(Þýðing Þórbergs í Eddu, bls. 226–228)
 
La nacia himno de la musoj
 
(Þjóðsöngur músanna) er rímaður aftan við barnaævintýri, er höfundurinn setti saman á Esperanto snemma sumars 1936). Það kom út ári síðar í Esperanto I, lestrarbók handa byrjendum, bls. 61–62. Ævintýrið heitir á Esperanto La religio de la musoj — trúarbrögð músanna — og hljóðar svo í lauslegri þýðingu á íslensku:
   Í byrjun síðustu kennslustundar[1] í skólanum spyr fröken Vitrún börnin: Hver er versti óvinur músanna?
Börnin (í kór): Kötturinn.
   Kennslukonan: Hvers vegna er kötturinn versti óvinur músanna?
   Silla: Af því að mýsnar syngja á næturnar, svo að kötturinn getur ekki sofið.
   Rósi (grípur fram í): Bjánaskapur! Kötturinn er versti óvinur músanna af því að þær eru góðar í sér en hann ótamið villidýr.
Kennslukonan: Það er rétt.
   Jóhann (bætir við): Og þykir gott kjöt eins og músunum.
   Kennslukonan: Þegiðu Jóhann! . . . Hvað gerir kötturinn við mýsnar?
   Börnin: Hann drepur þær.
   Rósi (bætir við): Hann liggur fyrir þeim í dimmum skotum og grípur þær í kjaftinn, þegar þær eru að leika sér á næturnar, og étur þær.
   Kennslukonan: Verða mýsnar þá alveg að engu í maganum á kettinum?
   Börnin: Nei! Sálirnar í músunum lifa eftir dauðann.
   Kennslukonan: Lifa þær í kjallaranum eftir dauðann?
   Börnin: Nei! Þær fara til herra Stórmúsar uppá hæstaloft í húsinu.
   Kennslukonan: Er herra Stórmús góður við sálir músanna?
   Börnin: Já, voða-góður. Hann gefur þeim ákaflega fallegan bústað og mikið af korni og smjöri og hvítan borða yfrum halann.
   Kennslukonan: Gera sálir músanna þá ekkert annað en éta og ganga með hvítan borða yfrum halann uppá hæstalofti hjá herra Stórmús?
   Börnin: Jú-jú! Þær dansa og syngja fallega söngva frammi fyrir Herra Stórmús, af því að hann gaf þeim fallegan bústað og góðan mat og hvítan borða yfrum halann.
   Kennslukonan: En kötturinn? Lifir hann eftir dauðann?
   Börnin: Já, hann lifir, en hann fer ekki uppá hæstaloftið til Herra Stórmúsar. Honum er illa við ketti. Sál kattarins verður að vera í dimmum kjallara og fær ekkert að éta af því að hann var svo vondur við mýsnar.
   Kennslukonan: Kæru börn! Þið hafið svarað alveg rétt. Þetta er síðasta kennslustundin í skólanum. Og nú vil ég áminna ykkur öll: Gætið ykkar fyrir slægð kattarins, versta óvinar músanna. Biðjið kvölds og morguns til Herra Stórmúsar, að hann forði ykkur frá vélum hans og gefi ykkur fallegan bústað og mikið af korni og smjöri og hvítan borða um halann eftir dauðann. Að endingu skulum við standa upp og syngja þjóðsönginn okkar.
   Öll standa upp og syngja:
 
                   Glora domkel‘ de ni!
                   Leviĝu super ĉi‘
                   sur tuta ter‘!
                   Militu kontraŭ la kat‘!
                   Batalu senkompat‘!
                   Preĝu al Musopatr‘
                   pri venĝkoler‘!
 
              (Frægi húskjallari okkar!
                        Lyftu þér yfir allt
                        á allri jörðinni!
                        Stríddu gegn kettinum!
                        Berstu miskunnarlaust!
                        Biddu til Músaföður
                        um hefndarreiði.)
 

* Þarna gætir nokkurrar ónákvæmni hjá Þórbergi. Það kom reyndar út sama ár, 1936, í Lestrarbók handa byrjendum, bls. 43–45 . En bókin var svo endurútgefin árið eftir með viðbættum orðalista og þar er ævintýrið á bls. 61–62.
[1] Á nokkrum stöðum á undan hafa farið fram samtöl milli kennara og nemenda um ýms önnur efni. Kennslukonan, fröken Vitrún, er æruverð mús og nemendur hennar mýslingar.