Saga sú er hér fer á eftir er þýdd úr Esperanto  úr bókinni Jaroslav Hašek – ne nur Soldato Švejk í þýðingu Miroslav Malovec. Bókin var gefin út í Prag 1994.

 

Í röð kjallaragreina hefur dagblaðið 28. október leitast við að vekja athygli gjörvallrar tékknesku þjóðarinnar á hneykslanlegu líferni mínu. Ég get staðfest að allt sem þar er skrifað um mig er sannleikanum samkvæmt. Ég er ekki aðeins þvílíkur óþokki og þorpari og 28. október lýsir mér heldur miklu viðbjóðslegri drulluhali.

Og vegna þess ætla ég að láta 28. október í té nákvæmar upplýsingar til að byggja árásir sínar á. Þessar upplýsingar skulu vera mín eigin játning fyrir tékknesku þjóðinni.

Eftirfarandi játa ég fyrir guði almáttugum og einnig fyrir ykkur, háttvirtir fyrrverandi þingmenn, Madrácek og Hudec, að strax með fæðingu minni olli ég móður minni miklum óþægindum svo hún gat ekki sofið sólarhringum saman.

Þriggja mánaða gamall beit ég brjóstmóður mína til bana en það mál hafnaði að lokum fyrir öldungaráði refsidómstólsins í Prag þar sem móðir mín var dæmd í þriggja mánaða fangelsi að mér fjarstöddum fyrir að hafa svikist um að líta eftir hvítvoðungnum.

Á þessum tíma var ég þegar orðinn svo spilltur að ég lét ekki sjá mig fyrir dómstólnum til að segja eitt aukatekið orð til varnar veslings móður minni. Hins vegar óx ég dagvöxtum og varð skepnulegt innræti mitt stöðugt auðsærra. Sex mánaða gamall afát ég eldri bróður minn svo hann dó og stal svo helgimyndum úr líkkistu hans og faldi þær í rúmi þjónustustúlkunnar. Hún var rekin fyrir þjófnað og dæmd fyrir líkrán til tíu ára vistar í þrælakistunni þar sem hún dó vegna misþyrminga í slagsmálum við aðra refsifanga á hinni daglegu skemmtigöngu þeirra.

Kærastinn hennar hengdi sig og lét eftir sig sex börn sem hann átti með fyrri konu sinni. Nokkur systkinanna gátu sér síðan góðan orðstír sem alþjóðlegir hótelþjófar og einn varð preláti í reglu hvítkuflunga og sá seinasti og elsti skrifar í 28. október.

Þegar ég var orðinn eins árs var ekki sá köttur í Prag sem ég ekki hafði stungið úr augun eða höggvið af rófuna.

Þegar ég gekk um með barnfóstru minni hlupu allir hundar óðar á brott er þeir sáu mig úr fjarlægð. En barnfóstran gekk ekki lengi með mér því þegar ég var átján mánaða fór ég með hana í hermannaskála við Karlstorgið þar sem ég lét hermenn hafa hana í skiptum fyrir tvo pakka af tóbaki svo þeir gætu þjónað óeðli sínu.

Barnfóstran fékk ekki afborið smánina og kastaði sér fyrir fólksflutningalest sem fór út af sporinu vegna fyrirstöðunnar á teinunum. Átján manns létust en tólf særðust alvarlega. Meðal þeirra sem dóu var fuglakaupmaður. Öll búrin eyðilögðust en af fuglunum bjargaðist aðeins einn blábrystingur (Cianecula suesica) fyrir guðs miskunn, smátittlingur af söngfuglaætt. Yfirlitur grábrúnn en grátt fjaðraskraut á brjósti og hálsi með hvítum eða ryðrauðum bletti í miðjunni. Kviðurinn er hvítur. Heimkynni blábrystings eru í Bæheimi. Þar sést hann, þótt ekki sé mikið af honum, á mýrlendum stöðum vöxnum þyrnikjarri. Hann lifir á ormum og skordýrum og sveiflar hann þá óspart stélinu er hann tínir þá í gogginn. Sé hann hafður í búri spekist hann fljótt og syngur þá af hjartans list. (Sjá Otta-alfræðibók, sautjánda hluta, blaðsíðu 494 undir flettiorðinu Modrácek: blábrystingur).

Þegar ég var á þriðja ári varð enginn þvílíkur ódámur fundinn í gjörvallri Prag. Á þeim aldri stóð ég í ástarsambandi við eiginkonu háttstandandi manns nokkurs. Það mál hefði valdið uppnámi í allri Prag og nágrannabyggðum hennar hefði það komist í hámæli.

