Eftirfarandi bréf Þórbergs, sem hér birtist í íslenskri þýðingu, er skrifað til vinkonu hans, Gerarda de Waart, sem hann mun hafa kynnst á haustdögum í Hilversum í Hollandi 1929. Gerarda fékkst meðal annars við að ráða í geðslag manna og skapgerð með því að rýna í rithendur þeirra og fékk hún frá Þórbergi bæði hans eigin rithönd og einnig sendi hann henni rithendur fleiri manna eins og ráða má af eftirfarandi bréfi og fleiri bréfaskriftum þeirra.
Gerarda de Waart fæddist 25. júní 1887 í Nordrech í Hollandi. Hún gerðist esperantisti 1925. Árið 1929 kynnti hún og talaði fyrir Esperanto í Portúgal þar sem hún hélt marga fyrirlestra. Og um haustið sama ár stýrði hún Esperanto-námskeiði á vegum lýðháskólans í Hilversum í Norður-Hollandi. Eftir fyrsta námskeiðið þar stofnaði hún deild innan Hollensku Esperanto-samtakanna: LEEN (La estonteco estas nia: Framtíðin er okkar). Síðar leiddi hún námskeið fyrir verslunarskóla, og upplýsingarnámskeið á vegum borgarinnar. Einnig kynnti hún málið og talaði fyrir því í nágrenni Hilversum og stofnaði fleiri deildir innan LEEN.
 
 
Reykjavík 1932,
á þeim helgum degi,
er vor mikli Jesús
mettaði fimm þúsund manns.[1]
 
I
 
   Heiðraða rithandarfræðikona!
   Undanfarna sex daga hefi ég legið sjúkur í okkar árlega kvefi. Þessi skammarlegi ósigur lífsins hefir gefið mér ágætt tækifæri til þess að efna gamalt loforð um nokkrar hneykslissögur. Og nú þegar mér er batnað hreinskrifa ég á þessi blöð þau uppköst sem ég setti á önnur blöð á meðan ég lá á bakinu með 39 stiga hita. Ég hef bréf mitt á nokkrum minnisverðum atvikum úr lífi háttvirtra rithandarviðfangsefna þinna.
 
II
 
   Nikolína Árnadóttir var einu sinni ung og falleg, guðhrædd mær, eigandi sér þúsundir fánýtra drauma, eins og allir, sjáandi lífið gegnum fölsk gleraugu hins heimska uppeldis. Faðir hennar var kaupmaður og miðlungi vel þokkaður spekúlant. Móðir hennar var komin af grónu ríkisfólki, íhaldssömu að eðlisfari, staðföstu í skapi, fornu í hugsunarhætti. Eitt sinn voru þau hjónin í góðum efnum. En „illur fengur illa forgengur“ og með árunum runnu eignir þeirra burt eins og vatn í sand.
   Í fyrstu bjó fjölskyldan í smábæ á Vestfjörðum þar sem presturinn og kaupmaðurinn voru mikilvægustu skepnur alheimsins og fólkið hafði í tíu alda rás verið hert af galdramætti djöfulsins og þrotlausri baráttu við öldur sjávar. En árið 1915 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og þar hefir hún átt heima síðan.
   Um þessar mundir stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík ungur sveinn, laglegur í andliti og með heillandi rödd. Skáldgáfu hafði hann einnig og hann var skínandi upplesari. Hann sagði draugasögur af svo mikilli list að menn skynjuðu nálægð hinna hræðilegu afturgangna og engu var líkara en andrúmsloftið fylltist af braki nakinna beinagrinda og mettaðist grafarþef. En annað hné hans var stíft af völdum berkla sem hann hafði einhvern tímann fengið og var hann því linur til vinnu. Hann var skínandi fátækur og sagt var að hann ynni fyrir sínu daglega brauði með því að láta greiðasölukonum ást sína í té.
   Þessi sveinn fann einhvern veginn hinn þrönga stíg að foreldrahúsum Nikolínu. Þar fékk hann fæði á seinni árum sínum í menntaskóla, í þetta skipti ekki vegna ástar á húsmóðurinni – enda hún orðin gömul – heldur má þakka það einhvers konar einingarsambandi við ungfrú Nikolínu. Og fljótlega eftir að hann tók stúdentspróf gengu þau í hjónaband. Og mitt í ölvun hveitibrauðsdaganna fóru þau til Þýskalands, hann til að leggja stund á bókmenntir, hún til að hlýðnast skipun vors himneska föður og bæði til þess að njóta í leynum draumsins um neðri mörk ástarinnar.
   Þau reistu hjónarúm sitt við hliðargötu í Leipzig. Og í nokkur ár lifðu þau þar í „heilögu samræmi“. Hinn gáfaði eiginmaður fékk dálítinn styrk frá íslenska ríkinu til að nema þýskar bókmenntir og hin trúfasta eiginkona var studd af föður sínum til þess að halda áfram að hlýðnast skipun vors himneska herra. Þetta var á tímum lágs gengis í Þýskalandi. En skyndilega jókst gildi peninganna. Vegna þessa varð stuðningurinn sem faðir hennar hafði látið í té næstum að engu og styrknum frá ríkinu var um það bil að ljúka.
   Þá féll hinn ungi eiginmaður í arma þýskrar fegurðardísar og nokkru seinna varð ósamræmið milli útslitinna húsgagna til þess að skilja hjónin endanlega að. Með brostið hjarta sneri hún aftur til Íslands en hann vinnur ennþá, berklaveikur, fyrir sínu daglega brauði í Þýskalandi, alltaf jafn harðákveðinn í þeirri ætlan sinni að byrja á morgun á hinu sígilda meistaraverki sínu.
   Í mörg ár leið Nikolína miklar hjartakvalir. Og oft varð hún að liggja langtímum saman í rúminu vegna þessara þjáninga. Á seinustu árum er heilsa hennar miklu betri þrátt fyrir nokkur misheppnuð ævintýri sem hún hefir orðið að ganga í gegnum annað slagið. En hvernig sem örlagahjólið veltist er Nikolína alltaf í góðu skapi, greind, fyndin og hugrökk. Og hún óttast hvorki Guð né hans afhaldskumpána við elda helvítis.
   Ég hygg að lesturinn úr rithönd hennar sé nokkuð góður. Samt verð ég að viðurkenna að ég þekki hana ekki nægilega vel til að dæma fullkomlega um það. Ég hefi alltaf forðast að vera einn með Nikolínu því að þá verða hennar eigin tilfinningar og aðstæður svo yfirþyrmandi að ekki er hægt að tala um það. Sjálf kvartar hún um rithandarlesturinn. Reyndar viðurkennir hún að hann standist að vissu marki en sé þó ábótavant. Hún þekkir sig í honum að hluta en telur þó nokkuð skorta á lýsinguna. Til dæmis segist hún vera mjög trúhneigð og músíkölsk. En ekki er vikið að þessum eiginleikum í rithandarlestri hennar.
   Leyfist mér að lokum að bera fram eftirfarandi spurningu.
   Er ekki unnt að greina alvarlegan, langvinnan sjúkdóm, líkamlegan eða andlegan, á rithöndinni?
   Og með því lýk ég sorgarsögu Nikolínu Árnadóttur.
 
