Reykjavík, 10. ágúst 1932
 
Kæra Gerarda!
 
   Nú er langt um liðið – og enn hef ég ekkert heyrt frá þér né frétt af þínum högum. Í vor ætlaði ég til Arnheim til að vera viðstaddur námskeið hjá Andreo ĉe í ágúst. En krefjandi vinna kom í veg fyrir að ég gæti farið. Ég hef nefnlega nýlokið bók sem ég kalla „Alþjóðamál og málleysur“. Handritið er 243 síður í sömu stærð og þetta bréf. Ég byrjaði á verkinu 15. maí og lauk því 6. ágúst. Samtímis hreinskrifaði ég álíka langt handrit fyrir vin minn. Það var þýðing vegna sovéskrar fimm ára áætlunar. Á þessu geturðu séð hvort ég vinn ekki talsvert hratt!
   Fínlega ýjar þú að ástleysi mínu á mönnunum í síðasta bréfi þínu. Það er staðreynd að ég elska ekki mennina. En ég hata þá ekki heldur. Ég hef heldur góðan þokka á þeim öllum nema heimsins leiðinlegasta manni. Hann er verkfræðingur sem borðaði einu sinni í sama mötuneyti og ég. En ég geri mér engar gyllivonir, hvorki um mennina né um lífið yfirleitt. Ég hef alltaf forðast að ljúga, bæði að sjálfum mér og öðrum. Ég hef alltaf leitast við að meta sérhvert málefni eins og ég álít það vera réttast eftir nákvæma yfirvegun. Annað mat er ekki einungis ómóralskt heldur hefur það einnig óþægilegar afleiðingar í för með sér. Ég þekki menn sem hafa bitið í sig þá sannfæringu að allt í heiminum sé gott og fagurt. En einn góðan veðurdag hittu þeir fyrir sér þá beisku staðreynd að því er þveröfugt farið. Og þeir misstu sálarró sína og örvæntu.  
   Slíkt viðhorf til lífsins er alrangt og hættulegt. Það er hækja ragmennskunnar. Menn nota hana því að þeir óttast sannleikann. Mennirnir verða að læra að standa á eigin fótum án nokkurs stuðnings af fölskum hugmyndum. Öll trúarbrögð, allar kreddukenningar, allar bænir eru sprottnar af þeirri staðreynd að mennirnir eru alltaf að leita stuðnings að utan. Og í sínu heimskulega fálmi trúa þeir að þeir finni endanlega lausn vandamála sinna. Í augnablikinu geta þeir öðlast eins konar sýndarfullnægju. En í rauninni hrepptu þeir aðeins tálvon. Fyrr eða síðar, þegar þeir hafa vaxið að visku eða þegar ógæfa hittir þá fyrir, standa þeir gersamlega hjálparvana og örvæntingarfullir í hrakviðrum lífsins. Að mínu viti er lífið hvorki gott né vont, hvorki fagurt né ljótt. Það er einungis hlutlaus staðreynd. Og [því] geri ég mér aldrei neinar gyllivonir.
   Fyrir nokkrum árum þekkti ég danska hjúkrunarkonu sem stýrði holdsveikrahæli rétt utan við Reykjavík. Hún var bæði vel menntuð og gáfuð. Hún var einnig algjörlega sannfærður guðspekingur. Hún tilheyrði reglu hinna útvöldu í Guðspekifélaginu í Reykjavík. Enginn hefði getað verið sannfærðari um ýmsar kreddukenningar guðspekinnar en hún. Endurholdgun, forlagatrú, tilvist Guðs og hamingjusamt líf eftir dauðann var henni jafn raunverulegur sannleikur og hinn efniskenndi heimur. Og það var næstum eins og hún þreifaði daglega á návist hinna heilögu meistara í Tíbet. Þeir voru hennar daglega brauð. Og hún lifði sæl í sinni trú.
   Á spítalanum var sjúklingur, einstaklega gáfaður og vel upplýstur en ekki mikið veikur. Hann var einnig sannfærður guðspekingur og hann þýddi og samdi mjög mikið um þess háttar efni. Hann og hjúkrunarkonan elskuðu hvort annað. En fyrir nokkrum árum dó þessi vitri guðspekingur. Þá fylltist hjúkrunarkonan mikilli örvæntingu. Hún grét og stundi og fann hvergi nokkra huggun. Með öðrum orðum: Öll hennar guðspeki, endurholdgun hennar, forlög hennar, hinn almáttugi Guð hennar, hinir miskunnsömu meistarar hennar, — ekkert af þessu varð henni til nokkurrar huggunar þegar hún mætti staðreyndum lífsins.
   Þvílíkar ytri hækjur eru falskar: Í rauninni veikja þær mennina því að þeir venjast á að treysta á æðri máttarvöld fremur en sjálfa sig.
   Í heiðinni siðfræði íslenskri er að finna mörg viturleg ráð sem taka fram þrælasiðfræði krstindómsins. Meðal annars gefur hún mönnum þetta ráð:
            Sjálfur leið þú sjálfan þig!
Og hinir fornu Íslendingar voru einstaklega hugrakkir, áreiðanlegir, skýrir í hugsun og lausir við hvers konar fordóma. Bókmenntir þeirra eru svo hlutlausar, svo óhlutdrægar að aldrei verður séð hvort þeim, sem söguna segir, líkar betur við eina persónu fremur en aðra, jafnvel þegar hann segir frá átökum nánustu ættingja sinna við óvini þeirra.
