Download document
(Bréfið birtist fyrst í La Tradukisto. Kvara numero (þ.e. fjórða hefti),
12. mars 1990. Kristján Eiríksson þýddi).
Bréf þetta frá Þórbergi Þórðarsyni er hið fyrsta sem hann skrifaði á Esperanto að því er næst verður komist. Eins og hann segir sjálfur í bréfinu hefur hann þá aðeins lesið Esperanto í tvo mánuði. Samt hefur hann þegar ákveðið að gerast rithöfundur á málinu.
   Viðtakandi bréfsins er Vilmundur Jónsson læknir á Ísafirði, vinur Þórbergs.
  

Kaupmannahöfn, 19. júlí 1926.

 

Ágæti ritstjóri, virti pólitíkus.

 Ég þakka mikillega fyrir peningana sem ég fékk frá Alþýðumogga með Botníu. Ég verð að skrifa margar og merkilegar greinar í blaðið þegar ég verð kominn heim. Og ég er ennþá mjög byltingarsinnaður þrátt fyrir að ég hafi því miður misst trúna á heimsbyltinguna.

   Ég komst ekki á rithöfundaþingið í Rússlandi vegna þess að enginn bolsévíki, hvorki í Svíþjóð né Danmörku, gat gefið mér nokkrar upplýsingar um þá samkomu. Síðan formæli ég öllum bolsévíkum.

   En ég er nú ákveðinn í að fara á alþjóðaþing esperantista, sem verður í Edinborg frá 31. júlí til 8. ágúst.[1] Líklega kem ég til Reykjavíkur með Gullfossi í kringum 17. ágúst.

   Síðustu tvo mánuði hef ég eingöngu lesið og skrifað Esperanto. Og í einræðum sálarinnar tala ég aðeins Esperanto. Nú er ég að lesa Fundamenta Krestomatio (460 síður). Ég er að hugsa um að hætta að skrifa á íslensku og gerast rithöfundur á Esperanto. Það er stórkostleg hugmynd. Þá munu menn lesa hin viðbjóðslegu verk mín jafnt í Japan og Kína sem í Önundafirði. Hvers vegna ætti ég að skrifa fyrir Íslendinga? Að skrifa gagnlegar bækur handa Íslendingum, það er eins og að hella úr einum hjólbörum af kúamykju yfir Góbíeyðimörkina.

   Í síðustu viku var mér boðið til dansks esperantista að nafni Blicher. Kona hans er einnig mikill esperantisti. Móðir hennar er af frönskum ættum. Þarna voru þrjár skoskar konur sem gátu talað svolítið á Esperanto. Einnig voru þar tvær danskar ungfrúr, mjög fallegar, sem töluðu Esperanto fullkomlega. Auk þess hitti ég þar blinda konu, gamla, sem talaði Esperanto stórvel og las Esperanto með fingrunum. Og þar var líka stödd amerísk frú sem einnig talaði Esperanto. Þarna var mjög gaman. Við ræddum saman, átum drukkum og döðruðum.

   Um kvöldið fórum við, herra Blicher, skosku konurnar, dönsku ungfrúrnar og ég í Tívolí. Við fórum í „rutschebanen“, og þar sat ég hjá einni skosku konunni, reglulega ljótri skepnu. Á þessum stað tapaði „hinn blessaði“ heitkonu sinni fyrir mörgum árum.[2] „Sælir eru hógværir.“ Hvernig líður honum? Hefur hann náð takmarki sínu? Það er: Er hann trúlofaður? Það er hans eina takmark í lífinu. Friður guðs sé með hans ástríðulausu frelsun.

   Ég fékk bréf þitt á fimmtudaginn var og ég þakka fyrir það. Ég veiti leyfi til að gefa út „Dag dómsins“. Þýðingin er trúlega góð.* Skilaðu kærri kveðju til þinnar borgaralegu eiginkonu. Einnig bið ég að heilsa litla lærisveininum.[3] Þú munt sjá mig óvænt í holdinu.

 

Lifðu í helgum guði.

Þinn ævarandi vinur.

      Þórbergur Þórðarson.

 

Miði sem Þórbergur hefur lagt með bréfinu til Vilmundar og er hann er dagsetur daginn eftir.

 

 

            Kaupmannahöfn, 20. júlí  1926.

 

            Hæstvirti læknir og lærifaðir.

Aðeins örfá orð. Ég hef verið að læra esperanto og „þjóðfræði“ hér í Kaupmannahöfn í tvo og hálfan mánuð. Þann 27. júlí held ég á alþjóðaþing sem verður í Edinborg frá 31.  júlí til 8. ágúst Síðan kem ég heim með Gullfossi um 17. ágúst.

   Berðu konu þinni kæra kveðju og afa mínum litla.[4] Þú munt sjá mig í holdinu þegar minnst varir.

Lifðu í helgum Guði.

Þinn vinur:

Þórbergur Þórðarson

 

 

[1] Þetta var fyrsta Alþjóðaþing esperantista sem Þórbergur fór á og átti hann eftir að lýsa því mjög fagurlega.

[2] Hér mun átt við Sigurð Jónasson síðar forstjóra Tóbaksverslunar ríkisins. 

[3] Litli lærisveinninn er Þórhallur, sonur Vilmundar.

 

[4] Afi minn litli er Þórhallur, sonur Vilmundar.

Kaupmannahöfn, 19. júlí 1926.