III
 
   H. Laxness, hvers fullt nafn er nú Halldór Kiljan Laxness, er rithöfundur og einkum sagnahöfundur. Faðir hans, músíkalskur hjartagæðingur, vann sem vegavinnuverkstjóri hjá ríkinu. Seinustu árin sem hann lifði var hann einnig bóndi á bænum Laxnesi, nokkra kílómetra frá Reykjavík. Kona hans og móðir Laxness er mikil húsmóðir og snjöll fjármálakona, að minnsta kosti í eigin þágu.
   Laxness hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík en þegar hann var kominn í 4. bekk varð hann að leggja lærdóminn á hilluna vegna skakandi þrýstings skáldlegra vinda.
   Ungur hóf hann rithöfundarferil sinn. Fyrsta bók hans var stutt skáldsaga þar sem nokkrar sögupersónanna frömdu sjálfsmorð vegna óhamingjusamrar ástar en ekki hefi ég heyrt að þeim hafi tekist að fá nokkurn lesanda til að farga sér. Eftir þessar blóðsúthellingar þrammaði hið unga skáld eftir götum Reykjavíkur með hátíðlegan svip, nefklemmur af gulli og breiðan heldrimannaflibba tautandi við sjálfan sig: „Ég óska mér ekki frægðar en yrði ánægður aðeins ef vegfarendur segðu: Í þessari ásjónu býr eitthvað mikið.“
   Skömmu seinna hefst nýtt tímabil í lífi Laxness. Tvisvar fer hann utan og dvelur á ýmsum stöðum í Norður-Evrópu. Sú aristókratíska farsótt geisaði þá um mörg norðlæg lönd að uppgjafarithöfundar og listamenn leituðu skjóls hjá hinni katólsku kirkju fyrir þjáningum helvítis eftir dauðann. Til að fylgja tískunni ákvað Laxness einnig að bjarga sálu sinni á þennan hátt. Þess vegna snerist hann til katólskrar trúar í annarri utanferð sinni og dvaldi um nokkurt skeið við mikla guðrækni í klaustri einu í Lúxemborg. Til þess að skola sem rækilegast af sér sinn gamla Adam kastaði hann föðurnafni sínu og lengdi í staðinn persónuleika sinn með fjórum nýjum. Er hann gekk inn í klaustrið nefndist hann Halldór Guðjónsson en þegar hann fór út þaðan bar hann sem vopn gegn Djöflinum nöfnin: Halldór Pétur María Kiljan Laxness.*
   Á meðan dvöl hans í klaustrinu stóð gaf hann sig undir þá klausturgráðu sem á íslenska tungu nefnist því virðulega nafni heimsmunkur. Sagt er að hann sé neðsta þrep klausturlifnaðar. Og hefi ég heyrt að hinir svonefndu heimsmunkar skeri sig einkum frá öðrum lifandi verum með því að klæðast sérstakri tegund nærbuxna. En um þetta skref sitt hefir Laxness alltaf verið þögull á landi voru.
   Er Laxness var kominn heim úr klaustrinu var hann orðinn ofstækisfullur katólikki. Í hugarfylgsnum hans var katólskan eins og fastastjarna og í kringum hana þeyttust í eilífri hringrás öll hans sjónarmið og hugmyndir. Alheimurinn breyttist í handfylli af frumstæðum einfaldleika þar sem hverja ráðgátu var hægt að leysa með tilvitnun í eitthvert stórasannleiksrit „hinnar heilögu kirkju“. Lofandi nafn „hins heilaga föður“ hverfðist rödd hans í hátíðlega aðdáun. Á veggnum yfir rúmi sínu geymdi hann stórt talnaband og samkvæmt því taldi hann bænir sínar í guðrækilegri upphafningu á hverjum morgni, á hverju hádegi og á hverju kvöldi. Með lokuðum augum leitaðist hann við að beina innri sjón sinni til Golgata, útmálandi skýrlega fyrir sér sverðs- og naglaförin á blessuðu holdi hins krossfesta Krists, vitaskuld ekki samt án þess að leiða hugann að hinu hversdagslega þjóðfélagi sem hékk beggja vegna við vorn göfuga frelsara. Í annan stað beindi hann kröftum sínum að því að telja skref „hinnar heilögu meyjar“, reynandi að sjá hana fyrir sér gangandi í kvöldhúminu að baki Olíufjallsins til fundar við einhvern „Heilagan anda“. Og stundum stökk hann fram úr rúminu snemma morguns og hljóp í katólsku kirkjuna til þess að úthella bænum sínum af ástríðu, knéfallandi í djúpri iðaran og auðmýkt. Og á fastandi maga smakka á hinu ljúffenga holdi Krists.
   Í slíku ástandi lifði Laxness í nokkur ár. Það gefur augaleið að slíkur heittrúarmaður hefir notið mikillar hylli hjá hinum katólsku prestum í Reykjavík. Og jafnvel allir katólikkar landsins – sem reyndar eru fáir og ekki um of þrúgaðir af hinni æðri visku – litu á hann sem rísandi stjörnu á hinum katólska himni. Þessi aðdáun varð þó blandin nokkurri tortryggni þegar sá orðrómur læddist um borgina að einhver „sveitastúlka í meydómi“ hefði alið honum barn í Danmörku.
   Einhverju sinni, rétt eftir trúskipti sín, dvaldi Laxness nokkurn tíma í Kaupmannahöfn. Þá bjó hann hjá íslenskum hjónum sem ég þekkti vel. Á meðan á dvöl hans þar stóð vanrækti hann að taka sakramentið í nokkrar vikur. Vegna þessa virtist hann verða órólegur og kvartaði hann oft um þessa léttúð sína. Til þess að fá sakramentið varð hann að fara í kirkjuna að morgunlagi. En hann var morgunsvæfur og því bað hann húsbóndann að vekja sig þegar hann færi til vinnu sinnar. Húsbóndinn gerði það en Laxness sofnaði aftur. Að lokum fékk hann þó svo óþolandi samviskubit að húsbóndanum tókst að reka hann fram úr rúminu. Og Laxness bjó sig nú undir guðsþjónustuna. Áður en hann fór af stað bauð húsfreyja honum morgunkaffi eins og venjulega. Laxness svaraði: „Ertu frá þér? Ég má ekkert smakka áður en ég nýt hinnar helgu máltíðar“. Að svo búnu fór hann út. En eftir skamma stund kom hann aftur. Hálffelmtruð spurði húsfreyjan: „Hvað kom fyrir? Ertu strax búinn að taka sakramentið?“ „Heldurðu ekki“, svaraði Laxness, „að helvítis presturinn hafi verið farinn frá altarinu þegar ég kom.“
   Þessa sögu sagði húsfreyjan mér sjálf fyrir nokkrum árum og lýsir hún vel hugarástandi Laxness um þessar mundir.
   Nú víkur sögu minni að öðrum herramanni.
   Í afskekktum dal skammt frá vesturströnd Íslands er gamalt bóndabýli nefnt Bessatunga. Þar bjó fyrir níu hundruð árum frægur berserkur, kallaður Bersi eða Hólmgöngu-Bersi eða Bersi skáld. Í fornum bókmenntum vorum segir frá skemmtilegu atviki úr ævi hans.
   Er Bersi var orðinn gamall varð hann að liggja í rekkju sakir hrumleika. Þá var í Bessatungu smádrengur sem nefndist Halldór Ólafsson. Dag einn, er heimamenn í Bessatungu voru að vinna á engjum, varð Bersi einn að gæta piltsins heima á bænum. Þarna lá Bersi í rekkju sinni máttlaus af elli en drengurinn í vöggu vanmátta sakir æsku. Allt í einu féll drengsnáðinn út úr vöggunni á gólfið. Gat Bersi hvergi hjálpað honum. Mælti Bersi þá fram þessa vísu sem þekkt er í  bókmenntum vorum. Er hún markviss tjáning á óumflýjanlegum örlögum, eins einföld og hugsast getur:
 
                        Liggjum báðir
                        í lamasessi,
                        Halldór og ek,
                        höfum engi þrek.
                        Veldur elli mér
                        en æska þér,
                        þess batnar þér
                        en þeygi mér.
 
