Eftirfarandi smásaga eftir eistneska esperantistann og rithöfundinn Henrik Allari birtist í 3. tölublaði Iðunnar 1927 í þýðingu Hallbjarnar Halldórssonar og Þórbergs Þórðarsonar. Fylgir þar eftirfarandi formáli sem hér er hafður innan hornklofa:

 
[Iðunn birtir að sjálfsögðu ekki sögu þessa í „agitations“-augnamiði; það munu allir lesendur hennar skilja. – En sagan er merkileg á tvennan hátt: Í fyrsta lagi fyrir sinn einkennilega, „expressionistiska“ stíl, sem mörgum hér á landi mun þykja nokkuð nýstárlegur, en á þeim stíl hafa ungir rithöfundar víða um heim verið að spreyta sig á seinni árum. – Að efni til gefur sagan oss allskýra innsýn í „sálfræði byltinganna“. Upp úr slíkum jarðvegi, sem hér er lýst, eru þeir að jafnaði sprottnir, sem á umbrotatímum reisa vígvirki á strætum stórborganna, berjast þar með eldmóði og falla – eða sigra. Þessi saga hjálpar oss til að skilja hvernig pólitískt píslarvætti verður til. Og það er ávallt betra að skilja en skilja ekki].
 
  Mannsbarn fæddist.
Ko-ngæ! Kon-ngæ! Bim-bam! Tílí-líli-bom! Brrr-akk! Vzzz! Tra-ta-ta-ta! Krrakkk! 
Þess vegna? 
   Nei: fyrir föðurlandið ólgar orusta. Vorir unnu – þess vegna! Ekki kveðjuhljómur, ekki heiðursskot! Heldur sigurhljómur, drápsskot! 
   Húrra!
   Mannsbarn er nakið. Rennir augunum upp á við. Kjallaraherbergi. Myrkur, raki, eymd. Móðir kveinar af sársauka. Faðir berst fjærri – við mannbræður.
   Mannsbarn er baðað í tárum.
   Baksýn: Alheimsblóðbrullaup. Brjálæði, vitfirring. Menn eru að slátra mönnum. Með vélum, með vísindum. Kúlnasöngur – vöggusöngur móður. Allsherjar taugabruni.
   Faðir var stimplaður. Kom aftur með eyðilagða heilsu.
   Öryrki
   Fyrstu ár: eymd, eymd, eymd. Skriðið á gólfi. Umhirðulaust. Stunur, kveinstafir. Móðir vinnur stöðugt. Faðir reikar frá verksmiðju til verksmiðju. Fjár- og brauðskortur.
   Barnsalda, paradís dagdrauma.
   Ó, mikli herra!
   Garður, stræti.
   Mannsbarn – berfætt, tötralegt. Aldursfélagar: smáborgarabörn. Vel búin. Södd, bústin, blómleg. Hann – hungraður, beinaber, blóðlaus.
   Mannsbarn vill líka leika sér. En – á honum hafa menn óbeit: tötralúði, götustrákur. Hann er barinn, skammaður.
   Æ-æ-æ!
   Djöfuls betlari! Hvað vilt þú? Farðu burt! Flæmið hann burt með grjóti! Fyrirlitlegi lúsablesi!
   Mannsbarn víkur úr vegi, grætur, öfundar leik jafnaldranna.
   Hugsanir barnsheila:
   Þau hafa allt. Þau hafa krakkareiðhjól, kerrur, rólur, tindáta, byssur, skammbyssur, sverð, eimlestir, flugvélar, skip.
   Ég – ekkert.
   Því þá það?
   Hvers vegna hefi ég ekkert? Mamma, pabbi, hvers vegna höfum við ekki fallega íbúð, góð föt, hvers vegna gefið þið mér ekki snúða, sætindi, leikföng handa mér kaupið þið ekki hvers vegna?
   Mamma, góða mamma, hvers vegna?
   Móðir fer að gráta, vefur mannsbarn armi.
   Af því að þú ert afkvæmi öreiga, af því að við verðum að lifa á vanþakkaðri vinnu, af því að við erum þrælar auðvaldsins, sem svívirðilegt glæpahyski ver með byssustingjum, með fallbyssum.
   Þess vegna sonur litli!
   En – hvers vegna hafa þau allt???  
 
