og flestir sannir trúmenn, sem ég hefi kynnst um ævina, hafa reyndar verið brennimerktir einfeldningar. En svo einfaldan og óhagsýnan trúmann hefi ég aldrei þekkt að hann hafi miðað breytni sína við guð og annað líf. Slík guðmenni finnast aðeins í barnaævintýrum og lygasögum heiðingjatrúboða. En á meðan trúleysingjarnir hugsa og breyta að öllu leyti eins vel og jafnvel oft og tíðum betur en trúmennirnir þá fæ ég ekki séð að það skipti nokkurn mann neinu máli hvort jafnaðarmennirnir trúa á ódauðleika sálarinnar eða neita honum.

   En ég var reyndar ekki að tala um jafnaðarmenn við yður. Ég minntist aðeins á jafnaðarstefnu. Og ég hélt að þér telduð það heimspeki yðar ósamboðið að rugla saman mönnum og málum. Hvar sem jafnaðarmennirnir standa í trúarefnum, þá ber engin stjórnmálastefna jafnmikla virðingu fyrir mannssálinni og jafnaðarstefnan.[5] Kjarni jafnaðarstefnunnar er algerlega andlegur. Jafnaðarstefnan krefst efnalegra gæða handa öllum mönnum til þess að þeir geti þroskað hið andlega líf. Og hún heimtar jafnframt gagngerðar umbætur á öllum uppeldisaðferðum og fræðslukerfum til þess að mennirnir leiti hins andlega lífs. Þetta er kjarni jafnaðarstefnunnar. Ef vér eigum tvö brauð etum við annað, en kaupum oss liljur fyrir hitt.[6] Þetta er kenning jafnaðarstefnunnar. Auðvaldið á vissulega tvö brauð. En í stað þess að eta annað og kaupa sér liljur fyrir hitt, þá etur það aðeins hálft brauð, kastar hinum helmingnum í sorpið (til þess að hækka verðið!) og kaupir síðan herskip og eiturgas fyrir hitt brauðið. Þetta er munurinn á hugsjónum jafnaðarstefnunnar og auðvaldsins. Og mig furðar á að þér skuluð hafa talið yður fært að gerast fræðari mannkynsins án þess að átta yður á honum.

   Eg hefi þekkt eitt sannarlegt mikilmenni um ævi mína. Hann er „efnishyggjumaður“ í þeim skilningi að hann trúir ekki á ódauðleika mannsandans. Þrátt fyrir það er hann andlegastur og vitrastur allra þeirra manna sem ég hefi kynnst. Hugsunarháttur hans og kenningar eru miklu mannúðlegri og andlegri en þokuvaðall hinna málugu og sljóu presta. Hugsunarháttur og kenningar geta verið háandleg þótt kennarinn sé „efnishyggjumaður“. [Andlegleiki og trú á eilíft líf eru óskyld fyrirbrigði. Andlegleiki er fólginn í afstöðu mannsins til verðmæta þessa heims. Sérhver sá sem tekur andlega og siðferðilega fjársjóði fram yfir veraldlegar nautnir, auðæfi, völd og metorð, hann einn hefir sannan andlegleika til brunns að bera. Og hann er enginn annar en hann lifir og breytir samkvæmt siðferðislögmálum tilverunnar. Allir hinir eru efnishyggjumenn og lifa og breyta algerlega andstætt siðferðislögmálum tilverunnar hvort sem þeir eru sanntrúaðir páfar suður í Róm eða trúlausir sovjetstjórnendur austur í Moskva. Þetta vitið þér eins vel og ég. En hví svöruðuð þér mér þá eins og þér hefðuð aldrei heyrt það?] Göfugustu mannvinirnir, sem ég hefi þekkt á hinni mótdrægu lífsleið minni, eru þeir efnishyggjumenn sem hvorki trúa á guð né eilíft líf og aldrei hafa beðið bænar. Hinir einu óguðlegu hræsnarar, er ég hefi rekist á í þessum yfirskinsheimi, eru trúmennirnir sem eru sannfærðir um ódauðleik sálarinnar og lifa í stöðugu bænasambandi við drottin. Slíkar verur eru glórulausustu efnishyggjumennirnir og heilsteyptustu hræsnararnir sem höfundur tilverunnar hefir plantað á illgresisþembum heimshyggjunnar sjálfum sér og eilífðartrúnni til athlægis og vanvirðu.

