(Iðunn, 4. tölublað, 01.10. 1928, bls. 370–392)

[Einn af ritstjórum Nova Epoko ritaði mér nokkrar línur um trúarbrögð og stjórnmál, eftir að hann hafði fengið handrit mitt að „Heimspeki eymdarinnar”. Þessari orðsendingu ritstjórans svaraði ég á Esperanto með bréfi því er hér fer á eftir í íslenskri þýðingu.]

 

I.

 

   Ég finn þörf á að ræða við yður ofurlítið nánar þau atriði í „Heimspeki eymdarinnar“ er þér drepið á í bréfi yðar til mín.

   Þér gerið ráð fyrir að Íslendingar séu ennþá mjög trúhneigðir úr því að ég tengi saman trúarbrögð og jafnaðarstefnu í ritgerð minni. Þér virðist telja trúna á annað líf svo fjarstæð hindurvitni að það sé helber barnaskapur að drepa á slík efni þegar rætt er um velferðarmál mannkynsins. Og þér virðist jafnvel færa þessa yfirsjón mína til betri vegar með því að gera ráð fyrir að ég mæli fyrir munn sérstaklega trúaðrar þjóðar.

   Ágiskun yðar um trúhneigð Íslendinga á engan stuðning í trúarbragðasögu vorri. Bréf mitt til herra Jinarajadasa ber auðvitað að skilja frá almennara og einnig sérstakara sjónarmiði. 

   Íslendingar hafa ávallt verið og eru enn þann dag í dag skemmtilega tómlátir í trúarefnum, furðu lausir við kirkjukreddur og afskiptalitlir af kristniboði og öðru þess háttar ástríðurugli. Þeir eru yfirleitt skynsemistrúar.

   En hér á landi eru margir gæddir dulspekilegri íhugunarhneigð og dulrænni tilfinningu fyrir ósýnilegum öflum. Þessir hæfileikar landa minna eru þó oftast lausir við ákveðnar trúarhugmyndir eða rígskorðaðar kennikreddur. Þeir lýsa sér nánast í íhugandi forvitni, blandinni dulrænum blæ og lyft af undiröldu ástríðulausra tilfinninga.

   Víðast hvar á Vesturlöndum var allur almenningur svo töfraður af brjálsemiskenndri trú á kenningar kirkjunnar, svo heillaður af þrællundaðri lotningu fyrir fölsuðu beinarusli og fígúruverki heilagra dýrlinga, að henni tókst að stöðva þekkingar- og siðferðisframrás svo nefndra kristinna þjóða í nærfelt tólf aldir. Þetta skriðdýrseðli heimskunnar blés að vísu ólyfjan sinni hingað norður til vor. En hér heppnaðist peningaskækju páfavaldsins þó aldrei að ná slíkum dauðatökum á ræfilshætti lýðsins sem í hinum suðrænni löndum. Á Íslandi gat kirkjan miklu fremur talist umburðarlynd og aflvana.

   Þetta á þó ekki að sýna neina yfirburði í fari Íslendinga. Ég skýri hér aðeins frá sannsögulegri staðreynd sem var afleiðing ótrúhneigðrar lyndiseinkunnar, uppeldis, gáfnafars, lífskjara og trausts á mátt sinn og megin (sem oft var í ætt við sjálfbirgingsskap og hroka), en það var arfur frá hugsunarhætti heiðingjanna (sbr. „Sjálfur leið þú sjálfan þig“). Þessi lyndiseinkenni báru þá blessun í skauti sínu, þrátt fyrir margt misjafnt, að Íslendingar mátu að öllum jafnaði meira sitt eigið hyggjuvit en óskeikulleika katólskra fáfræðinga á páfastóli. Og það var þess vegna að kirkjunni lánaðist aldrei að gera þjóð mína að krjúpandi þrælum.

   Fornbókmentir vorar bera fagurt vitni um hið trúarlega frelsi og hlutleysi Íslendinga fyrr á öldum. Þessi meistaraverk norrænnar fornmenningar eru rituð af kristnum leikmönnum, klerkum og munkum um heiðna menn, heiðna siði og heiðna atburði. Samt er frásögn þeirra svo hlutlaus, svo hátt hafin yfir trúarlega hleypidóma, að hún gefur lesandanum mjög sjaldan hugboð um hvort hinir ódauðlegu höfundar hafa heitið á heiðinn Þór í bænum sínum eða fallið fram fyrir Hvíta-Kristi þeirra Gyðinganna.

   Kristnitakan hér á landi er og að ýmsu leyti einkar góð lýsing á trúarskapgerð Forn-íslendinga. Þessi nýi siður, er kollvarpaði aldagamalli heimsskoðun, átrúnaði, guðsdýrkun og menningu, var leiddur í lög á alþingi Íslendinga árið 1000 með hávaðalitlu samkomulagi milli heiðinna manna og kristinna. Báðir flokkar, hinn heiðni og kristni (er var margfalt mannfærri), komu sér saman um að hlíta úrskurði heiðins prests er þeir völdu til þess að kveða á um það hvort heiðinn siður ætti að ríkja framvegis hér á landi eða kristin trú skyldi í lög leidd. Eftir nokkra umhugsun kvaddi presturinn sér hljóðs og mælti fyrir þingheimi á þessa leið: Ef vér höfum tvo siði sundra þeir þjóðinni í tvo andstæða flokka og vér glötum reglu og friði í landinu. Til þess að halda reglunni og varðveita friðinn skulu allir landsmenn hafa ein lög og eina trú. Og af því að þessi heiðni bragðarefur hefir sennilega rennt grun í að kristindómurinn var tískuuppáfyndning, er með tíð og tíma hlyti að yfirskyggja hina hálfdauðu, heiðnu lífsskoðun, þá lýsti hann yfir því fyrir þingheimi að allir Íslendingar skyldu taka kristna trú. En nú sá klerkurinn að þessi yfirlýsing var furðu djörf í garð heiðingjanna. Þeir höfðu einmitt valið hann til þess að standa fyrir málstað sínum af því að hann var heiðinn og í því skyni að kristinn siður yrði ekki að lögum hér í landi. En hann fann ráð til þess að dempa óánægju þeirra og stakk upp á trúarlegri málamiðlun milli beggja flokka. Þessi málamiðlun var í því falin að heiðnum mönnum skyldi leyft að iðka ýmsa heiðna siði, einkum hinar og þessar venjur sem voru hagkvæmar fyrir efnalega afkomu almennings en rýrðu þó í engu hagsmuni kristinna manna. Að þessum fyrirmælum gengu báðir aðiljar. Þannig var kristin trú lögleidd að nafninu til hér á landi.