   En kristindómurinn kom og hann kenndi:
            Ekki skaltu treysta þinni eigin dómgreind! Láttu Guð leiða þig!
Og í stað hugrakkra manna fengum við biðjandi heigla. Og í stað áreiðanlegra manna komu svikarar og hræsnarar. Í stað þeirra, sem ekki dæma að óathuguðu máli, spruttu fram kreddumenn, ofstækismenn, smámunaseggir og galdrabrennumenn, stöðugt biðjandi til Guðs hvenær sem nokkur vandræði bar að höndum. Þannig var einnig hið andlega ástand í öðrum kristnum löndum allar miðaldir. Miðaldirnar voru tími andvarpa og gráthljóða.
   Ég hefi lýst fyrir þér lífi þeirra manna, sem ég þekki, eins og það er. Ég hefi ekki lagt dóm á þá sem góða menn eða vonda. Ég hefi aðeins lagt fram staðreyndir. Þannig eru mennirnir, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í Hollandi og öllum öðrum pörtum jarðarinnar. Ef þú gefur gaum að mönnunum kemstu að raun um að næstum allir sækjast eftir einhvers konar efnislegum gæðum, auðæfum, völdum, frægð. Og í kringum þessi fánýti snúast hugsanir þeirra á eilífu hringsóli. Og vegna þessa fórna þeir öllu því að ekkert annað skiptir þá nokkru máli. Og nú kem ég að spurningum þínum.
   Þú spyrð hvort ekki sé einhver meðal okkar sem ég dáist mjög að. Ég dái ýmsa eiginleika nokkurra manna en engin persóna nýtur óskertrar aðdáunar minnar.
   Þú spyrð einnig, hvað sé yoga. Yoga er heimspekikerfi og praktískar indverskar aðferðir til að rækta líkama sinn og sál. Yoga skiptist í fimm greinar. Fyrsta er Hata yoga. Það byggir á mismunandi líkamsæfingum, með hverjum sagt er að maður geti öðlast fullkomna heilsu og náð algerri stjórn á líkama sínum. Önnur greinin er Raja yoga. Það er sambland líkamsæfinga og andlegra æfinga. Hinar þrjár greinarnar eru oft nefndar „hinn þrefaldi vegur“. Þær nefnast Gnana yoga, Bhakti yoga og Karma yoga. Þær eru heimspekikerfi um breytni mannsins svo hann geti öðlast andlega fullkomnun. Yoga-heimspekin segir að mönnum megi skipta í þrjár gerðir: hina hugsandi menn, tilfinningamenn og athafnamenn. Og yoga kennir að það sé alrangt „að bjarga“ þeim öllum með sömu aðferðinni eins og kristindómurinn leitast við að gera (með stöðugum bænum). Hugsuðurinn getur ekki beðist fyrir og athafnasemin skiptir ekki sköpum í lífi hans. Hann fylgir vegi Gnana yoga. Tilfinningamaðurinn getur ekki hugsað röklega og hneigist ekki heldur til framkvæmda en hann hallar sér að bænahaldi. Hann fylgir vegi Bhakti yoga. Framkvæmdamaðurinn er hvorki fær um að hugsa röklega eða biðja bænir en hann starfar. Hann fylgir vegi Karma yoga. En enginn þessara þriggja manna er „hreinn.“ Þeir blandast í sérhverri persónu en samt þannig að einhver þeirra er þar fremstur hinna.
   Þú spyrð mig enn fremur hvað ég vilji segja með orðtakinu:
„Hún fór til að hlýðnast skipun síns himneska föður.“ Svarið muntu finna í Fyrstu Mósebók, 1,28: „Og Guð blessaði þau [þ.e. Adam og Evu], og Guð sagði við þau: Verið frjósöm og margfaldist og uppfyllið jörðina ... “
   Við setningunni: „Á meðan á drykkjunni stóð gleymdi hann (Stefán) ekki hinum kvenlegu þörfum“ færðu svarið ef þú veltir dálítið fyrir þér tímanum þegar þú trúlofaðist sjálf!
   Af Ysselstein hef ég ekkert frétt. Áður en ég fór úr Esperanto-húsinu skrifaði hann heimilisfang mitt en hann sendi mér aldrei eitt aukatekið orð. Ég talaði mikið við hann en spurði hann aldrei um neina leynireglu. Mér var ljóst að hann var tengdur trúmálum og kirkjunni. Hjá honum blönduðust saman gamaldags og nýmóðins hugsunarháttur. Samt féll mér afar vel við hann.
   Því miður verð ég að valda þér óþægindum með dálítilli bón. Þannig er mál með vexti, að næsta vetur ætla ég að halda bréfanámskeið í Esperanto á Íslandi. En ég veit hreint ekkert um fyrirkomulag slíkra námskeiða. Reyndar hef ég lesið um þau og meðal annars heyrt að þau hafi verið haldin í Hollandi. Gætir þú gert mér þann mikla greiða að útvega mér eitt eintak af slíku námskeiði, sem ég gæti haft til fyrirmyndar í minni kennslu, ef hægt er að ná í það? Eru þau ekki til prentuð eða vélrituð? Ef þú getur þetta viltu þá senda mér upplýsingar um verðið og ég sendi þér þegar í stað peningana.
   Að lokum sendi ég þér hér með rithönd sem þú ert beðin um að ráða í. Greiðsluna sendi ég einnig hér með.
            Með hjartans kveðju,
            Thorbergur Thordarson