   Mannsbarn – blaðasali á götum. Fimm aura, fimm aura! „Hraðboðinn“ í dag! Bylting í Rússlandi!
   Menn: götustrákur!
   Lágvaxinn, horaður. Fótleggir rýrir. Höfuð stórt. Bak bogið. Þróttleysi, heilsuveila.
   Smáborgarar í sama húsi:
   Hvað verður úr honum? Bófi, þjófur, hálsskeri, betlari?! Börn okkar lifðu þá ekki deginum lengur!
   Skóli.
   Bætt föt. Skór af föður. Bókaleysi. Borgarbörnin hlæja, spotta. Þyrpast að skoða undraskóna. Berja, gabba.
   Mannsbarn þjáist, sárþjáist.
   Burt úr skólanum! heim!
   En heima – helvíti. Móðir fær brjálæðisköst. Hjúskaparharmleikur. Skammir, ófriður, barsmíðar. Klámyrði, klámtal.
   Faðir drakk eins og svín. Varð asni. Hélt við ókunnar konur. Árangur – sonur.
   Móðir grét, grét látlaust. Hár hennar gránar. Heili bilaði. Brjálæði, andlegt myrkur.
   Faðir verður trúaður, iðrast, þrælar.
   Eilífar skammir. Faðir gegnir ekki. Hún endurtekur þúsund sinnum. Faðir þegir. Hún reiðist. Gengur að honum. Æpir í eyrað. Hann blossar upp. Slær hana hnefa.
   Æ-æ!
   Djöfull! Ófreskja! Hvað gerðir þú þá? En nú! Að lemja mig! Trúa, heiðarlega eiginkona!
   Svei, svei, svei!
   Mannsbarn grætur, hágrætur.
   Pabbi! Mamma! Berðu ekki! Mamma, talaðu ekki svona!
   Móðir:
   Þú líka djöfull! Drýgir þú líka hór? Býr þú líka til börn?
   Hæ-hæ! ...
   Mannsbarn hleypur burt. Flakkar á götum. Næturskuggar. Regn. Gasljósker: kerti á stöfum. Feldklæddar mannsmyndir. Miðstrætis: Gljáhnappaðir lögregluþjónar!
   Mannsbarn grætur, stynur, biður.
   Ó, Mikli Herra! Sér þú mig? Hjálpaðu! Taktu burt til þín! Í himininn! Kæri Jesú, gerðu það, að móðir verði aftur góð! Jesú kæri! Jesú-hús.
   Mannsbarn krýpur á kné.
   Myrkur, for.
   Æskusál. Áhrifaspor: saurlifnaður, skammir, ófriður, sviksemi. Ímyndanir um hinn dularfulla, dýsæta Leyndardóm. Þrár, þrár!
   Afkimi einmanalegur. Tilbúin svölun hvata. Lostaeldur í augunum. Nudd. Háspenna. Úthellt lífsfrumum. Óafturkvæmar, lífsspellvirkjar.
   Djöfullegar, guðdómlegar nautnir.
   Ósmjúganlegt net. Ómótstæðileg lokkun. Athafnirnar verða tíðari. Frá degi til dags. Líkamanum hnignar. Ómannblendni. Afskiptaleysi af hinu ytra.
   Hið innra aflagast.
   Lífsgleðin hverfur. Hvötin vex. Einræni vex. Mannfælni vex. Óreglubyrjun í blóði, heila. Yfir vofir – brjálæði!
   Nautnaþrungið einæði.
   Eyðist lífsafl.
   Örvænting. Hugsanir um sjálfsmorð.
   En – lifi vonin!
   Tam-tam! Tam-tam-tram!
   Riddarar Georgs helga. Vestmannabúningar. Í höndum: sópsköft. Við belti: tygilknífar. Á ermum: flokks-, tignarmerki.
   Sjálfstoltir andlitssvipir.
   Trumbur drynja.
   Hermannaganga: Einn, tveir, þrír! Einn, tveir, þrír!
   Fólk horfir á. Mannsbarn með því. Löngunaröldur í hjarta. Óskablossar í andliti.
   Mannsbarn myndi líka vilja vera skáti!
   En – einkennisbúningur, annað allt!
   Aðeins auðmannabörn.
  Tam-tam-tram!  
 