Sennilega hafa mútur nokkurra kristinna höfðingja haft einhver áhrif á úrskurð hins heiðna prests. En úrslit siðaskiptanna á alþingi árið 1000 sýna þó eigi að síður að Forn-íslendingar báru meiri lotningu fyrir hagkvæmum málalyktum en kirkjulegum kennikreddum. Kristnitakan var eins konar verslunarsamningur milli heiðinna manna og kristinna.

Hugarfar Íslendinga til trúarefna nú á tímum er mjög svipað og í fornöld. Í nágrannalöndunum fer trúboðspestin eins og hundaæði yfir byggðir og borgir. En á Íslandi hefir hún aldrei getað smitað almenning, jafnvel þó að endurfæddir trúboðar hafi kappkostað að beygja lýðinn undir sætleik krossins með kvölum fordæmdra og sælu útvaldra sem hafa skrúbbað af sér óþverrann í blóði lambsins. Kristindómurinn hér á landi er flestum orðið fjarlægt ævintýri. Hyggnu mennirnir reyna að brúka hann til þess að auka tekjur sínar. Ráðvandir borgarar hanga við hann af því að þeir halda að það tilheyri góðum siðum. Auk þessara finnast nokkrir saklausir sem halda sér við barnatrú sína eins og þeir eru vanir að orða það.

   Prestarnir eru að mestu leyti „gamlar venjur“ sem ríkið viðheldur á kostnað heilbrigðrar skynsemi af því að það hefir verið tíska í níu aldir. Fáir taka mark á kenningum þeirra. Kirkjurnar sækir nálega eingöngu ómenntaðasti lýðurinn og unglingar sem þjást af löngun í ástarævintýri. Margir íslenskir prestar hafa enga trúarsannfæringu og trúaráhugi er nærri óþekkt fyrirbrigði innan þeirrar stéttar. Prestsskapurinn er fyrir þeim flestum veraldlegur atvinnuvegur, að sínu leyti eins og vínsmyglun og húsabrask. Þeir eru víðast hvar handhægt verkfæri ríkjandi hugsunarháttar. Þeir hafa oftast sömu lífsskoðanir og efnamennirnir í söfnuðunum sem þeir hafa ofan af fyrir sér með að þjóna. Einstaka prestar taka þó stöðu sína hátíðlega, einkum trúhneigðir einfeldningar sem hafa fundið sál sinni frið í sænskri „nýkirkjuhreyfingu“ eða dönsku heimatrúboði, eða iktsjúk gamalmenni sem eru orðin ófær til að þjóna girndum þessa heims sakir elli.

   Í fari Íslendinga gætir meira rannsakandi skynsemi og íhugunarhneigðar heldur en tilfinninga og tilbeiðslu. Þess vegna hneigjast margir landar mínir að ýmsum sálrænum og heimspekilegum hreyfingum vorra tíma, svo sem spíritisma, guðspeki og indverskri heimspeki. Í þessum kennikerfum þykjast þeir finna skynsamlega úrlausn á margvíslegum íhugunarefnum. Heimspeki gömlu guðfræðinnar, sem skipti tilverunni í tvö vitlausrahæli, annars vegar eilíft helvíti með hornóttum djöflum og æpandi afbrotamönnum í brennisteinspyttum eilífrar útskúfunar og hins vegar ævarandi himnaríki með refsigjörnum drottni og flaðrandi smásyndurum frammi fyrir gulltróni hátignarinnar, — á slíka guðfræði lítur óbrjálaður Íslendingur sem niðurbælda kvensemi katólskra kirkjufeðra. Nýja guðfræðin er hins vegar of lík nýguðfræðingunum, sem vér höfum daglega fyrir augum og eyrum, til þess að hún megni að svala skilningsþorsta vorum.

   Fæstir fylgjendur nýju stefnanna eru þó sannfærðir um að þær greiði í raun og veru úr þeim ráðgátum tilverunnar sem þeir hafa verið að glíma við. Fyrir þorra manna eru þær ekkert meira en greindarlegustu skýringarlíkurnar sem þeir hafa hingað til átt völ á.

   Þetta er sannleikurinn um trúarbragðaástandið á Íslandi.

   Þér segið að í yðar löndum skiljist jafnaðarstefnan æ meir frá trúarbrögðunum. Ég verð að játa að mér er ekki vel ljóst við hvað þér eigið með þessari yfirlýsingu. Mér hefir altaf skilist, að meginstoðir íhaldsins og höfuðóvinir jafnaðarstefnunnar séu í öllum löndum trúar- og kirkjuvöldin. Eftir mínum skilningi er þó hvarvetna ennþá náið samband milli trúarbragða og jafnaðarstefnu. Og ég fæ ekki botnað í að vér jafnaðarmenn getum fremur gengið þegjandi fram hjá þessum andstæðingi heldur en öðrum íhaldsóvættum sem forlögin hafa áskapað oss að eiga í höggi við. 

Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir að skyldleikinn milli trúarbragða og jafnaðarstefnu hér á landi sé neitt nánari né öðruvísi háttað en í öðrum löndum. Hér er hann í því fólginn að auðvaldið, kirkjuvöldin og ýmsir þröngsýnir trúarsnatar í öreigastéttinni reyna að beita trúnni á guð og annað líf sem vopni gegn rökum jafnaðarstefnunnar. Þessi viðleitni ber töluverðan árangur. Þó að Íslendingar séu ótrúhneigðir að eðlisfari eru þeir fæstir lausir við áhrif trúarbragðafræðslunnar. Með flestum þeirra leynist snertur af virðingu fyrir trú og kirkjusiðum. Einkum situr þessi ófögnuður fastur í óupplýstasta öreigalýðnum, en þar á jafnaðarstefnan enn sem komið er fyrst og fremst fylgi sínu að fagna hér á landi.