Fjögra ára hljópst ég að heiman því ég hafði skaðað Mæju systur á höfði með saumavél. Um leið og ég flúði greip ég með mér nokkur þúsund flórínur sem ég sóaði með þjófum í Fimmta hverfi.

Er ég hafði sólundað peningunum dró ég fram lífið með betli og vasaþjófnaði og sagðist vera sonur prinsins Thun (þá var hann reyndar bara greifi).

Ég var gripinn og fluttur á betrunarheimili í Líben en í því kveikti ég. Í eldinum fórust allir kennararnir sem ég hafði læst inni í herbergjum sínum á ganginum.

Nú tók aftur við leiðinlegur tími. Fimm ára gamall ráfaði ég hungraður um götur Prag og stal brauðmolum af bankamönnum og eplum af afgreiðslustúlkum. Aðstæður mínar bötnuðu þó ævintýralega þegar ég braust inn í dómkirkju heilags Tómasar og stal þaðan kaleik úr gulli. Kaleikinn seldi ég gyðingi einum í Fimmta hverfi fyrir eina flórínu og þegar ég hafði sólundað henni í ákveðnu húsi í Horgrindarstræti sneri ég aftur til gyðingsins og hótaði að ljóstra upp um hann. Ég kreisti svo út úr honum hverja flórínuna eftir aðra uns hann gaf sig sjálfur fram við lögregluna til þess að hljóta ódýrari refsingu.

Eftir að hafa verið gert að yfirgefa Prag hélt ég til Polná og svo að játning mín verði einlæg lýsi ég því hér með opinberlega yfir að það var ekki Hilsner sem sem myrti stelpuna í Polná heldur ég. Það gerði ég fyrir þrjár flórínur!

Það var fullkomlega eðlilegt að eftir þetta hhhneyksluðust menn á mér í Polná og því hélt ég fótgangandi til Vínar en þangað kom ég sex ára gamall og hafði þá ekki peninga fyrir lestinni til Prag. Ég var því neyddur til þess að ræna banka í Herrenstrasse en þurfti fyrst til öryggis að kyrkja fjóra verði hvern eftir annan.

Þetta var í raun einn af mínum verstu glæpum og sem erfitt er að afsaka. En þegar ég átta mig sé ég að ég þráði að komast heim til að hitta aftur eftir langa fjarvist hina umhyggjusömu foreldra mína . . .

En til hvers er að vera tilfinningasamur. Ég varð síðar svo heppinn að komast til Prag. Áður lokkaði ég gamla konu út í klefann milli vagnanna, reif af henni veskið og hrinti henni svo út á fullri ferð. Þegar hennar var leitað sagði ég að hún hefði farið út úr vagninum á seinustu stöð og beðið að heilsa öllum.

En ég hitti samt ekki foreldra mína á lífi. Faðir minn hafði hengt sig fyrir um það bil tveim mánuðum af örvæntingu út af glæpahneigð minni og móðir mín hafði stokkið ofan af Karls brúnni og þegar menn reyndu að bjarga henni hvolfdi hún bát björgunarmannanna svo þeir drukknuðu líka.

Ég óx í einangrun eins og illgresi þar sem ég eitraði alla fjölskyldu vesalings frænda míns með því að gera upptæka sparisjóðsbók hans og falsaði upphæðir í henni til þess að fá meira í minn hlut . . .

Háttvirta ritstjórn 28. októbers!

Penni minn neitar að hlýða mér. Ég vildi gjarnan skrifa ennþá meira og játa allar misgjörðir mínar fram til þessa. En straumur einlægra iðrunartára lætur mig sjá allt í þoku. Ég græt beisklega yfir æsku minni og liðinni tíð en bíð með einlægum ákafa og tilhlökkun eftir framhaldi af 28. október. Það er og verður fullkomnun játninga minna.

Og svo að iðrun mín fyrir augliti allrar hinnar tékknesku þjóðar verði enn auðsærri bið ég þess að þið takið við mér sem félaga í flokk ykkar hinna framfarasinnuðu sósíalista.

Ég lofa að ég mun með góðri hegðun reynast trausts ykkar verður.

Verið svo góðir að láta mig vita hvenær og hvar ég á að greiða fyrsta félagsgjald í flokki ykkar.

Þangað til óska ég ykkur alls hins besta!