   Mannsbarn örvæntir. Menn móðga hann. Hann gengur markvitundarlaust. Bifreiðar, sporvagnar, leiguvagnar þjóta fram hjá. Borgarar eru á gangi, kviðhristandi skemmtigöngu.
   Skemmtigarður. Sár hryggð, sálarkvalir.
   Hvers vegna á ég ekki ríka foreldra? Guð, hvers vegna setturðu mig hjá? Hvers vegna gat ég ekki valið mér foreldra?
   Ský gráta?
   Ljósaskipti. Mannsbarn situr á bekk. Blöð falla af trjám. Sölna á jörðu.
 
   Ríki gegn ríki.
   Maður gegn manni.
   Fyrir föðurlandið! Föðurlandið er í hættu!
   Mannsbarn – í skotgröfum. Kúlnahríð. Fallbyssudruna. Árásir á skotgrafir óvina. Andlega beygður.
   Skelfing, skelfing!
   Guð er með okkur! Áfram!
   Fyrir réttlæti!
   Stríðsmenn hlaupa. Á jörðu: lík. Óvinur hleypur til móts. Skepna, kvikfé, ófreskjur! – segja menn.
   Byssustingjabardagi.
   Húrra! Húrra!
   Sigur!
   Í landi óvinarins.
   Menn urðu skepnur. Menn brenna, myrða, tortíma.
   Bara óvinir! Börn eru hent á byssustingjum. Þau – bara óvinir! Konur eru svívirtar. Gamalmenni eru skotin í hel. Þau – bara óvinir.
   Foringjar eggja, skipa.
   Meðaumkun, viðkvæmni til fjandans!
   Mannsbarn sárþjáist. Þú skalt ekki mann deyða! Ekki börn, konur gamalmenni! Ekki – ég ekki. Mannsblóð er þannig rautt! Mannsaugu ljóma svona!
   Maður var skapaður í mynd guðs.
   Óvinur – alveg maður eins og við.
   En skipun – að drepa alla!
   Ha-hæ! ...
   Hver þarf þess? Þeir bara! Þeir – ráðherrar, hershöfðingjar, auðmenn, auðvaldsburgeisar! Maður skal mann deyða! Börn! Konur! Gamalmenni!
   Nei!
   En – skipun? En – foringjar?
   Nei, mannsbarn getur ekki!
   Hann hleypur burt, flýr. Flakkar í skógum, fenjum. Hungrar. Veikist. Í fjarlægð: Fallbyssudruna, mannslátrun.
   Vei!
   Himinn grætur: Maður – Guð jarðar – verður villidýr. Maður ærist. Maður verður djöfull!
   En – af degi roðar!
   Maður vaknaði! Maður verður maður!
   Fallbyssukjöftum beint að foringjum!
 