   Þennan veikleika þekkir auðvaldið og það kappkostar vitanlega að færa sér hann í nyt í úrkynjunarbaráttu sinni gegn umbótum jafnaðarstefnunnar. Höfuðvopn þess er kirkjan og prestarnir. Flestir prestar vorir styðja íhaldshugmyndirnar og þjóna þeim sem auðinn hafa. Í þeim anda kenna þeir sauðunum, sumir beint, aðrir óbeint. Og þó að sauðirnir séu ótrúhneigðir og uppbelgdir af „sjálfstæðum skoðunum“ utan klerks og kirkju eru þeir of þýlyndir og lítilsigldir til þess að standa á móti áhrifum hirðanna þegar þeir koma í námunda við hempuna og helgislepjuna. Þessi áhrif geta haft vald yfir þeim alla leið að kosningaborðinu. Annað samband er hér ekki milli trúarbragða og jafnaðarstefnu.

   Ég veit ekki betur en þessu sambandi sé líkt farið í öðrum löndum. Þó grunar mig að trúhneigðin sé þar víðast hvar taumlausari, lotningin fyrir kirkju og kennilýð þrællundaðri, áhrif þeirra á almenninginn öflugri, trú og jafnaðarstefna að sama skapi nátengdari. Hin hvatskeytlega barátta yðar gegn trú og kirkju sýnir einmitt að þessi grunur minn er ekki gripinn úr lausu lofti. Frá yðar sjónarmiði eru trúarbrögðin og kirkjan áhrifamikill óvinur jafnaðarstefnunnar. Þér kallið þau ópíum er svæfi byltingaranda öreiganna. Og þess vegna kappkostið þér að uppræta þau. Er það þá furða þó að ég minnist á trúarbrögð í sambandi við jafnaðarstefnuna í ritgerð minni?

   „Heimspeki eymdarinnar“ lýtur ekki einvörðungu að skyldleika þjóðfélagsmála og trúarbragða á Íslandi. Hún er þvert á móti miðuð við ástand sem ríkir meðal allra þjóða, engu síður í yðar löndum en á ættjörð minni. „Heimspeki eymdarinnar” fól í sér þrjú meginatriði. Og þau eru þessi:

   Hún var svar til allra trúarbragðafræðara sem beinlínis eða óbeinlínis beita trúarbrögðunum gegn mannúðarkröfum jafnaðarstefnunnar.

   Hún var óbein viðvörun til hinnar hungruðu hjarðar allra landa sem lætur troða sig fulla með upplognu háspekisnakki.

   En einkum var ritgerð mín beint svar til trúaðs kennimanns sem svaraði þjóðfélagsspurningum mínum á hreinum trúargrundvelli. Þess vegna gagnrýndi ég svör hans auðvitað á sama vettvangi. Ég sýndi honum fram á ósamræmið milli heimspeki þeirrar, sem hann boðar, og þeirra hugmynda hans um þjóðfélagsmál er fram komu í svörum hans við spurningum mínum. Á hvaða grundvelli öðrum hefði ég átt að tala við slíkan mann um þessi efni?

   Þannig ber að skilja bréf mitt til herra Jinarajadasa.

 

II.


   Um „ópíum handa fólkinu“ hefi ég ýmislegt hugsað síðan ég gerðist jafnaðarmaður. Og ég skal játa að niðurstöður mínar um þetta efni gáfu ýmsum atriðum í „Heimspeki eymdarinnar“ dálítinn blæ sem manni með yðar lífsskoðun hefir ef til vill komið annarlega fyrir sjónir. Afstöðu mína til þessa vandamáls vil ég gjarnan skýra fyrir yður í þessu skrifi.

   Þér segið að jafnaðarmenn í yðar löndum álíti trúarbrögðin „ópíum handa fólkinu“. Þessi staðhæfing Karls Marx er mér gamalkunn, og mér skilst, að í hennar nafni kappkostið þér að uppræta trú öreigastéttanna á guð og annað líf. Á Íslandi hafa ýmsir jafnaðarmenn nokkra tilhneigingu til að setja trúarbrögðin undir sama mæliker og Karl Marx þótt jafnaðarmannahreyfingin vinni ekki gegn þeim opinberlega. En meðal þeirra jafnaðarmanna, sem eru í hjarta sínu gegn trú og kirkju, eru nokkrir er hafa gerst opinberir andstæðingar allra trúarbragða. Um þetta atriði mun því vera mjög líkt ástatt hér og í yðar löndum.

   Frá mínu sjónarmiði er þetta viðfangsefni ekki eins auðvelt og þið, andstæðingar trúarbragðanna, virðist ætla. Fyrst og fremst tel ég þá staðhæfingu Karls Marx og yðar ekki á rökum reista, að það séu trúarbröðgðin sem séu „ópíum handa fólkinu“. Ég lít svo á að það sé trúarbragðafræðslan sem vinnur þetta háleita hlutverk. En þó ekki einungis trúarbragðafræðslan. Öllum menningartækjum vorra tíma er beitt á þá leið að þau eru svæfandi „ópíum handa fólkinu“ og nálega allir fræðarar og menningarfrömuðir svonefndir eru vesælir varðhundar auðvaldsins. Vísindi, listir, blöð, bækur, skólar, kvikmyndahús, leikhallir, símar, víðvarp, járnbrautir, skip og vélar, —  allt eru þetta auðmjúkir þjónar kapitalismans. Það vitið þér eins vel og ég. Þrátt fyrir það heimtið þér ekki að útskúfa þeim úr menningunni. Þér kappkostið einungis að breyta starfsaðferðum þeirra, sveigja beitingu þeirra að kenningum jafnaðarstefnunnar.

   Hvers vegna eigum vér þá að uppræta trúarbrögðin ein sem misbeitt er til þess að vinna aðeins sama hlutverkið og veraldlegu menningaröflin láta sér sæma að leysa af hendi?

