(Alþýðublaðið 25. nóvember 1933 – Lesbók alþýðu)
Bréfið var endurprentað í Heimskringlu í Winnipeg, 10. janúar 1934.
 
Segja má að bréf þetta sé fyrsta harða ádeilan á íslensku á stjórnarfarið í Þýskalandi eftir að Hitler tekur þar formlega við völdum 30. janúar 1933. Segja má að Hitler hafi svo orðið fullkomlega alráður um sumarið eftir „nótt hinna löngu hnífa“ (30. júní til 2. júlí) þegar hann lætur drepa helstu keppinauta sína innan nasistaflokksins, meðal annars stormsveitarforingann Ernst Röhm. En til þeirra atburða vitnar Þórbergur nokkrum sinnum í bréfinu. Bréf þetta var vitaskuld ekki birt í La Nova Germanlando, hefur vafalaust verið fargað hið snarasta hjá ritstjórninni. Eiginhandarrit Þórbergs að bréfinu á Esperanto hefur heldur ekki varðveist og bendir það til þess að hann hafi verið að flýta sér svo mikið að koma því frá sér að hann hafi ekki gefið sér tíma til að taka afrit eins og hann var vanur.  
   Baldur Ragnarsson þýddi bréfið síðar á Esperanto eftir hinni íslensku þýðingu Þórbergs sem hér birtist. Kom sú þýðing út í La Tradukisto 12a marto 2009 - 58a numero.
 
[Kennarasamband esperantolærðra kennara í Saxlandi sendi mér nýlega blað og sérprentaða ræðu eftir Adolf Hitler, hvort tveggja skráð á Esperanto. Blaðið heitir La Nova Germanlando (Hið nýja Þýskaland), og ræðan ber fyrirsögnina: La mondo atentu: parolas Adolf Hitler (Heimurinn taki eftir: Adolf Hitler talar). Fram að byltingunni gaf kennarasamband þetta út ágætt esperanto-tímarit um fræðslu- og uppeldismál, En tímritið var frjálslynt og þess vegna var það gert útrækt í Þýskalandi þegar „nótt hins langa rýtings” lagðist yfir landið í fyrra vetur. Nú er það gefið út í Hollandi.
   Nú sendir kennarasambandið, í staðinn fyrir hið ágæta uppeldistímarit, út um víða veröld La Nova Germanlando sem í þetta sinn er allt árás á Gyðinga. Ræða kanslarans, sem einnig er útbýtt á vegum félagsins, er einhver sá brjóstumkennanlegasti kjaftaþvættingur sem ég hefi nokkurn tíma séð á prenti. Mér rann svo til rifja, þegar ég sá menntaða menn vera að senda út um heiminn aðra eins hryggðarmynd heimsku og fáfræði, að ég gat ekki orða bundist og skrifaði ritstjóranum eftirfarandi bréf á Esperanto.]
 
   Reykjavík, 16. nóvember 1933.
 
   Herra ritstjóri „Nýja Þýskalands”.
 