   Bylting!
   Hristist grundvöllur gamla skipulagsins.
   Ranglætið er á förum.
   Verkamenn verkfella. Hermenn, sjómenn gera uppreisn, óhlýðnast.
   Hefjast rauðir gunnfánar.
   Fjöldinn tryllist. Almennur byltingarmóður.
   Frelsi! Frelsi handa öllum! Mannréttindi! Jöfnuður!
   Fangelsi eyðilögð, brennd.
   Burt stjórnina!
   Burt burgeisastéttina!
   Burt auðvaldsburgeisana!
   Lögregluriddarr, herforingjar veita viðnám, berjast á móti. Byltingarsinnar elta upp borgara. Uppnám. Yfirstéttarmenn burthlaupnir.
   Mannsbarn er með fjöldanum byltingarsinnaða. En – menn drepa! Byltingarmennirnir drepa! Unglinga, börn, gamalmenni!
   Menn slátra!
   Ha-hæ!
   Mannsbarn örvæntir, efast. Hliðrar sér.
   Fundur. Ræðumaður:
   Félagar! Öreigar! Stundin kom! Fyrir frelsi! Framtíð! Nýr heimur springur út! Allt fyrir hann. En – hinn gamli er sterkur! Óvinurinn er sterkur! Auðmagn! Vopn! Erfikenning! Menntunarleysi! Þeir hætta ekki. Þeir gefast ekki upp! Þeir veita viðnám! Þeir vilja sigra! Gera okkur að þrælum aftur. Leyfum það ekki! Vér berjumst! Drepum! Tortímum! Miskunnarlaust!
   Burt meðaumkun! Burt viðkvæmni!
   Lifi byltingin!
   Afturhaldsmenn safnast saman. Hvítherjar nálgast.
   Fallbyssudruna.
   Byltingarmennirnir sigraðir, undirokaðir!
   Hvít ógnaröld.
   Óteljandi drápskothríðir. Fangelsi full.
   Neyðaróp barna! Kveinstafir mæðra!
   Borgarar æpa:
   Drepið! Tortímið nöðrukyninu! Upprætið byltingarhneigðina! Endurhefnið hundraðfalt, þúsundfalt! Án meðaumkunar! Hlífðarlaust!
   Mannsblóð hrópar á hjálp!
   Mannsbarn gremst.
   Í mannsbarni: skoðanaskipti. Borgarar, auðvaldsburgeisar – glæpamenn! Hvers vegna drepa þeir? Hvaða rétt hafa þeir? Því að – réttlætið hjá öreigalýðnum! Ekki hjá þeim!
   Lútið auðvaldinu, mættinum!
   Gefið oss frelsi!
   Gefið oss mannréttindi, jöfnuð!
   En borgarar og auðvaldsburgeisar svara með – kúlum!
   Hana þá – farist!
   Lifi stéttarstríð!
   Lifi bylting!
 
   Mannsbarn háttar.
   Vöðvar slaknaðir. Lémögnun. Taugasljóleiki. Holdvefir loga, brenna. Svitafýla. Blóðrás trufluð.
   Þrengsli.
   Kytruloftið miskunnarlaust þjarmar að.
   Loft, hækkaðu!
   Veggir, víkið sundur!
   Heimur ótakmarkast. Fjórveggjað skrín. Brjóstið skortir loft. Höfuð beygt til jarðar. Heili fergist.
   Burt! Útinn!
   Lifi frelsi!
   Kinnar brenna. Hjarta hamast. Rökkur athafnaleysis. Kóngulær auðvalds. Mýs erfikenninga.
   Ég vil lifa!
   Mannsbarn réttir úr sér. Lyftir höndum til himins. Hnefum.
   Jahve, þú ert sekur djöfull!
   Burt guði, djöfla í díki, harðstjóra í skolpræsi og yfirvöld!
   Lifi frjáls maður!
   Þyrnikóróna Krists.
   Mannsbarn þrífur stól, drepur Krist.
   En – Kristur grætur – grætur!
   „Komið til mín allir, sem erfiði og þunga eru hlaðnir“.
   Kristur, þú ert dvergguð vanmáttar, þrældóms, dauða!
   Sjá – getinn er Guð máttar, frelsis, lífs!
   Kristur dó að eilífu!
   Mannsbarn mun fæðast!
   Spegill innri elda.
   Mannsbarn skoðar í:
   Lágt enni, slaphold, hitaroði, nef móti himni, næturaugu.
   Farist!
   Hlutar fljúga. Myndin hverfur.
   Mannsbarn andar létt.
 