   Ég veit ekki hverju þér svarið. En ég gæti búist við að þér mynduð segja: Veraldlegu menningartækin eru reist á vísindalegri undirstöðu, eru ávöxtur af hugsunarþroska og reynslu mannkynsins. Trúarbrögðin eru aftur á móti grundvölluð á vanþekkingu og hindurvitnum, eru leifar af andlegu myrkri sem villimenn frumskóganna reikuðu í fyrir þúsundum eða milljónum ára. Í þessum anda býst ég við að þér svarið.

   Mig grunar að okkur komi ekki saman um grundvöll trúarbragðanna. Hins vegar vona ég að okkur greini varla á um það að trúarbrögðin séu geysivoldugur máttur. Peningar og trúarbrögð eru óefað þær orkulindirnar sem voldugustum tökum hafa náð á hjörtum mannanna. Og ég hefi oft tilhneigingu til að gera mér vonir um að hin svonefnda trúarorka geti orðið hugsjónum vorum að drjúgu liði ef oss heppnaðist að gera þjóna kirkjunnar hlynnta þeim mannúðarmálefnum sem vér berjumst fyrir. Er það ókleift?

   Ég geri ennfremur ráð fyrir að við verðum sammála um það að trúartilfinningin eigi sér svo djúpar rætur í meðvitund fjöldans að hún geti næstum talist eiginleiki mannshjartans. Hún virðist vera jafngömul mannkyninu. Og þrátt fyrir rannsóknir, vísindi og menntun lifir hún enn þann dag í dag eins blómlegu lífí og fyrir þúsundum ára þó að ytra form hennar hafi tekið einhverjum stakkaskiptum. Þér eruð samt svo bjartsýnir að gera yður vonir um að yður takist að uppræta trúarhneigðina. Ég efast um að sú von yðar rætist. Á vissum tímum, á vissum stöðum og í vissum kringumstæðum geta menn ef til vill lifað eða látist lifa án trúar á guði og annað líf. En þegar minnst varir veltur trúarofsinn aftur yfir þjóðirnar og lýðurinn ærist. Þannig hefir mannkynið um aldaraðir runnið frá einum öfgunum til annarra. Og ég óttast að hyggindi komandi kynslóða taki ekki stórum fram vitsmunum forfeðranna.

   Hvernig getur þetta átt sér stað ef meginkenningum trúarbragðanna er tildrað upp í lausu lofti? Getur mannkynið reist um allan aldur sáluhjálp sína á hindurvitnum og tilbeðið vind? Flytja vísindin oss ekki fyrr eða síðar skýlausar sannanir er svipta hulu trúarinnar frá hugskotssjónum kynslóðanna og leggja trúarbrögð öll og musteri í rústir? Hér er fólgin þungamiðja þessarar dularfullu ráðgátu. Kjarni hennar er í stuttu máli þessi: Heldur maðurinn áfram að lifa sjálfstæðu vitsmunalífi eftir líkamsdauðann? Trúarbrögðin hafa svarað þessari spurningu játandi, á þeirri játningu eru þau grundvölluð og með þeirri undirstöðu standa þau og falla.

  Kenning trúarbragðanna um ódauðleik sálarinnar er reist á umsögnum hinna svonefndu trúarbragðahöfunda og fullyrðingum hinna og þessara minni háttar spámanna. Slíkar staðhæfingar, boðaðar án minnstu raka, fullnægja vitanlega ekki upplýstum nútíðarmanni. Hann spyr um rök. Hann heimtar sannanir. En er þá til nokkur meira eða minna almenn reynsluþekking er styðji staðhæfingu trúarbragðanna?

   Að mínum dómi er sú þekking þegar að nokkru leyti fengin. Svo miklar líkur höfum vér að minnsta kosti handa millum að fullyrðingar efnishyggjunnar um sálina og ódauðleikann verka nánast á mig eins og gamansaga frá miðbiki síðustu aldar.

   Öll æskuár mín lifði ég í algerðu trúleysi. Ég trúði ekki á líf eftir dauðann, ekki á engla og ekki á neina guði. Reyndar neitaði ég aldrei tilveru slíkra gersema. En hún kom mér ekkert við. Ég þráði ekki líf eftir likamsdauðann og englar og guðir skiptu mig ekki meira máli en hundar norður á Hornströndum. Samt var ég sæll. Bernskuár mín flugu áfram í syngjandi hrifningu yfír lýrik daganna. Og þegar ég komst yfir fermingaraldur urðu bækur mínar, hugsjónaáhugi og 5 aurar fyrir neftóbaki himinn minn og eilíft líf.

   En fyrir ellefu árum byrjaði ég af einskærri tilviljun að sökkva mér niður í rit um spiritisma og sálrænar rannsóknir. Ennfremur las ég mikið guðspekirit og bækur um indverska heimspeki. Þar að auki safnaði ég margs konar fróðleik um dulræn fyrirbrigði meðal þjóðar minnar. Það var engin trúarþörf eða löngun eftir eilífu lífi sem hratt mér út á þessar brautir. Það var næstum hégómleg forvitni er síðar snerist upp í ákveðna þekkingarþrá og ómótstæðilega löngun eftir andlegri fullkomnun. Ályktanir þær, sem þessi lestur minn og heilabrot knúðu mig til, voru því gersamlega óháðar öllum persónulegum óskum, að þeirri einu löngun undanskilinni að komast að réttri niðurstöðu. Það skipti mig engu máli hvort sú niðurstaða yrði jákvæð eða neikvæð. Mér stóð alveg á sama hvort ég fyndi sumarlönd spiritismans, geðheima guðspekinnar eða hafnaði í mold og ösku efnishyggjunnar.

   Mér ferst ekki að hreykja mér hátt af árangri tilrauna minna. Ég fann í raun og veru ekkert annað en gamalt land sem þúsundir manna höfðu vitnað um á undan mér. Spiritisminn og guðspekin neyddu mig til þeirrar ályktunar (ég þori ekki að segja ugglausrar sannfæringar) að vér séum umkringdir af ósýnilegum efnisheimi og dulrænum verum, bæði framliðnum mönnum og einhvers konar „öndum“ af öðru tæi er ekki virðast hafa tilheyrt hinum jarðneska heimi. Að þessari sömu niðurstöðu hefir fjöldi rannsakenda og vitringa komist bæði fyr og síðar, og almenn reynsla hefir stutt þessa játningu frá kynslóð til kynslóðar.

