Eftirfarandi goðsaga kemur fyrst fyrir í Nihon ŝoki frá árinu 719. En það er eitt mikilvægast verk um sögu Japana frá fornum tíma og er það ritað á fornkínversku.
   Sögunni er snúið úr Esperanto eftir þýðingu K. Nohara úr bókinni Japanaj rakontoj sem út kom í ritröðinni Esperanta biblioteko internacia (N-oj 10–11). Þýðing hennar á íslensku birtist fyrst í La Tradukisto, dudeksesa (26-a) numero, 12. julio 1997.
 
Steinar aðfalls og útfalls[1]
 
Ninigi no Mikoto barnabarn Amaterasu Okami, gyðju Sólar, steig niður til jarðar í Hiuga-fylki[2], að skipun himnaguðsins, til að stýra Miðlöndum Ashihara.[3]
   Hann átti tvo sonu: Honosusori no Mikoto og Hohodemi no Mikoto. Honosusori, sá eldri, átti afar fengsælt veiðitæki en Hohodemio, sem var yngri, átti mjög aflasælt fiskifæri. Eitt sinn komu þeir sér saman um að skipta á veiðitækjum. En hvorugur gat veitt neitt með sínu nýja tæki. Sá eldri iðraðist skiptanna og krafði hann bróður sinn um færið um leið og hann fékk honum boga hans. Til allrar óhamingju hafði sá yngri þá glatað önglinum í hafið og gat ekki með nokkru móti fundið hann aftur. Hann smíðaði nú nýjan öngul handa bróður sínum en hann gerði sig ekki ánægðan með hann og heimtaði að fá sinn gamla öngul aftur. Í vandræðum sínum smíðaði hann fjölda öngla úr hinu kæra sverði sínu en sá eldri sagði ævareiður:
   „Láttu mig þegar í stað fá aftur minn eigin öngul; við öðrum tek ég ekki hversu marga sem þú færir mér.“ Og hann gekk nú æ fastar eftir öngli sínum. Vesalings Hohodemi varð mjög hryggur. Hann fór niður til strandar og ráfaði þar stefnulaust fram og aftur. Þá rakst hann af tilviljun á gamlan mann, Shihotsutsu að nafni. Sá spurði hann hvers vegna hann væri þangað kominn svo hnugg­inn í skapi. Hann sagði gamla manninum alla sólarsöguna. En sá mælti:
   „Taktu aftur gleði þína; ég skal snúa máli þínu á réttan veg.“
Gamli maðurinn tók nú bambus og brá úr þétta körfu og lét síðan Hohodemi setjast í hana og síðan lét hann körfuna síga niður í hafið. Á óútskýranlegan hátt hafnaði karfan með Hohodemi á sæluströndum og þar sté hann upp úr henni og hélt för sinni áfram inn í landið.
   Brátt kom hann til hallar sjávarguðsins Watatsumi no Kami. Bæði háir og lágir veggir umluktu skrautleg stórhýsin. Framan við hliðið var brunnur og við brunninn stóð lárviðartré með ­þéttri laufkrónu. Hohodemi hvíldi sig nokkra stund undir trénu. Þá opn­aðist hliðið hljóðlega og fögur prinsessa með skjólu setta gimsteinum kom út til að sækja vatn í brunninn. Þegar hún kom auga á Hohodemi hljóp hún undrandi til föður síns og sagði:
   „Hingað er kominn ókunnur maður, líklega gestur. Hann er þarna hjá lárviðartrénu við hliðið.“
   Hinn himneski gestur var strax leiddur til herbergis þess er best var búið og spurður hvert erindi hans væri. Hann sagði allt af létta og beiddist þess að hann fengi aftur fiskiöngulinn sem týnst hafði í hafið, ríki sjávarguðsins. Hinn vorkunnsami sjávarguð kallaði saman alla fiska í ríki sínu og spurði þá hvern og einn en enginn vissi neitt. Sá eini sem ekki kom var leirstabbi að nafni Akame – vegna sárs við munninn. Hann var þó sóttur og leiddur fram þrátt fyrir óvilja sinn og munnur hans rannsakaður og þar fannst öngullinn týndi.
   En Hohodemi, sem þegar var orðinn ástfanginn af dóttur sjávar­guðsins, Toyotama Hime prinsessu, vildi ekki snúa strax heim með hinn endurheimta öngul, og bráðlega gekk hann að eiga hana. Í þrjú ár bjó hann með henni á heimili tengdaforeldra sinna. Ungu hjónin nutu hamingjunnar en svo fór þó að þráin eftir heimalandinu gerði Hohodemi annað slagið niðurdreginn og óglaðan. Er prinsessan tók eftir andvörpum hans sagði hún við föður sinn:
   „Sonur okkar af himnum er oft mjög raunamæddur; ef til vill þráir hann að komast aftur heim til lands síns“.
   Og eitt sinn, er þeir ræddust við tengdafeðgarnir, sagði Watatsumi no Kami við Hohodemi no Mikoto:
   „Fýsi þig í raun, sonur himnanna, að snúa heim aftur þá mun ég fylgja þér þangað.“
   Hann fékk syni himins síðan öngulinn í hendur og sagði:
   „Er þú færð bróður þínum öngul þennan í hendur þá máttu ekki gleyma að segja: bölvaður veri hinn ófiskni öngull.“
   Síðan fékk hann Hohodemi „steina aðfalls og útfalls“ og mælti:
   Kastir þú steini aðfalls í vatn munu holskeflur þegar falla á land upp og með þeim getur þú drekkt hinum illa bróður þínum, en ef hann iðrast hinna illu gerða sinna og biður þig fyrirgefningar skaltu kasta steini útfalls í vatnið og þá mun það þegar sjatna og hann bjargast. Ef þú refsar honum með þessum hætti gerist hann áreiðanlega undirgefinn þér.“
   Að skilnaði mælti Toyotama Hime prinsessa við hann:
   „Ég fer nú kona ekki einsömul og mun brátt ala barn. Ég mun stíga upp á ströndina á degi hins trylltasta ofviðris. Ég ætla að biðja þig að byggja kofa á ströndinni þar sem ég get fætt barn mitt í.“
   Hohodemi fékk nú hraðskreiðasta krókódílinn til reiðar og að degi liðnum var hann aftur í höll sinni. Hann fékk bróður sínum öngulinn og sagði eins og sjávarguðinn hafði kennt honum:
   „Bölvaður veri hinn ófiskni öngull.“
   Orð þessi tendruðu ofsareiði í hjarta Honosusori og neitaði hann því að taka við önglinum. Þá tók Hohodemi stein aðfalls úr vasa sínum og brátt skullu brimöldur hafsins upp á ströndina. Honosusori var næstum drukknaður og bað bróður sinn fyrirgefningar og sagði:
   „Hjálp, hjálp! ég skal verða þinn trúfastur þjónn.“
   Hohodemi tók fram stein útfalls og flóðið sjatnaði þegar. En brátt rauf bróðirinn loforð sitt og sagði:
   „Er ég ekki eldri bróðir þinn? Ekki hæfir þeim eldri að þjóna þeim yngri.“
Þegar hann sá að Hohodemi tók aftur fram stein aðfalls klifraði hann í skyndi upp á hæsta fjallið; en brátt flæddi sjórinn yfir fjallið; hann klifraði þá upp í hæsta tréð sem stóð á fjallstindinum en flóðið náði toppi trésins. Þá, að lokum, þegar hann gat ekki flúið hærra, gafst hann algerlega upp og sagði við bróður sinn:
   „Ég hefi vissulega breytt rangt gagnvart þér en héðan í frá skal ég og allir mínir afkomendur þjóna þér sem leikarar við hirð þína og með því bæta fyrir syndir mínar.“
   Þá bjargaði Hohodemi honum að nýju með steini útfalls. Og Honosusori rauf ekki heit sitt aftur.
 