   Nálægt Bessatungu er bær nefndur Hvítidalur. Þar átti heima fyrir nokkrum árum ungur maður, sem nefndist Stefán frá Hvítadal. Hann var gott skáld og óþreytandi ástamaður. Ölkær var hann einnig. Áður hafði hann verið tvö ár í Noregi. Þar hafði hann verið sleginn alvarlegri tæringu og eftir nokkurra mánaða dvöl á heilsuhæli var hann sendur til Íslands sem ólæknandi dauðans matur. Þetta var árið 1914. En þegar Stefán kom heim til fósturforeldra sinna í Hvítadal skánaði heilsa hans skyndilega og eftir nokkurn tíma gat hann á ný byrjað sitt fyrra líferni.
   Sumarið 1917 kom ung stúlka að Hvítadal til að sauma föt. Ekki var hún fögur en eftir æfðum smekk Stefáns þrýstin og fagursköpuð. Stefán varð ástfanginn af henni og árið eftir giftu þau sig og fóru að hokra á jarðarskika sem faðir eiginkonunnar átti. En þaðan urðu þau á brott eftir skamma dvöl. Þá tóku þau á leigu kot eitt þar í grenndinni og var nafn þess táknrænt fyrir efnalegar ástæður þeirra. Það nefndist Kross. Og þarna bjuggu þau við skínandi fátækt í nokkur ár.
   Þá freistaði áreitið eðli skáldsins hans til að snúa alþekktu íslensku sorgarljóði í versta háð. Ljóð þetta hafði verið ort fyrir mörgum árum af hinu nafnkunna skáldi, Matthíasi Jochumssyni, um dáinn höfðingsmann, stórbónda og kammerráð, forríkan og drambsaman. Afkomendur kammerráðsins bjuggu ennþá á sama stórbýlinu í nágrenni Stefáns og þeir höfðu leigt honum kotið. Hið upprunalega ljóð Matthíasar hafði verið samið að bón ættingja hins dána og gegn gjaldi. Það var hástemmd, andlaus lofgerð um kammerráðið og þess fræga bæ. Samt hafði ljóðið alltaf verið stolt fjölskyldunnar. En skopstæling Stefáns var vægðarlaust háð um úrætting og niðurlæging afkomendanna þar sem hverju lofsyrði Matthíasar hafði verið snúið í andhverfu sína.
   Þegar fjölskylda sveitarhöfðingjans heyrði hina blygðunarlausu skopstælingu Stefáns varð hún svo sjóðandi reið að hún rak skáldið burt af kotinu. Og varð Stefán þá landlaus og búlaus. Í þessum vandræðum tókst honum að fá lánaða peninga hjá ríkinu til að kaupa býlið Bessatungu sem þá var á lausu. En þegar hann síðar varð að borga af láninu til ríkisins hafði hann engin úrræði til að standa við skuldbindingar sínar. Eftir að hafa hlýtt á kvartanir hans vorkenndu landsfeðurnir hinu örbjarga skáldi og leigðu honum býlið án endurgjalds. Þarna hefir Stefán búið síðasta áratuginn og á hverju ári hefir vor örláti himneski faðir af sinni óendanlegu gæsku gefið honum eitt til tvö börn.
   Veturinn 1924 var Stefán mjög einmana þar sem hann hafði ekki ennþá komist í samband við lífsbrunna hins absolúta þótt samband hans við öllu jarðneskari lífsbrunna í nágrenninu veittu honum mörg ánægjuleg augnablik. Til þess að létta dálítið af fargi hinna þungu vetrarnótta las hann nú spjaldanna á milli sögur hinna fornu katólsku biskupa á Íslandi. – En nú stóðu mál hans svo að þáverandi sóknarprestur Stefáns hafði skömmu áður ekki tjáð sig nægilega lofsamlega um Stefán og skáldskap hans. Vegna þessa hafði Stefán þrútnað svo af vondum hugsunum til prestlingsins að hann hætti að sækja messur hjá honum. En eins og allir miklir egoistar nægði honum ekki að ávaxta eignir sínar á jörðinni heldur vildi hann einnig tryggja sínar andlegu reytur á himnum. Stefán er í eðli sínu trúhneigður og fær sú hvöt einkum greiða útrás þegar hann óttast um sitt eigið líf. Og þar sem hann er ekki djúpur hugsuður þá finna grófar trúarsetningar frjórri jarðveg í sál hans en viturlegar hugmyndir.
   Hatrið á prestlingnum auðveldaði Stefáni að dá og tilbiðja hina fornu biskupa og katólsku presta. Vitaskuld voru þeir miklu betri menn en þessi viðbjóðslegi froðusnakkur lúterskrar villutrúar. Og hatur hans á þessum eina prestlingi færðist yfir á alla skoðanabræður hans á vorum tímum.
   Tilbeiðsla Stefáns á þessum geistlegu mönnum komst að lokum á það stig að hann samdi langt kvæði, 60 erindi, um hina fornu kirkju og presta hennar. Í heild var kvæðið klígjulegur samsetningur, gersneytt öllu skáldskapargildi. Það var öfgakennt, blint lof um ímyndaðar dyggðir hinnar fornu kirkju og klerkdóms, blandað ruddalegu níði um núverandi presta og skreytt með ástríðufullum áköllum til Guðs um stranga hefnd yfir þessu þrjóska syndarasafni sem saurgar hans heilaga hús. Litið var framhjá öllum misgjörðum hinnar fornu kirkju og kennidóms. Og í þokkabót skorti kvæðið algerlega alla trúarlega hrifningu. Eini kostur þessa verks var rímfimin.
   Þótt kvæðið snerist um katólska kirkju og kennidóm var það í rauninni ekki katólskt kvæði. Það skorti meira að segja alveg katólskan anda. Það fjallaði aðeins um hina fornu kirkju og klerkastétt sem skarpa andstæðu við núverandi glæpamenn kirkjunnar. En lúterska kirkjan í landi voru er orðin æði gömul því að seinasti verjandi hinnar katólsku kirkju var hálshöggvinn af dönskum ofstækismönnum ásamt tveim sonum sínum árið 1550.
   Í febrúar eða mars á fyrrnefndum vetri kom Stefán til Reykjavíkur með ljóð sitt. Hann las það fyrir nokkra vini sína. Og meðal áheyrendanna var Laxness sem þá var hvað  trylltastur í katólskubrjálæði sínu. Eftir að hafa hlýtt á ljóðið sagði Laxness við skáldið. Hér hefir þú ort stórfenglegt katólskt kvæði. Nú skulum við fara til katólsku prestanna og sýna þeim verk þitt.
   Þessi dómur fékk Stefáni vissulega óvæntrar undrunar. Til þessa hafði ekki hvarflað að honum að ljóðið væri katólskt. Auk þess kitluðu orð Laxness hégómagirnd hans þægilega og þeir gengu saman til fundar við hið heilaga kyn.
   Prestarnir tóku Stefáni eins og hungraður hákarl drukknandi ógæfumanni. Vegna frægðar hans og fullkominnar vöntunar sinnar á ljóðrænum smekk sáu þeir í kvæði hans áróður fyrir framgangi hins heilaga glæpafélags, bara ef menn segðu við almenning að verkið snerist um katólska kirkju. Auðvitað þurfti jafn trúhneigð persóna og Stefán ekki að eyða mikilli orku í að gleyma að fyrir nokkrum klukkustundum hafði verk hans einungis fjallað um hina fornu kristnu kirkju.
   Nokkru seinna var kvæðið gefið út í viðhafnarútgáfu eins og gamlar sálmabækur og prentað með gotnesku letri svo að allt pródúktið liti jafn fornlega og afturhaldslega út eins og innihaldið. Það var einnig þýtt á latínu (og ef til vill einnig á frönsku?), og skáldið fékk þakkarbréf frá von Rossum kardínála, skrifað með hans eigin hendi, sem er, að sögn, heiður sem aðeins hlotnast fremstu mikilmennum heimsins. Hin prentaða bók bar nafnið: Heilög kirkja.
   En ekki hafði Laxness með þessu lokið því góðverki sínu að bjarga sál Stefáns. Nú   byrjaði hann með hjálp prestanna að snúa skáldinu til játningar við katólska trú. Stefán var fátækur en nægilega skynsamur til að koma auga á nýjan möguleika á efnahagssviðinu undir verndarvæng „hinnar heilögu móður“. Auk þess var hann ekki tengdur neins konar heimssýn, hvorki nokkurs konar trúarvissu né neinum siðferðisgildum. Og Laxness ýtti undir hégómleika hans með rómantískum lygisögum um fræga rithöfunda, listamenn og skáld sem flúið höfðu frá menningarsnauðri lúterstrúnni á vit aðalborinna árnaðarmanna Drottins.
   Næsta sumar sat skáldið frá Hvítadal við hlið katólsku prestanna í Reykjavík tileinkandi sér fræði „hinnar heilögu kirkju“. Einn rigningarsunnudag í septembermánuði streymdi fjöldi manns í katólsku kirkjuna. Laugardaginn áður höfðu dagblöðin tilkynnt að þennan sunnudag yrði Stefán fermdur í kirkjunni og í huga hins áhrifagjarna almennings vaknaði ómótstæðileg forvitni að verða vitni að þessum æsandi atburði.
   Kirkjan var troðfull. Trúarlegt sjónarspilið leið í miklum hátíðleika. Hið þrjátíu og átta ára gamla fermingarbarn kraup á kné, leitaðist við að sýna djúpa iðrun, baðst fyrir og renndi niður heilögum líkama hins krossfesta meðan presturinn svalg hans blessaða blóð. Og fyrir skáldlegum sjónum hans svifu naktar meyjar sem stigu niður af himnum til að minna hann á framtíðarmöguleika sína í ríki útvaldra. En einhvers staðar í nánd var Laxness í óbeislaðri trúarupphafningu sem skírnarvottur skáldsins.
   Eftir þessa helgiathöfn í kirkjunni, beið gömul katólsk kennslukona skáldsins á tröppunum. Þegar hann gekk út úr dyrunum greip hún hönd hans og hrópaði í trúarhita:
„Nú finn ég í fyrsta skipti að ég hefi eignast sannan trúbróður.“ – En því miður var hún orðin of gömul.
   Stefán dvaldist í Reykjavík þar til einhvern tímann í október eða nóvember. Hann hafði ókeypis húsnæði í húsi katólska trúboðsins og hann borðaði við sama borð og prestarnir. En þrátt fyrir þetta göfuga samfélag og umvendingu trúarinnar fann hans innri náttúra brátt leiðina að eigin uppruna. Eftir ferminguna reikaði hann dag eftir dag ölvaður um götur borgarinnar. En ekkert augnablik var Stefán svo drukkinn að hann gleymdi þörfum kvenkynsins.
   Seinasta kvöldið sem Stefán dvaldi í borginni kom skáldið drukkið að borðinu eins og oft áður. Þá gleymdi hin kristilega þolinmæði æðsta prestsins að lokum fordæmi meistarans og hann ávarpaði skáldið með alvöruþunga í röddinni: „Það er afskaplega óviðeigandi, að þú, nýfermdur, látir sjá þig hér svo drukkinn dag eftir dag.“
   Skáldið svaraði: „Ó, sé ég ekki frjáls að lifa eftir eðli mínu, þá getur katólska kirkjan farið í rass og rófu og þá mun ég með glöðu geði segja skilið við hana. Hingað til hefi ég oftast getað komist af án presta og kirkna.“ Og með það sama dró hann upp úr vösum sínum ýmsa hluti sem æðsti presturinn hafði gefið honum, þar á meðal gamla klukku, kastaði þeim á borðið og stormaði út.
   Þaðan skjögraði hann til gamals vinar síns sem bjó þar í nágrenninu. Og þar sofnaði hann. Nokkru seinna kom ég í húsið. Og þegar hann heyrði rödd mína í öðru herbergi, kallaði skáldið á mig og sagði mér alla söguna af viðskiptum sínum við prestinn. Meðan á þeirri frásögn stóð ýmist skellti hann upp úr eða romsaði upp úr sér löngum bölbænaþulum og ógnunum. Hann fordæmdi kröftuglega katólsku kirkjuna. Og hann óskaði öllum katólsku prestum til svartasta helvítis. Og hann sór að allt hið katólska skrímsli skyldi verða að auðmýkja sig fyrir sér. Ég gat ekki annað en brosað.
   Þegar sjónleikur þessi var að ná hámarki stikaði Laxness inn í herbergið. Hann var alvarlegur, hátíðlegur og virðulegur eins og gamall storkur. Þegar hann sá skáldið liggjandi á útslitnum dívaninum, berjandi báðum höndum í allar heimsins áttir, bölvandi katólsku prestunum og „hinni heilögu kirkju“ saurgaðri af foræði hinna djöfullegu freistinga, setti hann upp einstaklega hátíðlegan vorkunnarsvip og mælti skipandi röddu: „Nú förum við báðir tafarlaust til æðsta prestsins og þú biður hann fyrirgefningar!“
   „Ég að biðja fyrirgefningar, he, he, he, djöfullinn hafi það!“ hrópaði hið æruverðuga skáld. „Fyrirgefningar bið ég aldrei.“ Þá útmálaði Laxness fyrir hans hálfdrukknu meðvitund hvílíkur skandali hegðun hans væri fyrir „hina heilögu kirkju“ og í hvílíka hættu hann legði framtíðarvelferð sína með slíku háttalagi.
   Þessi „framtíðarvelferð“ laust skáldið eins og rafstraumur. Og nú hófst mikil innri barátta hjá honum. Það var barátta milli mannlegrar reisnar og hundseðlisins. En þessi barátta tók skjótan endi. Eftir nokkrar mínútur vann skepnan sigur á manninum. Og yfir sál skáldsins breiddist aftur hinn guðdómlegi friður úrkynjunarinnar. Hann lét undan fyrirskipun Laxness og um kvöldið fóru þeir báðir saman til æðsta prestsins. Stefán baðst afsökunar og endurheimti sitt gamla drasl. Síðan hélt hann heim til sín með mótorbát. Og börn hans héldu áfram að koma í heiminn og með hverju nýju eintaki tók einhver af hinni heilögu ætt sér ferð á hendur yfir höf og lönd til þess að umbreyta barni hinnar fornu Evu í erfingja í unaðslegu samfélagi hinnar sigrihrósandi kirkju.
 