Ég þakka yður sendinguna, blaðið Nýja Þýskaland og ræðu herra Hitlers. Ég hefi lesið hvort tveggja. Þegar ég hafði lokið við að lesa ræðu kanslarans í þriðja sinn spurði ég sjálfan mig næstum örvæntingarfullur: Hvernig í ósköpunum stendur á því að menntaðir, „kynhreinir aríar” eru að senda út þessa grængolandi endaleysu? Finna þeir í raun og veru eitthvert vit í þessum óskiljanlega hrærigraut innantómra orða? Hefir þessum ómenntaða öskurapa í raun og sannleika tekist að blinda menntaða þjóð með svona hugsunarlausu kjaftaglamri, augsýnilegum mótsögnum og jesúítalegum röksemdafölsunum?
   Já. Því miður hefir honum tekist það.
   Þér Þjóðverjar lifið um þessar mundir í eins konar ölæðisbrjálsemi er beinist að bjánalegum kynflokkaórum, herskárri hetjudýrkun, villidýrslegum ofsóknum og gagnrýnislausri tilbeiðslu á kvalasjúkum þorpurum sem nú hýða og tukta þjóðina. Þetta ástand yðar skýrir þann skort á gagnrýni og blygðunarsemi að skammast sín ekki fyrir að senda út önnur eins plögg og „Nýja Þýskaland” og ræðu Hitlers.
   Herra Hitler segir í ræðu sinni: „Sérhvert högg styrkir mótþróann, sérhver ofsókn eflir hinn þverúðarfulla viljakraft . .” Þetta þykja ef til vill spámannleg orð sem vekja eldmóð og hrifningu meðal þýskra aría. En hjá íslenskum aríum eru það ósköp hversdagsleg sannindi sem jafnvel hvert skólabarn kann að hegða sér eftir eins og slunginn keppinautur. En ég vil leyfa mér að spyrja yður: Hefir ógnarstjórn Hitlers barið og ofsótt 60 þúsundir saklausra manna á fjórum fyrstu mánuðum einræðisins til þess að styrkja mótþróa þeirra og efla hinn þverúðarfulla viljakraft gegn siðleysi valdhafanna? Hafið þér komið auga á hið fagra samræmi milli orða og gerða kanslara yðar?
   Ég hefi ónotalegan grun um að ég viti meira en þér um ofsóknir, kvalasjúkar misþyrmingar og morð í Þýzkalandi síðustu átta mánuðina. Blöð yðar segja ekki frá glæpum ríkisstjórnarinnar. Og sérhvert útlent blað, bók og bréf sem frá þeim hermir, er bannað og gert upptækt í landi yðar undir því yfirskini að þau flytji róg og lygar um Þýskaland. En út yfir landamærin hefir borist frá blaðamönnum, þjáðum og limlestum fórnarlömbum og landflótta lýð aragrúi af áreiðanlegum og margstaðfestum lýsingum á jafnvel hinum hryllilegustu glæpum sem nokkurn tíma hafa átt sér stað í allri hinni ógeðslegu villimannasögu vestrænna þjóða. Þær yfirstíga meira að segja villimennsku spænska rannsóknarréttarins í barbarisma miðaldanna.
   Veigamesta heimildargagnið um þessi glæpaverk er hin fræga Brúna bók um ógnarstjóm Hitlers og ríkisþingsbrunann (The Brown Book Of The Hitler Terror And The Burning Of The Reichstag).* Bókin er samin, eins og yður mun kunnugt, af alþjóðanefnd til hjálpar fómardýrum fasismans í Þýskalandi. Forseti nefndarinnar, Marley lávarður, segir í formálanum fyrir þessu merkilega riti: „Sérnver skýrsla (statement) í þessari bók hefir verið vandlega staðfést (carefully verified) og er sérkennileg fyrir mörg svipuð tilfelli.”
   Öll Brúna bókin er hið ægilegasta heimildargagn, sem ég hefi nokkurn tíma séð, um bjánaskap, skrælingjahátt og villidýrsæði. Slíkar hetjudáðir geta hinir rógbornu og ofsóttu Gyðingar ekki sýnt hinum siðaða heimi úr mörg þúsund ára sögu sinni. Allur sá hinn mikli sægur staðreynda, sem Brúna bókin sannar, verður óafmáanlegur smánarblettur á „kyngöfgi” hinna útvöldu aría. Það væri ólíkt meiri greiði við siðmenningu arískra þjóða ef þér gætuð brennt upp í Gehenna tortímingarinnar þennan þátt úr sögu yðar, heldur en að hafa lagt í ösku ritverk þeirra manna er hæst stóðu meðal yðar að lærdómi, snilld og vitsmunum. 
   Það er engan veginn hryllilegast við þessa bók að hún sannar upp á Hitlers-stjórnina fjölda skipulagðra morða og manndrápa. Slíkir glæpir gerast oftast meira og minna á byltingartímum. En það er þessi takmarkalausa sálarfróun sem ríkisstjórnin þýska og böðlar hennar hafa af því að misþyrma mönnum, kvelja þá, pína og pynta, bæði í fangelsunum og utan fangelsanna — það er þetta sem neyðir lesandann til þess að efast um hvort hann eigi að skipa þessu óaldarhyski í tölu mennskra manna eða setja það á bekk með vampýrum þjóðsagnanna. Og það, sem þó keyrir fram úr öllu öðru, það eru hugsjónir, fyrirskipanir, yfirlýsingar og ræður þeirra Hitlers, Goebbels og Goerings. Það gerir glæpi þeirra jafnvel að heilögum hetjuverkum.