   Morgunhiminn. Blámi. Vídd. Sólgeisli, hljómkviða. Svalur andvari.
   Vangarnir hitna, roðna.
   Daglegur gangvegur.
   Rauðtígulsteind, hvít hús. Musteri Jehóva. Torg áþjánar. Höll Mammons.
   Mannsbarn másar, lotnast.
   Til móts koma:
   Unglingar þróttugir og lífsglaðir. Kraftganga. Stúlkur, kátar, hugsjónafagrar. Rósvangaðar. Gullhærðar.
   Þráfuglager.
   Bjarthlæja stúlkurnar. Raddsöngur. Kossþyrstir kirsiberjarunna. Himinblámi úr stóraugum.
   Mannsbarn dregst að þeim.
   Þar – hamingja, fegurð, eilífð – allt!
   Kvenvera, Þú ert tungl Edens! Kvenvera, kjarni lífsins ert þú!
   En hyldýpi fortíðar! martraðir nútíðar!
   Sjúkleiki, þróttleysi, kynbölvun.
   Bölsýni.
   Öryrkjar, burt úr lífi!
   Þræðir eru slitnir.
   Mannsbarn snýr andliti undan.
   Þær – til lífs! Ég  – til dauða!
   Taugar brenna.
   Ofsjónir: líkklæði, líkkista. Rotnandi lík. Viðbjóðslegir ormar. Köld jörð. For. Tortíming að eilífu.
   Nei!
   Ég vil lifa!
   Lifa!
   Ef ekki hér, þá í suðri, í sóllandi, í landi ímyndunarafls! Sumar ævarandi! Græna. Æska! Sól í hvirfildepli! heilbrigði! Paradís náttúru!
   Útinn úr veruleika, lífi! Í sólland, í draumland! Í gleymskuland! Þangað, sem enginn er kominn frá! Í – dauðaland! Í land einskis!
   En! ...
   Lífið varir! Ógrynni mannsbarna heldur áfram að fæðast! Ógrynni mannsbarna heldur áfram að deyja! Ógrynni mannsbarna heldur áfram að hjara! Allt verður við sama! Alltaf – öryrkjar, lífleysingjar! Alltaf – öreigar, borgarar, auðvaldsburgeisar! Alltaf – kúgaðir, kúgarar!
   Nei!
   Ég vil lifa!
   Lifa til að berjast fyrir réttlæti! Til að undirbúa farsælli framtíð! Vinna fyrir tilveru manns!
   Ég vil lifa!
   Til þess að eftirkomendurnir lifi!
   Hjari ekki!
   Sjóleysi.
   Mannsbarn lætur fiðlu kveina.
   Fátæklegt þakherbergi. Kuldi, eymd, hungur. Niðri – þrælahúsbændur Mammons. Niðri – borgaralegar allsnægtir.
   Hryggur mannsbarns bognaður.
   Strengirnir kveina. Loftsveiflur. Blóðbrim. Heilinn þvingast. Hjarta við sprengingu. Holdvefir hunguræpa í brauð. Sál – eftir henni.
   Strengirnir hrökkva.
   Ég vil lifa!
   Vil elska!
   Herbergisloftið yfirfallandi. Mannsbarn kengbognar. Reynir að rétta úr sér. Réttist hanslíki?
   Strengir gráta, ský tárast.
   Dísa, kæra, gyðjan mín! Ekki get ég lifað án þín. Aðeins einu sinni að elska þig! Aðeins einu sinni að kyssa, faðma! Aðeins einu sinni njóta Ástar-     Edens!
   Dísa !
   Elskan! ...
  Ha-hæ!
   Draugur fortíðar, auðvalds.
   Sorti, heilsuspell.
   Gamalt!
   Gamalt martreður, mer!
   Fortíð bindur hendurnar, fætur, líkama, heila!
   Ranglæti!
   Auðvald þrælkaði, öryrkjaði!
   Burt fortíð!
   Burt gamalt! Burt ranglæti!
   Burt auðvald!
   Lifi nýtt!
   Lifi framtíð!
   Mannsbarn einbeitir kröftunum.
   Ræðst á móti auðvaldinu.
   Stígur fyrstu spor til móts við framtíð.
   Dísa! Dísa!
   Ég verð að sætta mig við að sjá af þér.
   Dísa hágrætur. Sálarhvirfilbylur í mannsbarni.   
 