   Jörðin snerist áfram í sínu tóma rúmi án þess að nokkrir þeir atburðir gerðust sem yllu kaflaskilum í sögunni þangað til undir árslokin 1924. Þá gaf ég út bók sem bar það yfirlætislausa nafn Bréf til Láru. Bók þessi fjallaði um ýmis mikilvæg vandamál lífsins. Meðal annars helgaði ég kirkjunni langan kafla þar sem ég fjallaði um hana og notkun trúarinnar í alþjóðlegu samhengi og einkum þó um katólsku kirkjuna sem alltaf hefir verið voldugasti og glæpsamlegasti óvinur frelsisbaráttu sérhvers samfélags og einstaklings. Aðalheimild mín að þessum kafla var hin góða  bók Uptons Sinclair: Profits of religion. (Lestu hana!) Verk mitt vakti talsverðan storm. Hjá sumum vakti hún aðdáun. Hjá öðrum vakti hún vandlætingu einkum í röðum hinna afturhaldssömu og trúuðu sem alltaf hafa verið tvær hliðar á sama skrímslinu.
   Hjá engum hitti kirkjukaflinn samt jafn auman blett og á katólsku prestunum í Reykjavík. Til þess að reyna að breiða aftur yfir mínar sönnu afhjúpanir hvöttu hinir hræsnisfullu þjónar kirkjunnar herra Laxness til að halda opinberan fyrirlestur gegn gagnrýni minni á katólsku kirkjuna. Laxness gerði það með glöðu geði, ekki einungis vegna trúarlegrar sannfæringar heldur einnig vegna peningaþóknunar sem æðsti presturinn stakk upp á við hann. Síðan var fyrirlestur hans gefinn út í bók. Hún nefndist Katólsk viðhorf. Ritsmíðin var mjög ljóðræn, skrifuð í hástemmdum og mærðarlegum stíl. En þeim mun lausari var hún við allar skynsamlegar röksemdir. Hún var sambland af ljóðrænu spjalli og sögufölsunum.
   Nú leið tíminn í úrkynjuðu samræmi þangað til veturinn 1927. Þá gaf Laxness út sína þriðju skáldsögu, Vefarann mikla frá Kasmír. Þessi bók hafði nokkuð byltingarkennt yfirbragð. Í augum hræsnisfullra vanaþræla – og það eru flestir – varð bókin illræmd og ógnvekjandi. Þeir fordæmdu hana vegna skorts á einlægni, ruddalegrar framsetningar, siðleysis, hégómlegrar sóknar eftir frumleika og auðvirðilegra skoðuna sem þó tilheyrðu frumleika síðustu aldar. Setningar eins og: „Konan er einungis vél til að ala börn“ setti hina nærsýnu vanaþræla algjörlega úr jafnvægi, hverra andleg áhugamál hefjast við matborðið og enda í rúminu. Allur þorri fólks leit á hinn guðhrædda rithöfund sem oflátung, dóna, siðleysingja, dyggðasnauðan fant, svallara og jafnvel kynvilling. Og menn sögðu að eftir þetta afreksverk hlyti þessi guðhræddi rithöfundur að verða settur út af hinu heilaga sakramenti.
 