   Er þá nokkuð vit í að víta jafnaðarmenn fyrir efnishyggju? Sýnið okkur fyrst af verkum ykkar að trú ykkar sé betri en „efnishyggja“ þeirra. 

 

   Einnig staðhæfðuð þér að enginn mannkynsfræðari hefði drepið á málefni þau er ég spurði yður um. Hafið þér þá gleymt 23. kapítulanum í Mattheusarguðspjalli? Hafið þér aldrei lesið hina frægu bók Rauschenbusch um kristnun mannfélagsins?

 

  Játning yðar um vensl kirkjunnar og peninganna féll mér einkar vel í geð. En ályktunin, sem þér dróguð af þessari hryllilegu staðreynd, virtist mér dálítið þokukennd. Þér trúið á þróun mannsandans. Það geri ég einnig. En ég tel vöxt einnar smádyggðar í mörgum þúsundum ára. Mannsandinn hefir ekki tekið ýkjamiklum stakkaskiptum á síðustu fjórum til fímm árþúsundum. Siðferðilega virðist hann næstum hafa staðið í stað þó að andlegir fræðarar hafi látlaust flakkað land úr landi og prédikað harðsnúinni kynslóð ríki himnanna. Ytra skipulagsleysið, sem tælir mennina til vondra verka, hefir oftast orðið veiðisælla en hið innra guðsríki. Samt trúi ég á guðsríkið innra með manninum. En að rækta það í vondum ytri kringumstæðum, — það er eins og að gróðursetja frækorn á eyðijöklum.

   Hins vegar hefi ég tröllatrú á góðu skipulagi sem tekur syndafreistinguna frá manninum og blæs honum í brjóst dyggðum, vekur guðsríkið innra með honum. Mennirnir skapa að vísu skipulagið. En reynslan hefir einnig sannað oss að skipulagið skapar menn. Gott skipulag skapar góða menn sem aftur gera skipulagið ennþá betra. Þetta er hið eilífa allsherjar lögmál gagnkvæmra verkana milli efnisheims og æðri veraldar.

   Efnalegar kringumstæður skapa skoðanir fjöldans og ráða breytni hans. Og það er skipulagsleysi auðmagnsins sem gerir öllum þorra manna ókleift að miða líf sitt við neitt æðra en mat og peninga. Sá, sem ekki svindlar, lýgur, svíkur, stelur eða skríður, hræsnar, leigir sál sína eða þegir og hilmir yfir, hann verður óhjákvæmilega fótum troðinn [af járnhrammi auðvaldsins. Mörg eru hjálparmeðul þess. En eitthvert áhrifamesta tæki auðvaldsins í þessu göfuga uppeldisverki er kirkjan og klerkarnir]. En ef auðmagnið væri eign almennings í stað þess að vera leikfang nokkurra gróðasjúkra fjárglæframanna, sem hafa tekjur af trúarbrögðum, þá myndi hin nýja trúarhreyfing aldrei verða þræll peninganna. En ef vér frestum skipulagningu auðmagnsins, þar til mannsandinn kaupir liljur fyrir brauð, þá getið þér sannarlega treyst því að „nýja kirkjan“ verður von bráðar ánauðug ambátt brennívíns, stáls, steinolíu, púðurs og manndrápa og klukkur hennar munu hringja blessun sína yfir slátrarana á vígvöllunum eins og klukkur kristinnar kirkju gerðu í nafni heilagrar þrenningar á styrjaldarárunum 1914 til 1918.

   Nokkrir velviljaðir guðspekinemar deyja og koma ef til vill aftur í heiminn með þeim háleita ásetningi að vernda hina nýju kirkju frá jafn ömurlegri tortímingu eins og þér drápuð á í svari yðar. En gætið þess að milli þeirra þroskuðu endurholdgana og í fylgd með þeim kemur margur Billy Sunday og Rockefeller sem betur smakkast sætleiki hins feita mammons á Broadway en megurð heilags anda [í Adyar]. Það mundi tæplega spilla leiðbeiningum andlegra fræðara að þeir einnig vissu ofurlítil skil á „þessum heimi“.