   Heljarsteinteningar. Kóngulóuvefur stræta. Mannlegt maurabú.
   Mannsbarn skjögrar á malbiki gangstétta.
   Auðvaldsbrúðuleikhús. Menn = leikbrúður. Leiktjöld — bankar, kauphallir, vöruhús. Bruna bifreiðar, sporvagnar, almenningsvagnar. Auðvald kippir í þræðina.
   Himinrák.
   Sólskinsblettur. 
   Rafmagnsmánar. Oflýstir salir, leikkrár, girðingar. Eyrun á mannsbarni fyllir jazzglaumur. Augu – 
   inni Bakkusarmusteris. Umhverfis borðin ýstrubelgir. Hringur svínhausa beggja kynja. Í kjöftunum er – gull. Um fingurna – leiftursteinar, gimsteinar.
   Fóður, ha-hæ! guðafæða matreiðslusnilldar. Matreiðslusnilld mannsbarns – hungur! Geltsmýgur garnirnar með tómleik. Hann fitnaði – fyrirgefið! – horaðist af æfilöngu brauðleysi.
   Svo er! Svo er!
   Aftur! Aftur!
   Mannsbarni gremst.
   Stjórnleysingjar, sprengikúla (ekki sælgætiskúla!)! Ránliðar, þér etið brauð vort! Ræningjar, réttarglæpamenn, blóðsugur mannkyns! Þungaðir bitvargar samfélags! Þér drekkið blóð vort!
   Lifi lífið!
   Lifi vín og konur!
   Hip-hip! Vive! Hoch!
   Evviva! Skål!
 
   Verksmiðjuhverfi.
   Mannsbarn fer með sólskinshjarta.
   Vinnumusteri rammger. Vélaskrölt, reykur. Himingnæfandi reykháfar.
   Verksmiðjur kallbása.
   Hlið opnast. Út streymir verkamannafjöldi. Blátreyjaðir stálmenn. Nístandi geislaaugu. Vöðvaóður.
   Kraftganga. Takmark – dimm kjallaraíbúð heima. Strætin full af sköpurum. Frá einni hlið eiginmaður, annarri – eiginkona, þriðju sonur og dóttir.
   Ungöreiginn gengur til móts við rauða sól.
   Ungöreiginn fer með honum.
   Samhljómur komandi tíma.
   Mannsbarn slæst í för. Mannsbarn kennir sig mann meðal manna. Ekki heyrist skrjáf bankaseðla, hljómur aldar. Ekki örlar á borgaralegum varðhundum.
   Mannsbarn réttir hönd til bróður. Sótugur hrammur þrýstir hana.
   Félagar, ég er úr ykkar stétt. Veitið mér aftur viðtöku í snjóflóð fjölda ykkar.
   Yfir hverfinu vofir skippundsþungur auðvaldsburgeis.
   Ógrynni sigghanda hefst upp á við.
   Úr jörðinni vex vinnujötunn.
 
   Félagar!
   Félögur!
   Samþrælar!
   Vaknið af doða aðgerðaleysis, hristið af hlekki auðvalds! Farið hrönnum saman úr verksmiðjum, þrífið vopn, hefjið hátt rauða gunnfánann! Látið máttugt hljóma alþjóðasönginn! Látið réttlæti ríkja á jörðu!
   Lifi öreigar!
   Lifi Marxkenning!
   Lifi bylting!
   Burt burgeisa!
   Burt auðvald!
 
            Upp rís þú, sem eymdin drekkir,
            örmagnaði þrælaher!
            Gremju vakið vitið kallar
            að vinna frelsi handa þér.
            Gamall heimur hrynji að grunni.
            Harðstjórarnir byggðu valt.
            Upp vér nýjan aftur byggjum.
            Ekki núll, vér séum allt.
 