   Þessi niðurstaða hafði auðvitað áhrif á eða öllu heldur skapaði þá afstöðu sem ég hefi nú til trúarbragðanna. Hún neyddi mig meðal annars til að efast sterklega um að nokkurn tíma reynist auðið að uppræta trú mannkynsins á guði og annað líf. Og hún hefir hingað til aftrað mér frá að berjast gegn trúariðkunum almennings, jafnvel þó að allir helgisiðir séu mér ógeðslegur viðbjóður. En ég kappkosta ávallt að hugsa rökrétt og starfa heiðarlega. Ég læt persónulegan smekk minn undantekningarlaust lúta í lægra haldi fyrir rökum skynseminnar. Ég geri svo miklar siðferðiskröfur til sjálfs mín að ég tel mig ekki hafa rétt til að boða það náunga mínum sem rís gegn sannfæringu minni eða er hulið fyrir utan takmörk þekkingar minnar. Það er megin-fræðsluregla mín.

   Nú veit ég ofurvel að ýmsir rannsakendur og leitendur hafa komist að gagnstæðri niðurstöðu í leit sinni eftir eðli sálarinnar. Ég þekki töluvert sjónarmið þessara manna. Ég hefi dálítið kynnt mér fullyrðingar þeirra um uppruna trúarbragðanna, skýringar þeirra á dulrænum fyrirbrigðum og röksemdir þeirra gegn lífi eftir líkamsdauðann. En, heiðarlega sagt, hefi ég hvergi fundið í málsgögnum þeirra eina einustu sönnun, jafnvel ekki eina einustu líku gegn þeim ógrynnum raka er staðfesta trú almennings á framhaldslíf sálarinnar.

   Það er því gersamlega rangt, og það sýnir átakanlegan skort á andlegri framsækni og heiðarlegri hugsun, er postular efnishyggjunnar byrla mannkyninu lífsspeki er gengur þegjandi fram hjá öllum sálrænum rannsóknum sem fram hafa farið í heiminum sjö síðustu áratugi. Þeim er þó vel kunnugt um að slíkar rannsóknir hafa verið gerðar og eru gerðar svo að segja í öllum löndum. Og þeir vita ennfremur eða ættu að minnsta kosti að vita að þessar rannsóknir hafa þegar leitt í ljós urmul af stórmerkilegum staðreyndum sem enginn heiðarlegur postuli sæi sér fært að ganga fram hjá í fræðslu sinni um eðli hins andlega lífs. Að stagla eftir sem áður sömu lífsskoðanirnar, sem vísindamenn skemmtu sér við að troða inn í fávísan almenning á dögum Karls Marx, — það er forhert katólska. Ef til vill eru „sannanir“ spíritismans um framhaldslíf sálarinnar rangar. En þær eru þó svo sterkar að enginn menntapostuli ætti að leyfa sér að fræða aðra á þá leið sem engar slíkar „sannanir“ væru til. Á yður, sem prédikið eilífan dauða einstaklingsins, hvílir fyrst og fremst sú skylda að sanna fánýti spíritistisku kenninganna og flytja mannkyninu einhver sennilegri rök í þeirra stað, áður en þér byrjið að innræta því guðspjall efnishyggjunnar. Enn sem komið er hafið þér ekki fram flutt nein slík rök. Á meðan leit yðar eftir sannleikanum er ekki lengra komið væri yður hyggilegast að láta trú manna á guði og annað líf afskiptalausa.

   Ég komst að þeirri niðurstöðu að trúin á lífið eftir dauðann sé á rökum reist. Fyrir því grunar mig að barátta yðar gegn þessari almennu sannfæringu verði árangurslaust strit. Þér getið að vísu fengið nokkra pólitíska skoðanabræður yðar til að afneita slíkum hindurvitnum, að minsta kosti í orði kveðnu. En ég er sérlega vondaufur um að yður lánist að gera þekkingarleysi yðar að allsherjartrúarbrögðum. Hafið þér ekki veitt því eftirtekt að um þessar mundir er ný trúaralda að velta yfir veröldina og að líf einstaklingsins hefir ef til vill sjaldan verið þrungnara af alls konar dulhyggju og dulspeki, þrátt fyrir vísindadýrkun síðustu aldar og þá viðleitni efnishyggjunnar að innræta mannfólkinu trúna á moldina? Trúarbrögðin eru eins og sjávarföllin. Þau fjara hér og flæða þar og aftur flæða þau hér og fjara þar. Þannig hefir hvert vantrúarútfallið rekið annað og að baki þeim öllum hafa risið nýjar öldur trúar og hindurvitna. Sumir gera sér vonir um að vísindunum auðnist einhvern tíma að ná algildri þekkingu á undirstöðu trúarbragðanna og að þá taki trúin enda. Kannski. En ef til vill er þó trúareiginleikinn eilífs eðlis. Sá tími kemur að vísu fyrr eða síðar er vísindunum tekst að afhjúpa marga leyndardóma sem í dag eru sveipaðir reykelsishulu trúarinnar. En bak við hverja nýja vísindauppgötvun bíða nýir leyndardómar, ráðgáta bak við ráðgátu, djúp bak við djúp, trúarefni bak við trúarefni.

   Um trúareiginleikann sjálfan mætti reyndar rita langt mál og merkilegt. En það er ekki hlutverk þessara lína.

   Það leiðir af því, sem að framan er sagt, að afstaða mín til trúar og trúariðkana er í stuttu máli á þessa leið: Ég tel mig hvorki hafa vísinda- né siðferðirétt til að reisa neins konar trúarstarfsemi á minni einkaskoðun um yfirnáttúrlega tilveru, jafnvel þótt hún sé studd af vísindalegum rannsóknum og ærið almennri reynslu enda skoða ég allt trúboð einungis leifar af viðbjóðslegri villimensku. Því um síður álít ég mér heimilt að heyja baráttu gegn trúarbrögðum í nafni vanþekkingar minnar á dularfullum hlutum. Af þessu leiðir að ég styð hvorki né stend á móti trú almennings á guði og eilíft líf. Frá mínu sjónarmiði á trúin sjálf að vera einkamál á meðan undirstaða hennar verður hvorki sönnuð né hrakin með skýlausum rökum.