   Ástríðufyllsti stjórnmálamaður okkar á þessum tíma var herramaður að nafni Jónas Jónsson frá Hriflu. Áður hafði hann verið kennari við kennaraskóla í Reykjavík. Þá tengdist hann verkalýðshreyfingunni, og stóð eitt sinn fyrir miklu sjómannaverkfalli í Reykjavík ásamt öðrum verkalýðsforingjum. Áhugi hans á pólitík og ýmsum þjóðfélagsmálum tók æ meira af kröftum hans uns hann að lokum hætti kennslu. Þá hafði hann algerlega sagt skilið við verkalýðshreyfinguna. Um 1918[2] stofnaði hann nýjan pólitískan flokk ásamt nokkrum vinum sínum. Hlaut hann nafnið „Framsóknarflokkurinn“.
   Framsóknarflokkurinn átti og á fylgi sitt aðallega meðal miðlungi efnaðra og að hluta fátækra bænda. Hann grundvallast á þeirri meginhugmynd að sveitamenn eigi að vera leiðandi afl á efnahagslegu og menningarlegu sviði og leysast úr ánauð á kostnað borganna, þrátt fyrir þá staðreynd að meira en helmingur Íslendinga býr í borgum eða, eftir þinni mælistiku, í smáborgum. Þessu markmiði hyggst flokkurinn ná með:
1) aukningu ríkisstyrkja til jarðræktar og húsbygginga á sveitabæjum;
2) samvinnuverslun bænda;
3) fjölgun alþýðuskóla í sveitum og
4) varðveislu forneskjulegs og mjög óréttláts kosningakerfis sem tryggja skuli flokknum meirihluta á þinginu.
   Í raun líta afleiðingar þessarar pólitísku stefnu þannig út:
   Ríkisstyrkirnir til jarðræktar og bygginga á sveitabæjum eru svo litlir, bornir saman við þarfirnar, og þeim útdeilt á svo óhagkvæman og vanhugsaðan hátt öndvert við þróun nútíma þjóðfélags, að þeir urðu hinum illa stöddu bændum til lítillar hjálpar og út frá sósíalísku sjónarmiði spilla þeir fyrir eðlilegum framförum í landbúnaði.
   Samvinnuverslunin hefir tekið nokkrum framförum en þrátt fyrir það virðist efnahagur bænda stöðugt fara versnandi.
   Nokkrir nýir alþýðuskólar hafa verið reistir en það hefir verið svo vanhugsað og skipulagslaust að sumir þeirra standa næstum tómir allan skólatímann. Aðalmarkmið þeirra var að stöðva fólksstrauminn úr sveitunum til borganna. En til þess eru þeir algerlega ófærir því að flutningur sveitamanna til borga stafar af efnahagslegum orsökum en ekki af menntunarskorti.
   Aftur á móti hefir flokknum hingað til tekist að varðveita hið óréttláta kosningakerfi.
   Milli sveitamanna og borgarbúa hefir Framsóknarflokkurinn skapað fjandsamlegt viðhorf sem einhvern tímann getur skapað alvarlegar aðstæður.
Þegar allt kemur til alls er pólitík Framsóknarflokksins smáborgaraleg og forneskjuleg. Hana skortir fullkomlega allan skilning á þeirri andlegu og félagslegu þróun sem nú á sér stað í heiminum. Öll hugmyndafræði þessa pólitíska skrímslis byggir á andlegum og efnahagslegum aðstæðum sem voru við lýði fyrir hálfri öld. Að vissu leyti er hann ennþá afturhaldssamari en Íhaldsflokkurinn. Í rauninni má þó segja að það eina sem skilur þessa andstæðinga að sé gagnkvæm öfund og persónuleg óvild. Og þessar mórölsku dyggðir eiga sér rætur í taumlausri valdagræðgi beggja. En í engu því sem máli skiptir verða þeir greindir hvor frá öðrum. Samt, svo fyllstu sanngirni sé gætt, er rétt að bæta því við, að Framsóknarflokkurinn er nokkru hliðhollari menntamálum og menningarmálum heldur en Íhaldsflokkurinn sem ennþá stendur á ísaldarstiginu í öllum þeim málum sem ekki færa atvinnurekendum persónulegan gróða.
Jónas frá Hriflu hefir alltaf verið meginleiðtogi Framsóknarflokksins. Sá herramaður er fullur ákafa og atorkusemi. Hann er einnig vel gefinn. En gáfur hans eru of spilltar. Á efnahagssviðinu er hann gagnslítill. Og hann ber ekkert skyn á hinn dýpri eða háleitari hugsunarhátt, svo sem vísindi, sálfræði, heimspeki og andleg málefni. Þess vegna virðist hann ekki hafa snefil af skilningi á lífinu í þess dýpri eða víðari merkingu. Hugsunarháttur hans er í hæsta máta hversdagslegur.
   Vegna alls þessa skortir hann vísindalegan og heimspekilegan grundvöll, sem er bráðnauðsynlegur sérhverjum stjórnmálamanni til þess að ljá starfi hans dýpt, skýrleika, rökvísi, stefnufestu og stöðugleika. En þessir eiginleikar finnast ekki hjá Jónasi. Vegna þessa er pólitískt og þjóðfélagslegt starf hans ruglingslegt, reiðuleysishálfkák án nokkurs skýrs markmiðs og slitið úr tengslum við þróun hinna félagslegu krafta. Þessir annmarkar há honum einnig vegna þeirrar staðreyndar að hann verður alltaf að hugsa og hegða sér eins og þræll á eilífri skerjaþræðingu milli duttlungafullra afla því flokkur hans samanstendur einkum af andlegum vesalingum, stefnulausum og huglausum, án nokkurs pólitísks markmiðs eða skilnings á þjóðfélaginu, sem væru hvenær sem er tilbúnir að svíkja meistara sinn fremur en þola ákúrur frá sínum skammsýnu kjósendum.
   Jónas er leiðinlegur siðapostuli, íhaldssamur og þröngsýnn í viðhorfum sínum til mannlegrar breytni. En hið siðferðilega viðhorf hans til lífsins grundvallast ekki á röklegum skilningi heldur er það sprottið af eigingjörnum tilfinningum sem stafa af ofmati á eigin hæfileikum. Sé slíku geðslagi ekki stjórnað af nægilegri skynsemi og góðvilja, leiðir það til ofstækis og ofsóknaræðis. Hjá Jónast tók það slíka stefnu. Hann hefir sterka tilhneigingu til ofstækis sem sprottið er af þröngsýni, ofsóknaræðis og vanmats á öllum nema sjálfum sér.
   Faðir Jónasar var fátækur bóndi, sem ekki hafði ráð á að kosta son sinn til háskólanáms. Trúlega hefir það vakið öfund í drambsfullu geði Jónasar í garð manna með háskólapróf sem svo þróaðist hjá honum í sálarflækju sem birtist í valdagræðgi og einræðisáráttu og ofsóknaræði gegn andstæðingum hans. Sagt er að hann hafi einu sinni verið hugsjónamaður. En sú sjaldgæfa dyggð, hafi hún einhvern tímann fest raunverulegar rætur hjá honum,  virðist nú hafa breyst í drottnunargirnd og valdagræðgi. Á kennsluárum sínum hafði hann áhuga á kennslumálum og samdi hann þá skemmtilegar kennslubækur. En þessir hæfileikar hafa einnig staðnað fullkomlega vegna hinnar smáborgaralegu refskákar hans í pólitík.
   Jónas hefir talsverða rithöfundarhæfileika. En þessir hæfileikar hans eru takmarkaðir. Framsetning hans er oft ónákvæm, röksemdafærslur hans oft ótrúverðugar, oft rofnar af kjaftasögum og persónulegum móðgunum eða rógi um andstæðinga hans. Einu sinni hafði hafði hann til dæmis heyrt að einn andstæðinga hans hefði stolið klukku þegar hann var ungur drengur. Og að þessari löngu gleymdu smáyfirsjón vék hann í ritdeilugrein í dagblaði sem hann skrifaði gegn manni þessum sem þá var gamall orðinn. Það er einmitt vegna þessara siðferðilegu vankanta sem Jónas er hataðastur manna á landi hér.
   Vinum sínum og fylgismönnum er Jónas trölltryggur og hjálpsamur hvað sem þá hendir en í andstæðingum sínum sér hann venjulega aðeins ódugnað eða þorparaskap og gegn þeim er hann ókvalráður í ofsóknaræði sínu og hefnigirni. Á hinn bóginn getur hann verið fljótur að fyrirgefa og hjálpsamur við fyrri andstæðinga ef þeir beygja sig undir vilja hans.
   Jónas notar hvert tækifæri til að múta með ýmsu móti hverju því pólitísku afli sem hægt er að kaupa í landi voru, og á Íslandi eru þeir fleiri sem þarfnast peninga en dyggða. Þess vegna hafa safnast í kringum Jónas hersveitir efnalegra vesalinga, sem smjaðra fyrir honum og dá hann eins og Guð. Og þeir njósna alls staðar fyrir hann og hvísla að honum hverri þeirri kjaftasögu sem þeim tekst að grafa upp um andstæðinga hans. Vegna þessa kann Jónas fleiri hneykslissögur heldur en reyndustu kjaftakerlingar. Og hann er reiðubúinn að nýta sér öll meðul til þess að ná sínu göfuga pólitíska markmiði.
   Auðvitað á Jónas ýmsar góðar hliðar, sem ég hefi ekki lýst hér, því að ég þekki þær ekki eins vel og hina slæmu eiginleika hans. Og eins og menn verða að gæta sín í lastmælum sínum, það hefir reynslan kennt mér, svo verða menn einnig að vera sparir á lofsyrði, því að dagurinn sem hulunni verður svipt af hverri blekkingu vofir yfir okkur eins og flugbeitt sverð. Persónulega þekki ég herra Jónas mjög lítið og þau kynni eru afar yfirborðsleg. Lýsing mín hér að framan byggir að mestu á framgangi hans á opinberum vettvangi. Og sú lýsing verður að duga sem lykill að eftirfarandi atburðum.
 
   Þegar Vefarinn mikli frá Kasmír kom út skrifaði Jónas stutta klausu um bókina í aðalmálgagn flokks síns, þótt hann segði reyndar síðar frá því undir fjögur augu að þá hefði hann ekki verið búinn að lesa bókina. Í þessari klausu titlaði hann höfundinn „rithöfund ríkisstjórnarinnar“, en Íhaldsflokkurinn fór þá með völd. Dómur þessi byggði á því sem kallað var siðleysi bókarinnar og átti að skiljast sem hittin fordæming á höfundinum, því að samkvæmt siðferðishugmyndum Jónasar var þáverandi ríkisstjórn, eins og reyndar flestir höfuðandstæðingar hans, siðlausar skepnur. En hin rétta ástæða fyrir klausunni, var sá grunur Jónasar að Laxness hallaðist að lífsskilningi íhaldsins. Hefði hann hallast að Framsóknarflokknum, hefði bók hans vafalaust hlotið mjög lofsamlega dóma.
   Þessi dómur Jónasar reytti hinn viðkvæma höfund svo rækilega til reiði að í hefndarskyni gaf hann hinum pólitíska siðapostula í blaðagrein viðurnefnið „geðvond kjaftakerling“. Og þar með upphófst gagnkvæm óvinátta milli þessara stórmenna.
 