   Hana þá – í staðnum, ætlaða hugsjónamönnum!
   Fjórir steinveggir. Rakir, myglaðir. Gólf – skítabæli, skemmtigangsvið rottum. Loft – grafletursspjald.
   Mannsbarn horfir út um ryðgaðar járngrindur. Úfið höfuð hans sýnist úti hausttungl í skýjum.
   Frelsi! Frelsi!
   Fyrir utan dyrnar gengur stöðuvörður. Með byssu.
   Mannsbarn hristir hlekkina.
   Ég vil lifa!
   Ég vil lifa! Kallar fugl undir himni, kallar fiskur í vatni, kallar dýr í skógi. Einungis maður á ekki rétt á að lifa, vill ekki lifa, lætur ekki heldur aðra lifa!     Hann kúgar, þrælkar, drepur, hneppir í varðhald!
   Mannsbarn grætur.
   Maður! Maður!
   Maður, ég elska þig! Maður, ég aumka þig!
   Maður, þú ert guð heimsins! Aðeins veist þú það ekki! Þú líkist ennþá margvíslega skepnu! Í þér er ennþá margt erft frá fortíðinni!
   Maður, vakna, rís upp! Maður!
   En maður sefur.
   Ráðherra ekur í bifreið.
   Ó, blindingi, sofandi, þræll auðvalds! Þú drýgir glæpi, drýgir látlaust glæpi. Samt hata ég þig ekki, aðeins hryggist yfir þér! Því að þú, aumur, veist ekki, hvað þú gerir.
   Úti glamrar byssustingur.
   Tilbreytingarlaust ganghljóð stöðuvarðar.
 
   Herréttarsalur.
   Mannsbarn – meðal hermanna, vopnaðra. Sundurrifin klæði. Úfið hár. Brjálaður augnaglampi. Gaddasvipusár.
   Líkaminn hrörnar.
   Herforingja-dómarar rýna lagagreinar.
   Forseti les fyrir ákæru: Sameignarsinni, uppreisnarseggur, æsingabelgur, ofbeldisþjarkur.
   Ríkisákærandi: Til skotdauða!
   Ráðabrugg dómara.
   Dómsúrskurður: Dauðskjóta!
   Mannsbarn fölnar, riðar.
   Menn, hvað gerið þið?
   En ég fyrirgef ykkur, því að þið vitið ekki, hvað þið gerið!
   Mannsbarn fellur.
   Hermenn hrinda út vitundarlausu mannsbarni.
   Dísa, hjálpaðu!
 
   Ljóslaus haustnótt.
   Mannsbarni er ekið til dauða.
   Borgin sefur. Gleðikonur vinna fyrir sér. Lögregluþjónar blunda standandi.
   Numið staðar í skógi.
   Mannsbarn fölnar, riðar.
   Ég vil lifa! Ó, hve lífið er þó fagurt!
   Menn, hvað gerið þið við mig?!
   Hermenn vilja binda fyrir augun á mannsbarni.
   Nei! Ég dey með opin augu! Ég vil að minnsta kosti deyja með vitund! Að minnsta kosti deyja!
   Samskot byssna.
   Augu mannsbarns stækka. Hjartað þrýstist saman í krampateygjum. Tár renna á vanga.
   Menn, vaknið, mannist!
   Dísa-a-a!
   Brjóstið, hjarta, heili er gegnumborað. Maður varð á augabragði lík. En – þjáningar, framtíðarvonir, hugsjónir?
   Mannsbarn fellur í nýtekna gröf.
   Hermenn sandfylla gryfjuna.
   Mannsbarn er kyrrt í.
   Skammir herforingjanna daufdumba meðaumkun.
   Uppi tindra stjörnur.
   Augu Dísu?
 
   Ko-ngæ! Ko-ngæ! Bim-bam! Tílí-lílí-bom!
   Hvað?
   Vegna hans?
   Sei-sei-nei:
   Fyrir 2000 árum dó Kristur.
 
                                                                              1925.
 
                                H. H. og Þ. Þ. þýddu úr frummálinu, esperantó.