   Annars verð ég að játa að ég vænti ekki mikillar skarpskyggni á andlegt svindl auðvaldsins á næstu œviskeiðum af hálfu þeirra guðspekinema sem í þessu lífi styðja jafnandstyggilegt peningamálgagn með fjárframlögum eða ritsmíðum eins og Bibby's Annual eða önnur þessháttar villutrúarrit.[7] Og meðal slíkra sé ég mér til mikillar skelfingar nöfn yðar þriggja höfuðpostulanna. 

 

   Þér frædduð oss ennfremur á því að mismunur hinna pólitísku hreyfinga væru aðeins nöfn er vér gæfum hreyfingunum. Eftir minni skoðun er þetta gersamlega rangt. Á íhaldsstefnunni og kenningum jafnaðarmanna er undirstöðumismunur, ekki aðeins fræðilegur heldur og verklegur. Íhaldsstefnan kappkostar að halda í það þroskastig sem mannkynið er nú á. Jafnaðarstefnan vill koma þroskanum á hærra stig. Á þessum grundvallarmismun eru öll vinnubrögð þeirra reist. Er þetta ekki kjarnamunur? Er það ekki einmitt baráttan milli tamas annars vegar og sattva og rajas hins vegar sem þér kannist vel við úr heimspeki yðar Indverja?

 

   Þér fullyrtuð einnig að engin ein stjórnmálahreyfing stæði guðspekinni nær en önnur. Ég varð steini lostinn. Álítið þér í raun og veru að auðvaldið með alla sína örbirgð, eymd, úrkynjun, rangsleitni, menntunarleysi, stéttarbaráttu, sjúkdóma, mannvíg og styrjaldir í eftirdragi, álítið þér í raun og sannleika að slíkt líferni sé í jafnmiklu samræmi við guðspekina og jafnaðarstefnan sem boðar mannkyninu efnalegt réttlæti, hamingju, menntun, frið og bræðralag? Kenna þeir svo meistararnir í Tíbet? Segið mér eins og er: vissuð þér ekki, hvað þér voruð að segja eða sögðuð þér okkur vísvitandi ósatt?

   Í einni bók yðar fullyrðið þér að sjálfsmorð sé gagnstætt guðs vilja. Gott og vel. En ég spyr: Er morð á öðrum mönnum í samræmi við vilja guðs? Ef það er ekki þá hljóta styrjaldir að vera gagnstæðar guðs vilja. Ef styrjaldir eru gagnstæðar vilja guðs þá hljóta og orsakir styrjalda að vera á móti vilja guðs. Orsakir styrjalda er auðvaldið. Auðvaldið hlýtur því að vera í andstöðu við guðs vilja. Ef andstæðan friður og bræðralag er samkvœm vilja guðs þá hlýtur jafnaðarstefnan, sem boðar öllum þjóðum þessar dyggðir, að standa nær guðs vilja en auðvaldið. Og ef guðspekin er samhljóma vilja guðs þá hlýtur jafnaðarstefnan að vera nær guðspekinni en auðvaldið. — En ef guðspekin er ósamhljóma vilja guðs, — hvers vegna eruð þér og samherjar yðar þá að afvegaleiða hinar villuráfandi þjóðir með „guðspeki“? Og ef morð á öðrum mönnum er samkvæmt guðs vilja leggið þá blessun yðar yfir styrjaldir og eiturgas og mokið öllum siðferðispostulum út í hafið. Þá er ekkert svo illt að það eigi ekki rétt á að dafna óhindrað í „plani guðs“. Og þá er allt jafngott, jafnrétt, jafnguðlegt. Eru þetta ekki rökréttar ályktanir?

