Ég vil færa þessu þingi kærar þakkir og góðar óskir frá þeim hluta íslensku þjóðarinnar sem styður af heilum hug viðleitni hreyfingar okkar til að tryggja friðinn. Þá vil ég færa kveðjur og góðar óskir frá þeim sem berjast fyrir friði á Íslandi. Og einnig vil ég skila kveðjum frá Íslandsdeild alþjóðasambands lýðræðissinnaðra kvenna sem þykir afar leitt að að þær skyldu ekki geta sent fulltrúa á þennan mikilvæga fund.
   Þegar ég stend andspænis ykkur, kæru þátttakendur á þessu friðarþingi frá fleiri en 62 löndum, sem tala nokkra tugi tungumála, minnist ég sex annarra alþjóðlegra friðarþinga sem ég hef tekið þátt í. En þar var sá munur að allir þingmenn, allar þjóðir töluðu reiprennandi á einu og sama málinu, allir skildu þar alla auðveldlega, og þar voru engar þjóðir öðrum æðri vegna þess að tungur þeirra væru teknar fram yfir tungur annarra, og engar þjóðir réttlægri vegna þess að tungur þeirra ættu þar engan rétt, engar tíðkuðust þar þýðingar af einni tungu á aðra, ekki var þar einn einasti sentimetri af vírþræði til að flytja hugsanirnar inn í eyrun. (Fyrir þingið í Sheffield höfðu menn þegar lagt sex mílur af strengjum til að flytja þýðingarnar í hljóðnemana!). Þar fundust hvorki Englendingur, Kínverji né Dani. Þar voru einungis menn.
   Þetta dásamlega samskiptatæki var Esperanto, alþjóða hjálparmálið, skapað af doktor Zamenhof, syni pólsku þjóðarinnar og framverði friðarins.
   Sérhver alþjóðleg hreyfing þarfnast sameiginlegrar tungu til þess að sleppa við mikinn kostnað og leiðinlegar þýðingar og til þess að skapa beint samband milli manna í slíkum hreyfingum og milli félaga á sérhverju mikilvægu alþjóðaþingi.
   Það er engin þörf á að leita að slíkri tungu. Sú tunga er þegar til þar sem er Esperanto, auðlært mál, röklega uppbyggt, og hlutlaust þar sem það tilheyrir engri sérstakri þjóð heldur öllu mannkyni. Ég tala við ykkur á þeirri tungu.
   Með þessu ákalli fulltrúa mjög lítils málsamfélags lýk ég máli mínu um leið og ég færi hinni gestrisnu pólsku þjóð og ríkisstjórn hennar hlýjar þakkir.