   Einn fagran sunnudag vorið 1927 var ég að spássera við höfnina í Reykjavík. Á einni bryggjunni hitti ég unga eiginkonu sem þá var reyndar í þann veginn að skilja við mann sinn.[3] Sjá mátti að henni fannst hún vera einmana. Og þar sem ég var vel kunnugur þessari frú, ávarpaði ég hana og spurði: „Hvers vegna ertu svona hnuggin?“ „Ó“, svaraði hún, „Laxness er farinn til Ameríku!“ Þetta skildi ég reyndar og ég vissi líka að Laxness var á leiðinni til Kanada.
   Í Kanada dvaldi hann nokkra mánuði meðal Íslendinga. En í hinu barnalega trúar- og klíkuandrúmslofti, sem gert hafði marga Íslendinga í Kanada hálfvitlausa, þótti mönnum Laxness óþolandi vegna hégómaskapar, óstýrilætis í skoðunum og ekki síst þó vegna fátæktar hans. Að lokum hélt Laxness til Kaliforníu til að leita fyrir sér sem handritshöfundur í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood. En það heppnaðist ekki. Í Kaliforníu eyddi hann samt tveim árum við afar þröngan kost.
   Þökk sé hinni vonlausu baráttu hans undir járnhæl ameríska kapítalismans og ekki þó síður þrá hans eftir aðdáun og vegsömun, þá þótti honum nú byltingarsinnað hugarástand fremur í samræmi við anda tímans en ilmsmurðar guðsþjónustur katólskunnar. Þess vegna gerðist hann nú eldrauður sósíalisti og yfirgaf „hina heilögu kirkju“. Guð og líf eftir dauðann urðu skyndilega sviksamlegar uppfinningar hinna ágjörnu kapítalista til þess að svæfa stéttarvitund öreiganna. Og hann brennimerkti nú sérhvern trúboða, dulspeking og launhelgamann sem blyðgðunarlausan lygara, svikara og lýðskrumara.
   Á meðan Laxness dvaldi í Kaliforníu skrifaðist hann á við unga stúlku í Reykjavík. Hún var af nokkuð háum stigum þar sem faðir hennar var prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Þegar hann var orðinn langþreyttur á gengisleysi sínu í Hollywood og eilífum fjárhagskröggum tóku bréfaskiptin svo alvarlega stefnu að hann bað stúlkunnar, sem, að því er hann sagði þá „tilheyrði reyndar velmegandi og menntaðri fjölskyldu“. Reyndar skorti Laxness allar efnalegar forsendur til að stofna heimili og til þess að geta talist nægilega frambærilegur eiginmaður stúlku af slíkri stétt. Og það skildi hann.
   En þá kom hjálpin eins og regn eftir langvarandi þurrkatíð. Sumarið 1927 var kosið til alþingis á Íslandi. Þá fékk Framsóknarflokkurinn svo marga þingmenn að á þinginu 1928 myndaði hann ríkisstjórn með tilstyrk „hlutleysis“ Alþýðuflokksins. Jónas frá Hriflu varð menntamálaráðherra, og vegna þeirra eiginleika sinna, sem lýst hefir verið hér að framan, gerðist hann í raun valdamestur maður á Íslandi, svo augu allra þeirra sem þorðu að horfa til betri lífskjara, beindust nú að valdastóli hans.
   Fljótlega eftir að Jónas tók við ráðherradómi varð hann sú persóna sem mestur styrr stóð um á öllu landinu. Ekki vantaði tilefnin. Hann rak til dæmis úr embætti einn geðveilan sýslumann. Hann stofnaði tvo nýja alþýðuskóla í sveit. Hann gerði smávægilegar breytingar á nokkrum stofnunum ríkisins. Hann átti frumkvæði að byggingu stórrar sundlaugar sem ennþá bíður hálfgerð vegna peningaleysis. Og til þess að jafna dálítið þau heilsusamlegu áhrif sem hún hefði getað haft gerðist hann nú af stórmennsku sinni hliðhollur drykkjuskap þegnanna til þess að fá aukinn skatt í ríkiskassann. Áður en hann tók við ráðherradómi var hann ofstækisfullur andstæðingur áfengisinnflutnings.
   Yfir þessum stórvirkjum sínum hreyktust Jónas og vildarmenn hans ævinlega og börðu bumbur í flokksblöðunum uns sagan heimsfræga um nýju fötin keisarans endurtók sig fyrir augum hins trúgjarna lýðs, sem gjörsamlega hafði tapað dómgreind sinni eftir þúsund ára kristindóm. Jafnvel meðal hinna kúguðu öreiga hljómaði setningin: „Jónas er þó að minnsta kosti ekki á móti okkur“ eins og alþekkt spakmæli. Þessi barnaskapur skýrðist ekki síst af því að fjórir helstu foringjar Alþýðuflokksins þögðu þunnu hljóði bíðandi eftir uppástungum um að einhvers konar molar hrykkju til þeirra af borði ráðuneytisins. Og þeir þögðu ekki til einskis.
   Með tilkomu Jónasar uppskar einn þeirra ritstjórastól á aðalverkalýðsblaðinu. Með því tryggði ráðuneytið stuðning þess við Framsóknarflokkinn.
   Annar hreppti málafærslustörf hjá ríkinu.
   Þriðji fékk stöðu í bankastjórn Landsbankans.
   Og sá fjórði ummyndaðist einnig í bankastjóra.
   Fregnir af hreystiverkum Jónasar bárust einnig alla leið að ströndum Kyrrahafsins. Þar var að minnsta kosti ein persóna sem af næmi sinni áttaði sig á mikilvægi ráðherrans fyrir framgang bókmenntanna. Sú var Halldór Pétur María Kiljan Laxness. Einnig hann reyndi að grípa tækifærið. Sumarið 1929 skrifaði hann grein í kaliforníska blaðið The Nation um íslenska pólitík. Þar lýsti hann menntamálaráðherranum sem hinu mesta mikilmenni og snjallasta stjórnmálamanni sem öllu stjórnaði og sæi um alla hluti á Íslandi. Að sjálfsögðu fór þetta hefti af The Nation ekki fram hjá ráðherranum.
   Í desember sama ár kom Laxness aftur til Reykjavíkur, útkeyrður af sinni árangurslausu glímu í Kaliforníu. Ekki þurfti hann lengi að bíða á íslenskri grund áður en hann var heiðraður með heimboði í bústað menntamálaráðherrans. Annað slagið fóru þeir saman í útreiðartúra sér til skemmtunar á hestum ríkisins. Og í hvert skipti sem ráðherrann boðaði nýja skóflustungu að einum af alþýðuskólum sínum – því hann er haldinn skóflustunguáráttu – var Laxness kallaður til með öðrum útvöldum til þess að vera viðstaddur hina hátíðlegu stund.
   Um þessar mundir kom út nýtt verk eftir Laxness sem nefndist Alþýðubókin. Ekki gat hún talist mikill viðburður. Hún var að mestu baðstofuhjal um allt og ekkert. Þetta verk Laxness lofaði menntamálaráðherrann mjög þótt það væri að öðrum þræði áróður fyrir sósíalismanum. En líklega hefir ráðherran haldið að áhrif sín á mannúðlega sálarstrengi höfundarins reyndust drýgri en áhrif hinnar óréttlátu þjóðfélagsskipunar. Öll betlihirð ráðherrans söng í kór sama sálminn og hann um Alþýðubókina. Og í staðinn notaði Laxness hvert tækifæri til að úthella ölvaðri aðdáun sinni á ráðherranum sem einstaklega gáfuðu og heillandi snilldarmenni.
   Í febrúar 1930 varð ráðherrann fyrir nýtískulegri árás í Ameríkustíl. Og sá örlagaþrungni atburður færði herra Laxness ennþá nær markmiði sínu.
   Eins og fyrr segir var menntamálaráðherrann þá og er enn hataðasti maður á landinu gervöllu. Um orsök þessa haturs hefi ég skrifað hér að framan. En auk þess hafði hann lengi átt í deilum við íslenska læknafélagið. Og ofsótti hann það og hataði meira en höfuðfjandann sjálfan. Óþarft er að bæta því við að félagið galt líku líkt og fylgdi svipuðum siðareglum í skiptum sínum við ráðherrann.
   Að lokum náði hið gagnkvæma hatur suðumarki. Þá stýrði ungur hámenntaður geðlæknir geðsjúkrahúsi í nágrenni Reykjavíkur. Hann var einn af þeim sem Jónas hafði bundið vonir við. Og litið var á hann sem höfuðsnilling á sínu sviði. Dag einn í febrúarmánuði kom geðlæknirinn óboðinn í heimsókn til ráðherrans sem þá lá veikur með bronkítis. Erindi hans var að láta ráðherrann vita að hann þjáðist af geðsjúkdómi og þarfnaðist hvíldar og leyfis frá hinum annasömu ráðherrastörfum. Og hann fór einnig í þeirri ferð á fund forsætisráðherra og forseta þingsins og skýrði þeim frá erindi sínu.
   Efalaust hafa nokkrir læknar, sem hötuðu ráðherrann skefjalaust, staðið á bakvið þetta skítlega verk. Þeir trúðu í barnaskap sínum að yfirlýsing svo mikilsmetins manns myndi hafa svo sannfærandi áhrif á helstu forkólfa Framsóknarflokksins og skoðanir alls almennings að menntamálaráðherrann hrökklaðist fyrir fullt og allt af sviði stjórnmálanna. Geðlæknirinn var á hinn bóginn með óbilandi sjálfstraust en ekki að sama skapi skynsamur. Einnig virðast hugmyndir hans um mörkin milli andlegrar heilbrigði og sjúkleika hafa verið nokkuð aðrar en þær sem við höfum.
   Upphafsmenn þessa atburðar ákváðu að birta yfirlýsingu geðlæknisins í aðalmálgagni Íhaldsflokksins í þeirri trú að það hefði tilætluð áhrif á forsætisráðherrann og forseta alþingis og aðra framámenn í Framsóknarflokknum.
   En áhrifin urðu þveröfug við það sem upphafsmennirnir höfðu gert ráð fyrir. Forseti þingsins var maður gætinn. Í aðra röndina var hann dálítið snobbaður og veikur fyrir hinum húmorslausu lífsháttum og hugsunargangi ríkisbubba og hástéttarmanna, andstæðinga menntamálaráðherrans. Þess vegna, að því er sagt er, hikaði hann í fyrstu í geðveikismálinu. En forsætisráðherrann sem er hreinlyndari og trúlega hreinskilnari, varð svo reiður við geðlækninn að hann rak hann nánast út úr móttökuherberginu. Og þegar fregnir af þessu ógeðfelda máli spurðust út, olli það mikilli æsingu. Alls staðar eða því sem næst var litið á það sem eitthverja heimskulegustu og svívirðlegustu misgjörð sem nokkurn tímann hefði verið framin í sögu okkar. Til ráðherrans streymdu nú frá öllum flokkum, jafnvel frá Íhaldsflokknum, aragrúi skrifaðra og prentaðra samúðaryfirlýsinga og trúnaðarvottorð um heilsufar hans. Og mjög margir í Alþýðuflokknum voru svo ruglaðir að þeir óskuðu þess í skrifum sínum að þeir mættu sem lengst fá að njóta hinna miklu gáfna ráðherrans. Það jafngilti því að óska þess að framkvæmd sósíalismans yrði frestað í um það bil þrjátíu ár. Og nú loksins hefir sú fáránlega sannfæring fest traustar rætur í þokufullu höfði alþýðunnar að ráðherra menntamála sé ótvírætt ofurmenni. Þökk sé þessari heimskulegu misgjörð geðlæknisins þá fékk nú ráðherrann miklu meira traust og samúð heldur en hann í rauninni verðskuldaði. „Geðveikin“ sveipaði hann álíka dýrðarljóma og fimmta vígslan í hugtakasafni guðspekinnar.