 

   Þér sögðuð oss að guð þyrfti á öllum stjórnmálahreyfingum að halda til þess að fullkomna „plan“ sitt.[8] Ágætt. Ég staðhæfi þá með sama rétti að verk ræningja, þjófa, morðingja og hermanna eigi jafnmikinn rétt á sér í „plani guðs“ eins og siðferðiskenningar yðar og trúarboðskapur Krishnamurtis. En ef þessu er þann veg farið þá er öll breytni vor og viðleitni siðlaus hringavitleysa. Frá mínu hagnýta sjónarmiði er slík heimspeki fremur verð þess að hugsa hana en segja.

 

   Svör yðar við spurningunum um uppeldismálin á Vesturlöndum og alþjóðatunguna eru sannkölluð eymdarheimspeki þótt ekki geti þau talist til heimspekinnar um eymdina.

   Það er rangt að allar kennsluaðferðir Vesturlanda fari með barnið eins og sálarlausa veru, að kennsluaðferð Montessoris einni undanskilinni.[9] Á síðustu árum hefir vaknað voldug allsherjar uppeldishreyfing á Vesturlöndum. Hún er reist á einstaklingsskapgerð barnanna. Hún lítur á barnið eins og andlega veru með sérstöku eðli og hæfileikum er verði að þroskast eftir sínum eigin lögum. Greinir á þessari allsherjarhreyfingu eru til dæmis Dalton-skólarnir, Decroley-skólarnir og ýmsar fræðslutilraunir sem verið er að gera í Rússlandi o.s.frv. (Sbr. meðal annars Bertrand Russell: On Education er einkum fjallar um Dalton-skólana).

 

   Svar yðar við spurningu minni um alþjóðamálið virtist mér eiga við litla rannsókn á staðreyndum að styðjast og jafnvel vera ofurlítið enskulegt eins og styrjaldarhugsjónir frú Besants.[10] Oss esperantistum, sem höfum varið miklum tíma í að gera oss grein fyrir þessu vandamáli, leiðist að heyra prófessora og andlega postula tala af jafnátakanlegri fáfræði um lausn þessa viðfangsefnis eins og þér gerðuð yður sekan í á laugardagskvöldið. Kjarninn í úrlausn alþjóðamálsins er i stuttu máli á þessa leið.

   Í fyrsta lagi: Sérhvert stórveldi hefir jafnan staðið móti því, stendur móti því og mun ávallt rísa gegn því að tungumál annarrar stórþjóðar sé gert að hjálparmáli gervalls mannkynsins. Englendingar heimta ensku að alþjóðamáli, Þjóðverjar heimta þýsku, Frakkar frönsku, Spánverjar spönsku o. s. frv. af því að þeirri þjóð, sem á hjálparmálið, er rudd leið til þess að ríkja yfir efnalegu og andlegu lífi allra annarra þjóða. Engin þjóðtunga getur þess vegna orðið hjálparmál alþjóða enda myndi slíkt glapræði fyrirgirða það jafnrétti og bræðralag sem verður að vera undirstaða alþjóðamálsins. Alþjóðlegt hjálparmál verður þess vegna að vera þjóðlaust.

   Í öðru lagi: Alþjóðlegt hjálparmál verður að vera auðvelt lærdóms. Þjóðmálin eru mjög erfið öllum þorra mannkynsins. Hverjum manni, hvar í heiminum sem er, er margfalt auðveldara að læra tilbúið mál eins og Esperantó heldur en útlent þjóðmál. Eg hefi til dæmis lesið enska tungu í nítján ár. Samt kann ég ekki að skrifa ensku og ég tala hana illa, þótt ég hafi lagt stund á málvísindi í sjö ár. Esperanto hefí ég aðeins lesið í tvö ár. Og nú get ég talað Esperanto og ritað dável. Þetta er mikill munur. Esperanto er þess vegna miklu hagkvæmara tungumál en þjóðtungurnar. Og samkvæmt hagkvæmislögmálinu, sem hvervetna ríkir í lífinu þá sigrar það, sem er hagkvæmara, undantekningarlaust hitt sem er minna hagkvæmt.