   Skýrslu yðar um hlutföllin milli Þjóðverja og Gyðinga í ýmsum atvinnugreinum og æðri stöðum og embættum verð ég því miður að taka með varkárni. Ég hefi sterkan grun um að ríkisstjórn nasista feili sér ekki við að falsa tölur eftir geðþótta sínum. En ef skýrslan skyldi vera rétt þá myndi mig furða það stórlega að hinir fyrirlitnu Gyðingar skuli vera svona hlutfallslega margfalt fleiri í æðri stöðum og ábyrgðarmiklum embættum en þessir montnu, kynhreinu aríar.
   Ég les í lexíkoni mínu að rétt fyrir heimsstyrjöldina hafi einir 608 000 Gyðingar búið í öllu Þýskalandi. Brúna bókin telur þá um 600 000. Og eins gerir skýrsla yðar. Hvernig víkur því við að þér getið sífellt verið að sífra og kvarta yfir því að þetta örlitla brot, þetta eina prósent þýsku þjóðarinnar, standi hvarvetna í vegi fyrir hinum 99 prósentunum, ráði og ríki yfir Þýskalandi og sé ein af meginorsökunum að óförum yðar?
   Ef það er rétt að 600 000 sálir séu færar um að skara svo mjög fram úr meðal þjóðar, sem er um 60 milljónir og þar að auki að mestu leyti kynhreinir aríar, þá hljóta þær að standa á miklu hærra vitsmuna- og atorkustigi en aríarnir. Og ef svo er, þá hafa þær vitsmunalegan og siðferðilegan rétt til þess að stjórna arísku þöngulhausunum.
   Leiðtogar yðar kenna að hin eyðileggjandi öfl þýsku þjóðarinnar séu Gyðingar og jafnaðarmenn. Og þetta virðist þeim hafa tekist að berja inn í yðar trúgjörnu höfuð. En þrátt fyrir það ljúga þeir þessu. Hin eyðileggjandi öfl yðar eru hvorki Gyðingar né jafnaðarmenn. Yðar eyðileggjandi öfl eru kapítalisminn og vont uppeldi. Kapítalisminn var orsök heimsstyrjaldarinnar og afleiðinga hennar. Það er fyrsta bölvun yðar.
   Öldum saman hefir þýska þjóðin verið alin upp í tilbeiðslu á hlægilegum keisurum, ruddalegum herforingjum og auðmýkjandi kirkju. Þetta hefir skapað aðdáun mikils hluta þjóðarinnar á hinu ruddalega valdi, auðmýkt hans og snobbirí fyrir toppfígúrum og mönnum í háum stéttum og stöðum, hið oddborgaralega viðhorf hans við lífinu og skort hans á þeirri siðmenntuðu gagnrýni, sem aðeins hefir sannleikann að endimarki. Það hefir blásið upp þjóðernisgorgeir hans og hernaðardramb. Og þetta sama uppeldi hefir holdi klætt hið persónulausa hjarðareðli sem nú hefir þjappað meginhluta þjóðarinnar saman um einhverjar þær fáránlegustu hugsjónir sem nokkurn tíma hafa verið boðaðar á þessari plánetu. Þetta mannspillandi uppeldisverk leiðir það af sér að þegar fram koma nógu ósvífnir ruddar eins og heilaleysinginn Hitler, morfínsvitfirringurinn Goering og þessi Goebbels sem á myndum lítur út eins og glæpamaður, þegar slíkar afturgöngur hins prússneska hernaðaranda vaða fram með „hinn langa rýting”, þá beygir hjörðin sig, lætur kúgast, auðmýkist, trúir og finnur guðlega speki í þessu samsafni af aumasta snakki. Og ennþá einu sinni endurtekur sig gamla sagan um nýju fötin keisarans.
   Þetta er önnur bölvun yðar.
   Nú sem stendur virðist þér trúa því, að nasisminn ráði bót á vandræðum yðar. En þér getið verið alveg vissir um að það er einmitt þetta sem honum tekst ekki. Ef til vill heppnast honum að ala yður upp í herskáa ofbeldisseggi (sbr. bænina sem nú er kennd börnum yðar: „Drottinn, blessa þú her vorn . .”). En hann mun jafnframt þröngva öllum lífskjörum yðar á lægra stig og draga yður aftur á bak í menningunni. Og vandkvæði einstaklinganna og þjóðarinnar verða óleyst eftir sem áður. En nasisminn getur frestað viturlegri úrlausn um nokkur ár eða í mesta lagi nokkra áratugi.