   Mitt hlutverk er að berjast fyrir breytingu á trúarbragðafræðslunni, að beina henni að því mikilvæga ætlunarverki sem trúarbrögðunum var í upphafi ætlað að vinna, það er að sveigja hana að hugsjón jafnaðarstefnunnar. Kjarni allra trúarbragða er jafnaðarstefna. Ef mannkynið tæki trúarbrögðin svo hátíðlega að það fengist til að stofna þjóðfélagsskipulag á meginkenningum þeirra í stað þess að hafa þau að prívat nautnalyfi þá yrði slík mannfélagsstofnun vissulega fullkomið jafnaðarmannaríki. Hins vegar eru allar siðakenningar trúarbragðanna þveröfugar við hugmyndafræði auðvaldsskipulagsins. Það, sem ég geri, er því þetta: Ég beiti siðakenningum trúarbragðanna og mannúðarkenningu Krists sem vopni gegn prestunum, kirkjunni og auðvaldinu.

Ef einhver íhugunarlítill sakleysingi segir við mig að trúarbrögðin megi ekki gera að tæki ákveðins flokks eða stefnu, þá svara ég honum og segi: Öll trúarbrögð (eins og allar aðrar hugsjónir) eru og hafa ávallt verið málsvarar ákveðinna flokka og hreyfinga, bæði í trúarlegum og pólitískum skilningi. Katólskan er t. d. afturhaldstrúarklíka, studd af takmörkuðum flokki manna sem stendur á öndverðum meiði við aðra íhaldstrúarklíku er kennir sig við dauðlegan mann sem Lúther hét. Og innan lúterskunnar úir og grúir af ennþá minni klíkum sem allar hafa fundið sannleikann og eru þó hver annarri fjandsamlegar. Kristindómurinn er og ekkert annað en stóreflis trúarklíka sem berst um valdið yfir hugsunarfrelsi mannkynsins gegn öðrum voldugum trúarklíkum, svo sem múhameðstrú, búddatrú og brahmatrú. Og þær heyja aftur harðvítuga orrahríð sín á milli um sama valdið. Allar hugsjónir eru flokksmál þar til vaninn hefir gert þær að allsherjarsannleika.

   En þess utan eru trúarbrögðin og hafa lengstum verið auðmjúkir þjónar takmarkaðra stjórnmálaflokka. Hingað til hafa þau stjanað undir peningavaldið, hversu illur sem málstaður þess hefir verið. Á styrjaldarárunum brýndi kirkjan menn til að ganga í herinn, stökkti vígðu vatni á morðtól hermannanna og sneri Faðirvorinu í bölbæn gegn óvinaþjóðunum. Á friðartímum kennir hún siðfræði auðmannanna.

   Það er því mikill misskilningur að ég vilji gera trúarbrögðin að pólitísku málgagni. Þau eru pólitískt málgagn. Ég leitast aðeins við að fá þau til að hafa húsbœndaskipti. Ég hvet þau til að hefja sig til andlegrar tignar með því að þjóna guði í stað þess að fótum troða öll guðleg boðorð í þjónustu mammons. Ég kappkosta að knýja kirkjuna til að vinna fyrir volduga hugsjón sem berst, ekki fyrir styrjöldum, landvinningum, hernaðargróða, okri, örbirgð og úrkynjun, heldur friði, frelsi, jafnrétti, mannúð, menntun og bræðralagi. Ég heimta það af „fulltrúum drottins“ á jörðinni að þeir banni mönnum að ganga í herþjónustu, leggi blessun sína yfir alla sem sitja í myrkvastofum vegna ríkis friðarins og snúi Faðirvorinu í magnaða buslubæn gegn öllum styrjaldarbröskurum. Þetta er munurinn á mínum skoðunum um hlutverk trúarbragðanna og hugmyndum þeirra Jóns biskups Helgasonar og Meulenbergs prefekts í Landakoti.

Ef til vill ber sú viðleitni mín engan árangur að snúa sjálfri prestastéttinni til fylgis við hugsjónir jafnaðarstefnunnar. En ég tel það samt hyggilegri vinnubrögð en að sóa tíma og kröftum í að reyna að uppræta trúarbrögðin úr heiminum. Kirkjuvöldin eru máski óbetranlegir andstæðingar á meðan núverandi þjóðskipulag ríkir yfir auðmagninu. En ég er á hinn bóginn sannfærður um að margir fylgifiskar þeirra snúast smátt og smátt að málstað mínum, gerast gagnrýnir á athæfi kirkjunnar og varpa frá sér trúnni á falskenningar klerkanna. Margir athugulir kirkjumenn hafa þegar komið auga á djúpið sem er staðfest milli hinna afdráttarlausu mannúðarkenninga Jesú Krists og hinnar geðlausu þokuguðfræði kirkjunnar.

   En vér jafnaðarmenn eigum eina óbrigðula huggun að því er til sjálfra kirkjuvaldanna kemur. Og hún er þetta: Eftir byltingu jafnaðarstefnunnar (hvort sem hún verður hægfara eða svipleg) snúast allar kirkjur og allir klerkar til fylgis við hið nýja þjóðfélagsskipulag því að „þjónar drottins” hafa ávallt verið þjónar mammons. En fram til þeirrar stundar verðum vér að berjast hvíldarlaust með ræðum og ritum gegn svikaguðfræði kirkjunnar. Vér tökum í þjónustu vora meginatriði trúarbragðanna, kjarnann í gervöllum siðalögmálum alheimsins, og meitlum þau eilífu sannindi látlaust inn í heila og hjarta hvers einasta trúmanns að þungamiðja allra trúarbragða sé gersamlega gagnstæð hugmyndakerfum auðvaldsins en algerlega samhljóma þjóðfélagskenningum jafnaðarstefnunnar. Vér verðum að skýra óaflátanlega og gera hverju mannsbarni skiljanlegt djúpið óbrúanlega sem er staðfest milli kenninga Krists og tálfræðslu kirkjunnar. Og með kjarna trúarbragðanna og kenningu Krists að vopni eigum vér að kappkosta og kappkosta slyndrulaust að lokka kirkjuvöldin undir merki vorra heilögu kenninga. En hvar sem prestur eða predikari er andstæður þjóðfélagskenningum vorum þar eigum vér að reyna af fremsta megni að draga hvern einasta safnaðarmeðlim út úr kirkjunni. Með öðrum orðum: Vor helgasta skylda er falin í því að kollvarpa hinni úreltu hugmyndafræði kirkjunnar heimsendanna millum.