   Í þriðja lagi: Alþjóðamálið verður að koma öllu mannkyni að tilætluðu gagni. Það er að skilja: Sérhver óvitlaus maður verður að geta lesið það, ritað það og talað eins vel og sitt eigið móðurmál. Að öðrum kosti nær alþjóðamálið ekki tilgangi sínum. En nú er það alkunn staðreynd að venjulegur maður getur aldrei lært að rita eða tala útlenda þjóðtungu vel nema hann dveljist langvistum, mörg ár, með þjóð þeirri sem viðkomandi tungu talar. Nokkur þúsund Íslendinga hafa varið miklum tíma í að læra enska tungu. [Meðal þeirra eru nokkrir sérfræðingar sem hafa lesið ensku fimm til sex ár við háskólann í Kaupmannahöfn og síðan dvalist nokkra mánuði í Englandi.] Þó efast ég um að nokkur einn einasti Íslendingur sé fær um að skrifa ensku lýtalaust. Og mjög fáir úr þessum hóp eru færir um að tala hana reglulega vel. — Íslendingum veitist miklu auðveldara að læra danska tungu en enska. Og fjöldi landsmanna skilur dönsku á bók. Þrátt fyrir það dreg ég mjög í efa að meðal dönsku lesandi manna hér á landi finnist einir 10 sem kunna að rita danska tungu lýtalaust. Og mjög fáir tala hana vel. Og þetta er þó sú erlenda þjóðtungan sem vér eigum einna hægast með að læra og byrjum oftast að lesa þegar á bernskualdri. Og meira en helmingur þeirra bókmennta, sem vér lesum, er ritaður á dönsku. Þannig er auðveldleiki mæltra mála. Esperanto gætum vér hins vegar lært að rita og tala fullum fetum, af aðdáanlegri list, þótt vér sætum alla ævi vora upp í tunglinu.

   Í fjórða lagi: Alþjóðamálið verður að vera fullkomið. Þjóðtungurnar eða náttúrumálin svo nefndu eru ófullkomið sambland af blindum hendingum og ósamstæðum hugsanabrotum. Esperanto er margfalt fullkomnara, miklu auðugra, miklu skýrara, miklu hreinna, miklu beygjanlegra og meðfærilegra og miklu samræmisfyllra en nokkurt náttúrumál. Esperanto er hljómfagurt, vísindalegt og listrænt meistaraverk sem getur endurspeglað með leikandi lipurð fíngerðustu blæbrigði, jafnvel andlegustu hugsana og háleitustu tilfinninga heila og hjarta. Esperanto hefir tekið fegurð, list og vísindi mæltra mála í þjónustu sína og aukið þessa kosti og auðgað eftir sínum eigin lögum. En það hefir kastað burt torfærum mæltu málanna, lýtum þeirra, klunnaskap og heimsku. Max Müller kvað svo að orði að hann þekkti enga námsgrein sem væri betur fallin til að þroska hugsun nemenda en Esperanto. Það bæri í þeim efnum stórum af latínunni. Þennan vitnisburð hafa margir merkir vísindamenn og rithöfundar gefið Esperanto. Esperanto er listasmíði afburða sénís. Náttúrumálin eru afspringur hinnar hálfvilltu, reglulausu náttúru. Lítið á steinlíkneski frumaldarmannanna úti fyrir dyrum British Museum við hliðina á Móses eftir Michelangelo. Þar sjáið þér náttúrumálin í samanburði við Esperanto.

   Þetta eru meginatriðin um hin praktísku úrlausnarefni alþjóðlegs hjálparmáls sem þér virðist ekki hafa gert yður nægilega skýra grein fyrir.

  En Esperanto á sér fleira til ágætis. Í kjölfar Esperantos siglir esperantisminn. Það er ný, andleg hreyfing sem er að opna mannkyninu ókunn útsýni yfir margvísleg viðfangsefni. Esperantisminn er ennfremur öflug hreyfing friðar og bræðralags sem kappkostar að sætta og tengja saman hinar herskáu þjóðir. Gömul þjóðtunga gæti aldrei orðíð mannkyninu vekjandi innblástur.

