[Viðtakandi bréfsins, Kristín Guðmundsdóttir, kona Hallbjarnar Halldórssonar, var sérfræðingur Þórbergs í praktískum ástamálum. Þórbergur er á leið til Osló á norrænt rithöfundaþing sem fram fór 1. – 6. júní.[1] Sjá einnig bréf hans til Vilmundar, dagsett í Oslo, 4. júní 1930.]

                            Kristján Eiríksson þýddi

 

Björgvin, 20. maí 1930.

 

Kæra Kristín!

 

Megi línur þessar hitta þig fríska, fjöruga og fulla af heilögum anda í hvers hönd um eilífð verða örlög okkar alls konar.

   Tilgangur bréfs míns er þessi:

   Í fyrravetur bað ég Guðbrand Magnússon[2] tvisvar eða þrisvar um að útvega hjá ríkisstjórninni ókeypis miða frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur og til baka aftur fyrir hjónin í Koldinggade og son þeirra en þau vilja koma á Alþingishátíðina en hafa ekki efni á að koma af eigin rammleik. Í fyrrahaust talaði ég líka um þetta við prófessor Sigurð Nordal. Hann veitti þá ekkert svar og ekkert ráð gaf hann mér. En núna, þegar ég vék aftur að þessu við þann góða herra, svaraði hann: „Ég held að hægt sé að fá miða ef menn senda beiðni nógu snemma um það til Menntamálaráðuneytisins.“ En hvers vegna í ósköpunum nefndi hann þetta ekki við mig í fyrrahaust þegar ég var að tala um málið við hans hátign?!

   Eitthvað mun Guðbrandur hafa gert til að verða við bón minni en mig grunar að hann hafi ekki lagt sig nægilega fram. Nú bið ég þig að tala við Guðbrand og hvetja hann eins og framast er unnt til að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að útvega miðana. Kannski er það þegar orðið of seint. En ég hef þá gert allt sem ég get. Vilmundur lofaði Steinunni að útvega einhverja hjálp hjá ríkisstjórninni og ég minnti hann á það í vetur. En ég efast um að hann hafi nokkuð gert. Mér finnst Þórður og Steinunn hafa veitt svo mörgum þurfandi Íslendingum dýrmæta hjálp í Kaupmannahöfn að þau eigi skilið svo lítinn greiða frá ríkinu. Mundu bón mína. Hvettu Guðbrand.[3]

   Í dag, klukkan tvö, komum við til Björgvinjar og förum svo til Osló á fimmtudagsmorgun. Ég hef þegar gengið á fjall og horft yfir borgina og nágrenni hennar. Hér geng ég á sömu jörð og Snorri Sturluson þegar hann flaðraði upp um norska höfðingja. Ég bý á lúxusherbergi á Hótel Terminus og peningarnir þjóta frá mér eins og hræddar rottur.

   Ég heimsótti Sigurbjörn Sveinsson [þ.e. í Vestmannaeyjum] á leiðinni út og bar honum ástarkveðju þína. Hjá honum borðaði ég egg og brauð og drakk mjólk. Og við spjölluðum lengi um allt og ekkert. Hann fylgdi mér, að minni ósk, vestur yfir eyjuna og sýndi mér sjávartjörn þar sem ég gat baðað mig og þar sem hann fer sjálfur í bað á hverjum degi. Svo nærgætur og kvenlegur er Sigurbjörn að hann vék langt afsíðis þegar ég byrjaði að afklæðast og þar sat hann á kletti og reykti pípu sína og horfði á mig á meðan ég gerði æfingar mínar. Þegar ég var hálfklæddur kom hann og sagði upplyftur: „Af þessu hef ég mikið lært!“ Síðan fórum við heim og spjölluðum lengi. Meðal margs annars merkilegs sagði hann mér alla söguna um ástarsamband Andrésar og Sigrúnar og viðvörun hans til Andrésar sem hann flutti á enska tungu: „Þannig byrjaði ég: „Be carefull, my friend….“ En eftir viðvörunina varð hann tíu sinnum verri!“ Hjá Sigurbirni dvaldi ég frá klukkan 11 til klukkan 4 eftir hádegi. Þá fór ég til skips sem þó beið 26 stundir í Vestmannaeyjum.

   Fyrir utan heimsókn mína til Sigurbjarnar gerðist næstum ekkert frásagnarvert í ferðinni. Samt er kannski vert að geta þess að þegar við fórum fram hjá Engey varð ég gripinn hræðilegum ótta. Þar skaut skyndilega upp í huga mér að ég hafði ekkert vegabréf. Ímyndaðu þér vandræði mín! En þeim sem Guð elskar þeim gefur hann líka vegabréf. Sem verkfæri sinnar miklu gæsku notaði hann Linnet[4] í Vestmannaeyjum og eitt eintak af Bréfi til Láru sem hann hafði blásið mér í brjóst að taka með mér.

   Daginn eftir brottför okkar frá Vestmannaeyjum kom norðaustan stinningskaldi og gerðist sjór mjög úfinn. Skipið valt svo á báðar hliðar að sjórinn kaffærði káetugluggana svo að myrkur varð í káetunum. Þann dag, klukkan 10 að morgni, heyri ég að einhver lemur án afláts á bjölluhnappinn í næstu káetu. Og eftir trylltar hringingar er barið á vegginn bakvið kojuna mína. Og um leið hrópar kvenmannsrödd á norska tungu: „Bjallan mín virkar ekki, komdu, komdu!“ Ég klæddi mig í skyndingu og hljóp yfir í káetuna. Þar lá kona með ungt barn. „Hvað get ég gert fyrir þig“, spurði ég. Hún svaraði: „Ég er hrædd um að glugginn brotni og sjórinn fossi inn í káetuna og það er svo ömurlegt að liggja hér alein með barn.“ „Nei, mín kæra“, svaraði ég, „glugginn er sterkur og brotnar áreiðanlega ekki. Ég hef oft verið á sjó í slíku veðri.“ Hún meðtók hina róandi huggun. Hæstur drottinn veri lofaður.