      En hvernig brást ráðherra menntamála við þessu atviki? Hann rak geðlækninn úr starfi þótt hann hefði engan hæfan sérfræðing til að gegna því. Þannig launaði hann heimskupör með heimskupörum. Og allt árið eftir voru blöð Framsóknarflokksins full af blygðunarlausum óhróðri og rógi um geðlækninn ógæfusama. Höfundar þessara skrifa voru ráðherrann sjálfur og gæðingar hans. Þetta voru ekki aðeins endurgreidd högg óbeislaðs hefndarþorsta heldur áttu þau einnig að þjóna sem áróður fyrir ráðherrann og Framsóknarflokkinn. Og á hinn bóginn hnykkluðu blöð Íhaldsflokksins sína smáu andlegu vöðva til að sannfæra alþýðuna um að ráðherra menntamála væri geðbilaður. Allir grunaðir læknar voru teknir til yfirheyrslu að skipun ríkisstjórnarinnar og að því loknu var einum þeirra refsað með stöðumissi.
   Það er kannski dálítið lærdómsríkt að bera viðbrögð ráðherra menntamála saman við viðbrögð annars samtímamanns okkar í ekki síður ósæmilegum aðstæðum. Sá er hinn mikli fræðari Kristnamurti.
   Sumarið 1930 hafði Kristnamurti verið beðinn að koma til Búkarest í Rúmeníu veturinn eftir til þess að halda þar fyrirlestur, og lofaði hann því. Áður en hann lagði af stað til landsins fékk hann hótunarbréf frá nokkrum glæpamönnum innan katólsku kirkjunnar í Rúmeníu. Innihald bréfsins var á þá leið að honum var hótað lífláti ef hann dirfðist að fara inn í landið. Og var leiðtogi þessa fyrirtækis rúmenskur prófessor. Kristnamurti skeytti þessari hótun glæpamannanna engu og fór til Búkarest. Þar flutti hann erindi sitt en var þá stöðugt undir vernd borgarstjórans. Og allt gekk tiltölulega snurðulaust fyrir sig. Nokkrir ofstækisfullir stúdentar voru reyndar með háreysti undir fyrirlestrunum en ljóst var að dráp hans myndi farast fyrir. Þegar hann bjóst til brottfarar úr landi ók borgarstjórinn honum á járnbrautarstöðina. Og þar skildust þeir. En áður en lestin lagði af stað komu nokkrir drengir á vettvang og buðu ferðalöngunum upp á drykk. Kristnamurti þáði eitt glas af drykknum og drakk. En strax eftir að hann hafði drukkið fékk hann mikinn verk og svimaði. Eftir þetta lá hann í rúminu nokkrar vikur mjög veikur. Magi hans hafði nær því orðið ónýtur af eitrinu sem verið hafði í drykknum sem útsendari ofsatrúarmannanna hafði haldið svo ákaft að honum. Og eitrið var þeirrar náttúru að áhrifa þess gætti mjög lengi. Þegar ég sá meistarann í júlí í Ommen, var hann enn laslegur að sjá. Fyrirlestra sína varð hann að flytja sitjandi og hann gat ekkert borðað nema svolítið af hráum ávöxtum.
   En hvernig brást Kristnamurti við þessum glæpsamlega verknaði? Samdi hann kannski langar greinar í málgagn sitt Star Bulletin fullar af ósvífnum óhróðri og rógi um  glæpamenn kirkjunnar? Hvatti hann ef til vill aðdáendur sína til að básúna glæpinn í heimspressunni? Notaði hann máske glæpinn til að beina athygli heimsins að sér og boðskap sínum? Reyndi hann að nýta sér illvirkið til að fjölga í sínum fámenna áhangendahópi? Eða kappkostaði hann að fylkja liði gegn glæpamönnunum til þess að svala hefndarþorstanum?
   Kristnamurti gerði ekki nokkurn skapaðan hlut nema að leggja blátt bann við að skrifaður væri svo mikið sem einn stafur um málið. En ekki reyndist unnt að dylja veikindi hans því þau eyðilögðu vinnuáætlun hans í ýmsum löndum seinni part vetrar og vorið eftir. Og þegar menn spurðust fyrir um heilsufar hans létu vinir hans að því liggja, vafalaust að skipun meistarans, að hann hefði líklega smitast af taugaveiki vegna óheilnæms vatns sem hann hafði drukkið í Rúmeníu. Vegna þessarar viðbáru, sem kæfði hugsanlegt fjaðrafok í fæðingu, mátti Kristnamurti óspart þola háð og spé og jafnvel að meistaralegt kennivald hans væri dregið í efa. Og á síðum heimsblaðanna birtust hæðnislegar upphrópanir eins og „Hafið þið heyrt það! Meistarinn sjálfur gat ekki varið sig gegn taugaveiki“. Þetta minnir mig á aðra eldforna aulafyndni: „Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað.“
Í fyrra sumar lagði ég nokkrar spurningar fyrir hinn einstaklega elskulega Kristnamurti. Í svörum sínum útskýrði hann meðal annars að nokkru leyti sálarástand hins frelsaða manns. Og eitt af þeim skýringardæmum sem hann gaf var: „Það var eitrað fyrir mér en það hafði engin áhrif á andlegt ástand mitt.“ Og nú kem ég að kjarnanum í þessum samanburði: Jónas frá Hriflu brást við. Kristnamurti brást ekki við. Og þessi er hinn eini sanni munur á villimanninum og hinum fullkomna manni.
   Allt geðveikismálið var blint hefndarstríð smámenna gegn smámennum. Í augum almennings var það álíka uppákoma eins og jarðarfarasorg hysterískra kellinga. En fyrir Laxness gaf það einstakt tækifæri til að veita siðferilegan stuðning. Hann samdi grein í aðalmálgagn Framsóknarflokksins um málið. Að öðrum þræði var greinin væmið smjaður og hóflaust lof um ráðherra menntamála, en hins vegar full af af ósiðlegum og smánandi ummælum í garð geðlæknisins í bland við rembilæti vanþekkingarinnar.
   En andstætt öllum væntingum létu launin á sér standa. Mánuður leið eftir mánuð án þess að neins konar embætti félli í hlut Laxness. Á hverjum degi fréttist af nýjum embættum, nýjum embættisveitingum, nýjum stórsigrum í baráttunni um brauðið. Laxness einn fékk ekkert nema einstaka styrki fyrir tilverknað ráðherrans en þeir skiptu ekki miklu máli fyrir örbirgð hans. Og smám saman, eftir því sem dagar brostinna vona þokuðust áfram snerist lof hans um hinn dásamlega ráðherra í varfærnislegt háð sem beindist að hinum hlægilegu hliðum hans hátignar.
   Vorið 1930 gekk Laxness í hjónaband með bréfavinkonu sinni frá Kaliforníuárunum. Og í fyrrahaust fékk hann loksins fast starf við að taka á móti gestum í útvarpsstöðinni í Reykjavík. Það voru laun ráðherra menntamála honum til handa.
   Þú spyrð hvort Laxness sé góður ræðumaður og rökræðusnillingur. Þú gerir ráð fyrir að svo sé út frá skrift hans. En sem ræðumaður er Laxness afar ósnjall og í rökræðum er hann þó ennþá slakari. En hann hefir góða hæfileika til að auglýsa hlutina. Í rauninni er hugsanagangur hans yfirborðslegur og persónuleiki hans allur mjög tilgerðarlegur. En hann hefir listrænar gáfur. Oft sér hann á augnabliki ytri einkenni hlutanna og tekst að lýsa nákvæmlega slíkum skynhrifum. En þess á milli eru oft miklar eyðimerkur þar sem tjáningin er einna líkust blaðri eða mærð. Að mínu viti stafar þetta af ónógri dýpt í hugsun og skorti á einbeitingu hugans. Hann hefir frumlegan stíl en hann er oft of þunglamalegur og óskýr svo að það er engu líkara en hann hafi ekki nægilegt vald á hugsunum sínum og tungu. Hann vinnur hratt og hræsnar af snilld.
   Ennþá er ýmislegt frásagnarvert af mínum gamla vini, Stefáni frá Hvítadal. Hann gefur sig enn að pólitískum málum eins og Laxness. Á tímum hægri stjórnarinnar var hann nátengdur hugsjónum hennar. Fyrir hverjar alþingiskosningar fór hann um kjördæmi sitt rekandi ákafan áróður fyrir frambjóðanda flokksins. Næstsíðasti frambjóðandi flokksins í þessu héraði skrifaði upp á víxla fyrir Stefán og var honum á ýmsan hátt innan handar á Alþingi en sá síðasti var bankastjóri í Reykjavík! Og af öllum sínum ástríðufullu sálarkröftum hataðist Stefán við og formælti öllum öðrum pólitískum flokkum.
   En fyrir síðustu alþingiskosningar, sem voru 1931, hittu örlögin bankastjórann fyrir svo að hann var sviptur stöðu sinni vegna slæmrar stjórnar bankans. Þessar fréttir fóru ekki hljóðlega um garða í Bessatungu. Búast mátti við að Framsóknarflokkurinn ynni nú héraðið. Og í stað þess að hughreysta hinn óheppna frambjóðanda og hjálparmann flúði nú Stefán undir verndarskjöld Framsóknarflokksins, og þar var vel tekið á móti honum. Og hann fór þegar að reka áróður fyrir þeim flokki.  
   Fyrir kosningar heimsóttu forsætisráðherra og ráðherra menntamála kjördæmið þar sem Stefán býr. Og gerðist Stefán trúnaðarráðgjafi þeirra. Margar gildrur voru lagðar fyrir tilvonandi kjósendur og bankastjórann fyrrverandi. Síðskeggjaðir bændurnir voru kysstir og faðmaðir af hinum glæsilegu ráðherrum og mikið var hvískrað um ný bankalán vegna hinna forneskjulegu jarðabóta. Öflugasti andstæðingur Framsóknarflokksins, í þessu héraði var hafinn til enn göfugri sannfæringar og látinn hafa sérstakt vinnuhús fyrir sig og syni sína í þjónustu ríkisins. Þessi vinna stóð reyndar aðeins í tvær vikur. En hinn öflugi bóndi mat sannfæringu sína ekki meira en svo.
   Þessi vinnubrögð leiddu Framsóknarflokkinn til sigurs í kosningunum.
   Í fyrrahaust kom Stefán til Reykjavíkur til þess að grennslast eftir hver laun hans yrðu. Og hið lýriska skáld fór úr borginni allnokkuð við skál sem umsjónarmaður með ríkisvegum í kjördæmi sínu. Fyrri umsjónarmaður, sem tilheyrt hafði hinum sigraða Íhaldsflokki, var látinn taka pokann sinn.
   Stefán hengir sig enn af trúfesti á frelsandi milligöngu hinnar heilögu meyjar, en varðveislu meydóms hennar á katólska kirkjan eingöngu að þakka hinu víðáttumikla tómarúmi milli Bessatungu og Himnaríkis. Hann leggur hatur á herra Laxness. Og hann lítur á sinn forna skírnarvott sem svikara við sjálfan sig og hina „heilögu kirkju“. Og auk þess hrífur skáldgáfa Laxness ekki hina  póetisku sjálfsupphafningu hins tilfinningaríka skálds og óþreytandi ástamanns frá Hvítadal. 
   Og hér lýkur minni ófullkomnu frásögn um hina tvo háttvirtu herramenn sem sameinuðust í Guði og gerðust þrælar undir ráðstjórn hans hátignar, Jónasar frá Hriflu.
 