   Á Ítalíu hefir fasistísk ofbeldisstjórn setið að völdum í 11 ár. Og hvað hefir hún áunnið? Ríkisskuldirnar hafa farið sívaxandi, atvinnuleysið er ákaflega mikið, fátækt einstaklinga er engu minni en áður og betlið heimskunna heldur áfram í stórum stíl þótt ríkisstjórnin státi af því að það sé bannað með lögum. Aðalávinningur fasismans á ítalíu eru grimmdarverk, þjóðernisgorgeir, öflugur her og yfirmennskutildur. Og þó á hreyfingin þar foringja sem vafalaust er gæddur mörgum vitsmunum Hitlers.
   Fasisminn (og nasisminn) er hvorki grundvallaður á vísindalegri né mannúðlegri undirstöðu. Hann er fjandsamlegur þeim lögum sem þróun mannfélagsins lýtur. Hann er brotthlaup frá hinum raunverulegu orsökum mannfélagsvandræðanna, flótti undir yfirskin ýmsra uppdiktaðra þjóðfélagsmeina (hjá yður: ofsi gegn jafnaðarmönnum og Gyðingum, þjóðernisgorgeir, kynflokkaátrúnaður, kynferðisdella o. s. frv.). Þannig tekst honum að draga athygli hins ógagnrýna og trúgjarna almennings frá veröld veruleikans inn í hálfdulspekilegan orðavaðal blekkinga og ósanninda.
   Þar að auki er fasisminn boðaður með þeim hætti að hann rökræðir aldrei málefnin og beinir þar af leiðandi ekki skeytum sínum til vitsmuna manna eða þekkingar. Hann þjösnast áfram með rakalausu, ofstækisfullu orðbragði, hatursþrungnum gífuryrðum, í tón sem er nákvæmlega eins og öskur sálsjúks trúskiptings. Og hann virðir gersamlega að vettugi öll rök, staðreyndir, sannleika.
   Þessi bardagaaðferð hittir það fólk í hjartastað sem stendur á fremur lágu vitsmunastigi, er óhæft til þess að gera sér grein fyrir viðfangsefnum eftir leiðum rannsakandi hugsunar, hefir sterkar ástríður í hlutfalli við hugsunarþroskann og er þess vegna venjulega grimmt þegar atvikin hrinda því út úr jafnvægi makindalífsins. Þannig hefir fasismanum tekist að safna að sér soraöflum mannfélagsins. Fasisminn er því gersamlega andstæður heildarþróun hinna andlegu krafta, því að hún er vaxandi hæfileiki til að rannsaka og rökhugsa, víkkun vitsmunalífsins sem er fjandsamleg ofbeldi og kúgun.
   Af þessum tveimur meginástæðum: algerðri vöntun á vísindalegri undirstöðu og beinni andstöðu við alla sálræna þróun, leiðir það að fasisminn fellur óumflýjanlega um sjálfan sig. Hann er aðeins stundarsjúkleiki, hálfheiðin múgsvitfirring, fjandsamleg öllu því sem veit til meiri þroska í manneðlinu. Fasisminn er pólitísk endurholdgun á galdrabrennum miðaldanna. Og hakakrossinn, tákn hinnar heiðinglegu villimensku, mun tortímast fyrir sama aflinu og jafnaði við jörðu bálkesti hinnar katólsku heiðni.
   Ég geri alveg eins ráð fyrir að þetta bréf verði gert upptækt af ofbeldislýðnum á landamærunum. En ef svo skyldi til takast að það smygi gegnum hendur hans bið ég yður að gera svo vel og senda mér línur, meðal annars til þess að sanna mér þetta persónufrelsi sem þér eruð að guma af að nú sé í Þýskalandi herra Hitlers. Ég vil gjarnan taka það fram að ég er ekki kommúnisti. Ég er aðeins einfaldur flokksleysingi sem elskar staðreyndir. Gagnrýni mín á ráðandi hluta þýsku þjóðarinnar felur alls ekki það í sér að ég álíti aðrar þjóðir heilagar. Ég er hvorki með né móti neinni sérstakri þjóð. Ég er hafinn yfir öll yðar oddborgaralegu þjóðerni. [Ath. Hér kemur greinilega fram stefna þjóðleysingjans] En ég er svarinn fjandmaður hvers kyns fíflsku og hvers konar grimmdar og glæpaverka hvort sem þau eru skipulögð í himninum, í helvíti eða niðri í Þýskalandi. Þessa síðustu átta mánuði hefir ríkisstjórn yðar og hýenur hennar skipulagt heimskuleg verk, beitt grimmd og framið glæpi sem mér vitanlega eiga varla sinn líka annars staðar en í kvalasjúkustu lýsingum miðaldapresta á helvít[is]píslum fordæmdra.
 
                                                Með hjartanlegri kveðju.
 
                                                Þórbergur Þórðarson
 
100% kynhreinn, norrænn aríi, fremur hávaxinn, ljós með gráblá augu og hefir oft hendur í vösum þegar hann talar.
 

* Þessi bók fæst hjá Eggert Briem og Snœbirni Jónssyni. Ég vildi mega
benda öllum þeim á að lesa hana er vilja vita um grimmdarstjórn Hitlers.