   Önnur kona var á skipinu sem ég var lengi í vafa um hvort væri norsk og hefði dvalið lengi á Íslandi eða íslensk og hefði búið lengi í Noregi. Hún hafði rauðleitt hár, stór vexti, myndarleg en leit ekki út fyrir að vera of gáfuð. Það var svo undarlegt að mér fannst alltaf vera eitthvert samband milli hennar og Dante. Og það var einmitt þessi óþægilega tilfinning sem varð til þess að ég fór að veita henni sérstaka eftirtekt. Eftir tveggja daga klókindalega eftirgrennslan heppnaðist mér að lokum að ráða gátuna. Konan var norsk en hafði búið í átta ár á Íslandi. Hún var gift norskum manni í Reykjavík og hafði nú með sér frumburð þeirra sem var sískjælandi ennislaust smábarn. Einu sinni þjónaði hún á Vífilsstaðahæli. En þá vildi svo til einn fagran dag þegar hún var á gangi á götu í Reykjavík að hún kom auga á Erlend Guðmundsson. Frá því augnabliki þjáðist hún af óhamingjusamri ást til Erlendar. Eða trúirðu því ekki núna að ég sé gæddur dálitlu innsæi að finna að þessi ólýriska kona hefði eitthvað svipað við sig og Dante sem þjáðist alla ævi af óhamingjusamri ást til Beatrice sem hann hafði líka aðeins einu sinni séð á götu.

   Berðu minni kæru og fínu eiginkonu kveðju mína en armlög hennar og kossa  þrái ég í draumi sem vöku.[5] Biddu Erlend að kyssa hana í fjarveru minni í mínu nafni og í minn stað. Skilaðu einnig virðulegri kveðju minni til *Eggvarar (hennar sem leggur vör sína að kyssilegasta hluta Eggerts. Er nafnið ekki vel til fundið?). En af langmestum innileik og einlægni skalt þú færa ógleymanlega kveðju mína Dagbjörtu með ljósa hárið og augun fögru hverrar auðmjúkur þræll ég verð til hinstu stundar. Hversu hamingjusamur yrði ég ekki mætti ég ævina á enda horfa á slíka veru ganga milli eldhúss og baðstofu um daga og um svartar nætur fá að þreifa um hana liggjandi mér á hægri hlið. Þetta er draumur sem sparað gæti 3 krónur og 95 aura á viku fyrir brómurali.

   Færðu Hallbirni einnig þær fréttir að ég hafi orðtekið á ferðalaginu Praktikan frazaron, Komercan korespondadon og 40 síður úr Idoj de Orfeo. Það mun lengja þrældóm hans um nokkrar vikur.[6] Einnig las ég Sosialismens Historia eftir Max Beer. Góða bók. Seinni hlutann keypti ég í Osló.

   Berðu Erlendi kveðju mína. Ég er vel frískur og fjörugur og laus við brómural og adalín. Ég hef fengið spánnnýtt höfuð.

   Að lokum kveð ég þig með virktum og bukti og beygingum.

      Þinn fastviðnegldi með rekaviðarnagla,

                   Þórbergur Þórðarson.

 

   Ef þitt afturhaldssama hold tekur að mögla vegna tungumálsins á þessu bréfi þá skaltu minnast þess að á þessari sömu tungu hefi ég nýlega skrifað langt bréf til fyrstu persónu hinnar heilögu þrenningar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[1] Sjá t.d. Halldór Guðmundsson: Skáldalíf, bls. 201–204 og dagbók Þórbergs frá þinginu.

[2] Þ.e. er Guðbrandur Magnússon prentari, ritstjóri og síðar forstjóri Áfengisverslunar ríkisins.

[3] Hjónin í Koldinggade, sem hér er vísað til, eru Þórður Jónsson yfirtolltjón og kona hans, Steinunn Ólafsdóttir hjúkrunarkona í Koldinggade 20 í Kaupmannahöfn. Halldór hét sonur þeirra. Á heimili þeirra áttu fjölmargir Íslendingar í Höfn góðar stundir og má segja að þar hafi á stundum verið eins konar samkomustaður margra þeirra og þar á meðal Þórbergs og var gestrisni þeirra hjóna við brugðið.

 

[4] Kristján Linnet var bæjarfógeti í Vestmannaeyjum.

[5] Þórbergur kvæntist ekki Margréti fyrr en 1932 svo ef til vill er hann hér að vísa til Sólu (Sólrúnar Jónsdóttur) barnsmóður sinnar. En eitt bréf hefur varðveist frá honum til hennar þar sem hann er staddur í Osló 4. júní 1930. Sjá Bréf til Sólu, bls 159–160.  

[6] Þórbergur orðtekur þessar bækur vegna Íslensku-Esperanto orðabókarinnar miklu sem hann einbeitir sér að um þessar mundir og skrifar um þau störf sín í Bréfi til Vilmundar Jónssonar sem dagsett er í Oslo, 4. júní 1930. Hallbjörn mun hafa annast yfirlestur að handriti Þórbergs að bókinni.