IV
 
   Þú sagðir mér aldrei raunverulega ástæðu fyrir andstöðu þeirri sem þú mættir í stéttarfélagi þínu. Og þess vegna get ég ekki gert mér neina skýra grein fyrir því máli. En kannski reyni ég einhvern tímann seinna að hughreysta þig út frá reynslu minni og heimspeki um mannlega náttúru. Og ég vona að eftir það komi þér ekkert á óvart í heiminum og þú öðlist eilíft jafnvægi sem hvorki helgir menn né syndarar megna að taka frá þér. Við skulum kasta frá okkur allri falskri heimspeki um gæsku og fegurð lífsins. Við skulum halda okkur við staðreyndirnar.
    Ég lauk námskeiði mínu í janúar með góðum árangri. Og í febrúar byrjaði ég á nýju námskeiði með 36 þátttakendum. Það stendur fram í maí. Fjörutíu nýir félagar bættust við í Esperanto-félagi okkar í Reykjavík í vetur. Nú eru í því 90 félagsmenn.
   Í dag, þegar ég lýk við þessa hreinskrift, er 3. apríl, og samkvæmt okkar almanaki eru nú aðeins 17 dagar eftir af þessum vetri. Sjálfum hefir mér þótt hann líða æði hratt. Fram í miðjan desember var veður mjög gott, oftast heiður himinn og sólskin. Þá kom einn sá ógurlegasti vetrartími sem ég man eftir. Það var sífelldur stormur og hvassviðri og iðulega snjóaði talsvert. Þetta veðurlag stóð til 23. janúar. Eftir það, til 30. mars, voru stöðugar stillur með þægilegum hlýindum og grænni jörð. En síðustu fjóra daga hefir vindur staðið af norðri með dálítilli snjókomu og frosti allt niður í 5,3 stig. Í dag kom svo aftur gott veður.
   En þrátt fyrir gott veðurlag er efnahagsástandið mjög bágborið eins og í öðrum kapítalískum löndum. Ríkiskassinn er næstum tómur vegna kreppunnar og ógætilegrar efnahagsstjórnar Framsóknarflokksins síðustu árin. Ringulreið, óregla og skortur á skynsamlegu skipulagi ríkir í öllum fyrirtækjum. Og stjórnmálamenn okkar sjá ekki aðrar björgunarleiðir heldur en herma eftir vitfirringum annarra landa kapítalismans, en það er að tröllsliga þjóðina með nýjum sköttum og girða í kringum heimskuna með innflutningsbönnum. En einhverjir vona hér eins og í öðrum löndum hins kapítalíska hundaæðis að dagur réttlætisins sé í nánd.
   Ég þakka þér kærlega fyrir bréf þitt og myndirnar. Orðskviður Sigurðar Jónssonar var hárrétt skrifaður.
 
         Með kærri kveðju.
         Þórbergur Þórðarson.
 
  
 

[1] [þ.e. 22. mars]
* Kiljan er nafn á einhverjum írskum dýrlingi. Laxness er eignarfall bæjarnafnsins Laxnes.
[2] [Stofndagur þingflokksins var 16. desember 1916. Flokkkur á landsvísu var stofnaður í júní 1919].
[3] Þó ekki vegna Laxness.