   Toyotama Hime kom til lands með systur sinni, Tamayori Hime, í hinu trylltasta ofviðri eins og hún hafði lofað. Áður en hún fór inn í kofann til að fæða bað hún mann sinn að sjá til þess að enginn horfði á hana meðan hún æli barn sitt. Þrátt fyrir það stóðst hann ekki freistinguna og gægðist í laumi inn í kofann. Og sjá, hvílíkt undur! hún hafði breyst í dreka.
   Henni þótti sem hún hefði orðið að þola mikla niðurlægingu og mælti:
   „Hefði ég ekki verið niðurlægð svo mjög hefði samband milli hinna tveggja ríkja okkar, á landi og á sjó, getað haldið áfram. En ó, vei, þú hefur þegar niðurlægt mig – hvernig getum við þá haldið áfram sambandi okkar?“
   Hún tók hið nýfædda barn og vafði það reyrblöðum og kastaði því í hafið. Sjálf gekk hún síðan út í sjóinn og lokaði á eftir sér leiðinni til hafsins. Frá þeirri stund hafa sjávardýrin ekki getað lifað á landi og landdýrin ekki getað lifað í hafinu.
 
 
 

[1] Í Toyora-vík (við Shimonoscki) nálægt bænum Chofu eru tveir fallegir hólmar þaktir sígrænum skógi. Þeir nefnast „Manĵu“ og „Kanĵu“ sem merkir „steinn aðfalls“ og „steinn útfalls“. Vera má að uppruni nafn­anna sé í einhverjum tengslum við þessa goðsögn; en Toyor-víkingar hafa þegar gleymt þeim sögnum. Sumir segja að hólmarnir hafi orðið til úr steinunum en aðrir gera því skóna að þar séu steinarnir fólgnir. Guð einn veit hvað satt er í því.
[2] „Hiuga“ er suðausturhluti Cukuŝi (nú Kiuŝiu).
[3] „Ashihara“ er fornt nafn á Japan.