Seint mun verða sópað burt skini mána
og seint munu tjáðar allar mannanna þrár.
Á glitklæðum haustsins daggardropar blána,
dulfagrir ljósormar kvika um engi og blár.
Sól og tungl þó sökkva við myrkursins ósa
og svo mun og hrörna himinn og jörðin með.
Trjáskríkja sú er kliðar í laufinu ljósa
leikur sér grunlaus um fúann sem nagar tréð.
Síst mun það skrök sem vitrir á viskustein letra
á vegferð sinni þótt blindinginn hljóti ekki svör
og ekki munuð þið allir þúsund vetra
sem óspart kvartið um dauðans snemmbúnu för.
Bergið á jaðekrús, látið sál ykkar sökkva,
sorgir veraldar hverfa í miðinum dökkva.

(Þýtt úr: El ĉina poezio, p. 39. Þar er ljóðið þýtt á Esperanto af S. J. Zee)