   Eg álít að Esperantó sé fegurra, auðveldara og hagkvæmara en ido. En það er ekki aðalatriði. Það er aðeins smekksatriði. Hitt er aðalatriðið, að allar þjóðir og allir menn hagnýti sér það alþjóðamálið sem náð hefir langmestri hylli og útbreiðslu í heiminum. En það er ekki ido. Það er Esperanto. Esperanto kom ekki of seint í heiminn eins og þér sögðuð. Esperanto er þegar lifandi mál lifandi manna. Og það útbreiðist hröðum skrefum.

   Af þessum ástæðum var ég svo einfaldur að gera mér vonir um að forkólfar guðspekinnar teldu sér skylt að styðja esperantóhreyfinguna. En svar yðar hefir nú svipt skýlunni frá augum mér. Og ég sé að jafnvel þessi umbótaviðleitni er ekki nógu meiningarlaus til þess að geta átt samleið með hugsjónum yðar.

   Sumarið 1921 sótti ég alþjóðaþing guðspekinga í París. [Ég vonaðist eftir að finna þar samúð, jafnrétti og nytsama heimspeki. En ég varð fyrir hræðilegum vonbrigðum. Ég fann aðeins hluttekningarleysi, misrétti, tungumálatálmanir og andlegt dinglumdangl.] Guðspekingar hrifu mig ekki, því miður. Sumarið 1926 sat ég alþjóðaþing esperantista í Edinborg. Hvílíkur reginmunur! [Ég vonaðist aðeins eftir að skilja menn. Sú von brást mér ekki. En þar að auki lifði ég þar marga dásamlega atburði, hátíðleik, samúð, jafnrétti, bræðraþel og eldmóð.] Allir skildu alla. Esperantistar heilluðu mig.

 

   Þessar hugleiðingar mínar dreg ég að lokum saman í 12 höfuðályktanir yður til yfirlits.

   1. Ytri aðstæður drottna yfir hugsunum og breytni allra venjulegra manna.

   2. Venjulegum mönnum er ókleift að öðlast innri hamingju og andlegan þroska ef þá skortir sæmileg ytri skilyrði.

   3. Vondar kringumstæður úrkynja andlegt líf.

   4. Góðar kringumstæður göfga og þroska andlegt líf.

   5. Þess vegna ber oss að útrýma hinni ytri eymd og bæta kringumstæðurnar eftir fremstu föngum.

   6. Kringumstæðurnar verða aldrei bættar og eymdinni aldrei útrýmt að neinu verulegu ráði í auðvaldsþjóðskipulagi. Til þess þarf róttækar umbætur á þjóðfélagsskipuninni.

   7. Til er aðeins ein stjórnmálastefna, sem bendir á róttækar þjóðfélagsumbætur. Það er jafnaðarstefnan.

   8. Þess vegna ber sérhverjum einlægum mannvini að styðja jafnaðarstefnuna í orði og verki.

   9. Jafnaðarstefnan er skyldari guðspekihreyfingunni en allar aðrar stjórnmálaskoðanir.

  10. Jafnaðarstefnan stendur nær guðsvilja en allar aðrar stjórnmálahreyfingar, eða að guð er siðferðislaus eða afskiptalaus af málefnum mannkynsins eða að enginn guð er til.

   11. Á Vesturlöndum eru uppi fleiri fræðsluaðferðir en Montessori-aðferðin sem líta á barnið eins og andlega veru.

   12. Aðeins „tilbúið“ mál getur orðið hjálparmál alþjóða.

 

   Eg enda þetta bréf mitt [til yðar] á tveimur viturlegum spakmælum [sem eru eins konar allsherjar yfirlit yfir þessar skoðanir mínar. Hinn vitri Aristoteles kenndi]: „Manninum er fyrst og fremst nauðsynlegt að hafa viðurværi og síðan að iðka dyggðir“.

   [Og annar vitur maður gaf andlegum fræðurum þessa vísbendingu]: „Að tala um listir og trúarbrögð á meðan núverandi þjóðfélagsskipulag ríkir, — það er eins og þegar Nero lék á fiðlu á meðan Rómaborg var að brenna.“

   Línur þessar hefi ég ritað yður í því skyni að gera yður skýrari grein fyrir ástæðunum að hinum sjö spurningum mínum sem ég hefi ef til vill þreytt yður með á laugardagskvöldið. Einnig lék mér hugur á að láta yður vita hvernig mér geðjaðist að svörum yðar.