   Kristindómurinn var upphaflega öreigatrúarbrögð, sköpuð af öreigum handa jafnaðarmönnum og kommúnistum. Ekkert staðfestir betur þá kenningu Karls Marx að efnalegar kringumstæður ákveði að langmestu leyti (hann sagði aldrei að öllu leyti og var því sjálfur ekki Marxisti!) gang sögunnar heldur en það að slík trúarbrögð skuli í 2000 ár hafa þjónað aðli, stríðsherrum og peningapúkum og aldrei flaðrað auðmjúklegar en nú fyrir stórgróðamönnum og hernaðarsinnum,  – eru meira að segja beittasta vopn þeirra gegn boðskap jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. En byltingin kemur þrátt fyrir öll trúarbrögð þegar efnalega þróunin er komin í þær ógöngur að hrun auðvaldsskipulagsins er óumflýjanlegt. Og hugsið yður, hversu ljúflega kristindómurinn mun þá þjóna hinum nýju herrum, öreigunum, — ef þeir hafa vit á að þiggja þjónustu hans, — eftir 2000 ára útlegð meðal þjófa og ræningja. Og ekki þurfum við að bera kvíðboga fyrir því að honum veitist sérlega erfitt að teygja sig og toga eftir hinni efnalegu nauðsyn jafnaðarríkisins. Svo vel hafa hinir fyrri húsbændur hans liðkað hann og þjálfað. Sá, sem ekki trúir þessu, hann er ekki marxisti.

   Villur eru örlög mannanna. Í mörgum meginvillum hafa jafnaðarmenn gert sig seka í baráttu sinni fyrir viðreisn mannkynsins. En einhver lakasta yfirsjón þeirra er þó andúðin gegn trú á guð og annað líf. Með því glappaskoti hafa þeir vissulega tafið framgang jafnaðarstefnunnar. Málstað vorum hefði óefað miðað betur áfram en sagan sýnir ef þeir hefðu þess í stað haft vit á að hagnýta sér einmitt grundvöll trúarbragðanna sem biturt vopn gegn auðvaldi og efnishyggju.

   Þessi yfirsjón stafar að nokkru leyti af þeim reginmisskilningi að þeir hafa ruglað saman hinni efnalegu söguskoðun og hinni vísindalegu efnishyggju. En þessi menningarfyrirbrigði eiga ekki meira sameiginlegt en þróunarkenning Darwins og útskúfunarkenning kirkjunnar. Vér efumst ekki um að sú kenning Karls Marx sé rétt að efnalegar kringumstæður stjórni að miklu leyti hugsunarhætti og athöfnum einstaklingsins. En það sannar ekki að sálin geti ekki þrátt fyrir það haft sjálfstæða tilveru. Kenning Marx segir ekkert annað en það að efnaleg lögmál stjórni að miklu leyti hugsunarhætti einstaklingsins. Sjálfur var Karl Marx svo lítill marxisti að hann viðurkennir jafnframt að hugsun mannsins eigi mikinn þátt í rás hinnar efnalegu þróunar.

   En af þessum misskilningi leiddi aftur aðra hugsunarvillu er oft verður vart í ræðum og ritum jafnaðarmanna. Hún er í því fólgin að þeir hafa aldrei gert neinn greinarmun á kenningum kirkjunnar og undirstöðu trúarbragðanna. En þótt vér vitum að kirkjan sé heimsk og áhrif hennar siðspillandi þá getur undirstaða hennar verið af allt öðru bergi brotin. En jafnaðarmönnum virðist ekki ennþá hafa skilist að jafnvel á bjargi má reisa andstyggilegt og óhollt hreysi.

Þá hefi ég gert yður ofurlitla grein fyrir afstöðu minni til sambandsins milli stjórnmála og trúmála. Og ég hefi gert það vegna þess, að ég vildi að þér fylgduð dæmi mínu og innrættuð það öðrum innan yðar verkahrings. Ég er í engum vafa um að afstaða mín er hyggilegri og hagkvæmari en yðar. Ég fæ aldrei brýnt það nógu oft fyrir pólitískum samherjum mínum að barátta vor á að beinast gegn vinnubrögðum kirkjunnar og klerkanna en ekki gegn trúnni á framhaldslíf sálarinnar. Og viðleitni mín er reist á þeirri vissu að það er auðveldara að leysa skoðanir undan valdi kirkjunnar en sálir frá ívist eilífs lífs.

 

III.

 

   Skoðun mín á guðspekinni virðist vera dálítið á annan veg en yðar. Ég get ekki verið yður samdóma um að hún sé einungis „trúarbrögð í nútíðarbúningi“. Eftir minni bestu vitund er hún fyrst og fremst heimspeki, bæði gömul og ný, þó að flestir guðspekingar hafi haldið sér óflekkuðum af þeim greinum hennar sem tala til vitsmunanna.