   Eg þakka yður innilega fyrirhöfn yðar og hina uppörvandi fyrirlestra. Eg vona að þér fyrirgefið mér hreinskilni mína. Með guðspekilegri kveðju yðar einlægur

 

                                   Þórbergur Þórðarson

 

 

[1] Sjá Bréf til Jafnaðamanns.

* Jinarajadasa benti á hann sem fagran ávöxt eymdarinnar.

[2] Hér á Þórbergur vafalaust við Sigurð Kristófer Pétursson.

[3] Jinarajadsa játaði að kirkjan væri þræll peningavaldsins, bæði í Austurálfu og Vesturlöndum. Þessari játningu sinni til stuðnings nefndi hann það sem dæmi, að enska kirkjan hefði alltaf staðið á móti aðflutningsbanni á áfengi, af því að auðmennirnir, sem mest gyldu til kirkjunnar, ættu víðáttumiklar vínekrur. Og hann viðurkenndi að í Indlandi væri kirkjan einnig í klóm vínekrueigenda og annarra slíkra.

[4] Þetta er einkunnarorð guðspekinnar.

[5] Þér þurfið ekki að leita lengra en í yðar eigin heimspeki til þess að ganga úr skugga um að menn og málefni geta verið tvennt ólíkt. Guðspekin kennir með fullum rétti sjálfsstjórn og þolinmæði þó að stofnandi hennar hefði nokkuð litla stjórn á skapsmunum sínum og margir reiðigjarnir menn séu í guðspekifélaginu.

[6] Líkingunni um liljurnar og brauðin brá Jinarajadsa upp fyrir félagsmönnum sem fyrirmynd að sannri jafnaðarstefnu.

[7] Bybby´s Annual er ársrit með myndum sem enskur auðmaður gefur út. Það hártogar ritningarstaði og teygir kenningar guðspekinnar eins og blauta húð gegn jafnaðarstefnunni.

[8] Annie Besant hefir reyndar sagt oss að guð þurfi ekki á kapítalisma Þjóðverja að halda til þess að fullkomna sköpunarverk sitt. Á styrjaldarárunum ritar hún grein í anda blindustu þjóðhrokabelgja, sem birtist meðal annars í Bybby´s Annual, um tilgang landa sinna með styrjöldinni. Hana klígjar ekki við að ljúga því upp í blóðuga ásýnd heimsins að Englendingar berjist fyrir friði, jafnrétti og bræðralagi  þjóðanna. Þjóðverjar, segir hún, að heyi styrjöldina af gagnstæðum hvötum. Og hún kórónar dómgreindarleysi sitt með því að skora á öll siðferðis- og vitsmunaöfl mannkynsins að standa Englendinga megin í styrjaldaræðinu. Í það sinn máttu guðspekingar taka afstöðu til stórpólitíkur auðvaldsins. En ég hefi ekki ennþá heyrt þess getið, að jafnréttis- og bræðralagshugsjónir enska auðvaldsins hafi svipt yður Indverjana og verksmiðjuþrælana í Kína þeim náðarmeðulum andlegrar- og efnalegrar eymdar sem það hefir hellt ofan í yður með þjófnaði, kúgun og ránum. Og hervaldsæði Breta síðustu árin og hinar bjánalegu ofsóknir þeirra í garð rússneska jafnaðarmannaríkisins sýna deginum ljósar, að Annie Besant var lélegri spámaður í stríðsvitfirringunni en postular, sem venjulega eru taldir að vera af þessum heimi, svo sem MacDonald, Eugen Debs og Jean Jaurès. Guð og menn vita að engin styrjaldarþjóðanna barðist fyrir neinu háleitara en auði og völdum.

[9] Þessi spurning kom frá kennara einum í guðspekifélaginu.

[10] Jinarajadasa hélt fram ensku sem alþjóðlegu hjálparmáli. En jafnframt lagði hann fundarmönnum það heilræði að þeir skyldu halla séra að hveri þeirri alþjóðatungu er þeim hentaði best.