   Kenningar guðspekinnar um andann og umheiminn eru að mörgu leyti einkar eftirtektarverðar. Ég þekki ekkert hugsunarkerfi sem skýrir margvíslegar ráðgátur tilverunnar eins sennilega og guðspekin. Og mig grunar að margar kenningar hennar séu á rökum reistar. Verklegar æfingar guðspekinnar eru óefað mjög gagnlegar. Það get ég borið um af eigin reynd. Hins vegar þekki ég þó ekki allfá dæmi þess að þær hafa sogið úr sumum guðspekingum lífsorku, dregið þá niður í geðlausa meðalhófsloðmollu og kveðið þá í sátt við yfirstandandi eymd, komið þeim til að drepa kærleiksríka tittlinga framan í alls konar mannúðarstefnur, en á hinn bóginn aftrað þeim frá að taka þátt í neinum þeim umbótum sem gátu sært stéttarhagsmuni Rotschilds eða Rockefellers. Það kalla þeir hér að vera jafnþroskaðir.

   Þér fullyrðið að guðspekin hafi máttu[g]leika til að hylja fyrir fólki „veruleika stéttabaráttunnar“. Auðvitað. Vissulega eru til margir guðspekingar sem nota guðspekina fyrir krydd í ólyfjan auðvaldsskipulagsins. En slík drottinsvik eru ekki sök guðspekinnar. Það eru glæpir þeirra manna sem telja sig guðspekinga. Slíka loddara finnið þér í öllum göfugum hreyfingum. En um guðspekina sjálfa verður það sannast sagt að hún stendur nær jafnaðarstefnunni en nokkuð annað heimspeki- eða háspekikerfi sem opinberað hefir verið mönnum. Eina þjóðfélagsskipulagið, sem unnt er að draga rökrétt af heimspekikenningum guðspekinnar, er sameignarríki jafnaðarstefnunnar.

   „Kraftaverk“ guðspekinnar sýna ekki að mínu viti aðeins „óveruleika”, „ímyndun“ og „trú“ fremur en sams konar fyrirbrigði annarra kenningakerfa. Oft og ef til vill ávallt virðast þau vera útgeislanir frá einhvers konar veruleik, einhvers konar orkulind sem oss er ennþá ókunn, að minnsta kosti í svo nefndum vísindalegum skilningi. En svo mikið hefir reynslan sannað oss að „kraftaverkin“ eru voldugur máttur, hvaðan sem hann kemur og af hverju sem hann stafar, máttur sem er fær um að breyta svartanóttu í sólskinsbjartan dag. Og ég hygg að oss sé miklu þarfara að rannsaka þessa orkugjafa, kosta kapps um að þekkja eðli þeirra og gera oss far um að hagnýta oss gagnsemi þeirra heldur en að hundsa þá með þegjandi fyrirlitningu eða reyna að kæfa þá með íhugunarlausu fordómaslúðri.

   Flestir vísinda- og heimspekifrömuðir hafa framið eina höfuðsynd í heilabrotum sínum um eðli hlutanna. Þessi synd er í því falin að þeim hætti jafnan við að fjalla um rannsóknarefni sín frá því eða þeim sjónarmiðum eingöngu er gátu leitt þá til niðurstöðu er þeir óskuðu fyrirfram að finna eða höfðu bitið sig fasta í að þeir hlytu að komast að. Þeir skildu eftir eða sást yfir alla þá þætti viðfangsefnisins er hefðu getað knúð þá til ályktunar sem þeim var miður geðfeld eða reið í bága við trú þeirra. Og þeir köstuðu út í heiminn „nýjum sannleika“. Og menntastofnanirnar sæmdu þá orðum og titlum og trúgjarn lýðurinn kom skríðandi og reisti þeim hof og hörga. Og veslings hundsuðu fyrirbrigðin voru hulin sjónum mannanna í ljóma þeim hinum mikla er stafaði af hinum „nýja sannleika“.   

   En tilveran er ekki ályktanir doktora né dannebrogsriddara. Aumingja hundsuðu fyrirbrigðin héldu áfram að hjara þvert ofan í fullyrðingar spámannanna. Þau skutust við og við út úr afkimum tilverunnar, læstu sig gegnum hugskot efasjúkra sálna og fylltu andrúmsloftið ugg og grunsemdum.

   Tíminn líður. Eldmóðurinn fyrir hinum „nýja sannleika“ breytist hægt og hægt í kyrstöðu. Ljós hans verður að skímu, kenningar hans að efni í doktorsritgerðir. En veslings hundsuðu fyrirbrigðin verða að sama skapi augljósari. Þau þyrpast utan úr rökkrinu og kveikja sívaxandi efa um tign hins „nýja sannleika“ sem nú krokir reyndar á grafarbakka gamallar lygi. Gagnrýnin hefst. Menn skiptast í bolsevika og íhaldsmenn. Áður en minnst varir birtist nýr spámaður og kollvarpar yndislega kenningarkerfinu sem makráður lýðurinn hafði gert að hægindi heimsku sinnar. Og ennþá rignir niður orðum og titlum og ennþá kemur lýðurinn flaðrandi og reisir hof og hörga á dys hinnar dauðu lygi.

   Þetta eru hin dapurlegu örlög flestra þeirra kenninga er farið hafa um heiminn og töfrað trúgjörn hjörtu mannanna. Mig grunar að þetta sama niðurlag bíði efnishyggjunnar. Frömuðir þessarar lífsskoðunar hreyktu upp heimskerfi sínu úr fáeinum ytri staðreyndum. Þeir settu undir smásjá nokkrar efni[s]agnir og skópu úr þeim hrokafulla (eða of auðmjúka) heimsmynd sem þeir kölluðu upphaf og endi allrar tilveru. En þeir gengu þegjandi fram hjá eða fölsuðu aragrúa af andlegum fyrirbrigðum sem fóru í bága við trú þeirra á moldina.

   En þeim tókst ekki að moka þessum lífsöflum út fyrir endimörk tilverunnar. Þau lifðu og störfuðu eins og enginn hefði sagt aukatekið orð um „funktion“ efnisins. Og nú er ekki annað sýnna en þessi lítilsvirtu olnbogabörn vísindaaðalsins séu að plokka síðustu steinvölurnar undan hugmyndasmíði þeirri sem hann sóaði í langri ævi að setja á laggirnar og sæmdi hinu yfirlætislausa gælunafni: vísindaleg efnishyggja!

                                                                                                             Með bróðurlegri kveðju

                                                                                                                                                            Þórbergur Þórðarson